Þessi réttur er guðdómlega góður og kemur virkilega á óvart. Þetta er í raun vegan réttur en það finnst öllum sem hafa smakkað hann góður hvort sem þeir eru vegan eður ei. Hráefnin eru hvorki mörg né flókin og það tekur enga stund að útbúa þennan rétt.
Heiðurinn af uppskriftinni á Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla. Í réttinn notar Valla smjörbaunir eða cannellini-baunir í dós en þær eru frekar hlutlausar á bragðið og henta því vel í alls kyns pottrétti og taka í sig bragðið af kryddum og öðrum hráefnum. Þær eru mjög næringarríkar, innihalda mikið af trefjum, kalki, járni svo fátt sé nefnt. Með réttinum er upplagt að bera fram ciabatta-brauð eða súrdeigsbrauð.
Ítalskur pönnuréttur með smjörbaunum, svörtum ólífum & ferskri basilíku
- 1 msk. ólífuolía
- 1 lítill laukur saxaður smátt
- 3 stór hvítlauksrif
- 1 dl svartar ólífur
- 2-3 msk. tómatpúrra
- ½ tsk. þurrkað timían
- ½ tsk. þurrkað oreganó
- ¼ tsk. chili-flögur
- 2 dósir smjörbaunir frá Rapunzel, með vökvanum
- 3 msk. kókosmjólk – þykki hvíti hlutinn
- 1 msk. rautt pestó, má sleppa en ég átti það bara til
- 2 msk. næringarger
- 2 tsk. sítrónusafi
- 1 tsk. grænmetiskraftur
- Salt og svartur pipar eftir smekk
- 2-3 msk. fersk basilíka söxuð
Aðferð:
- Saxið laukinn mjög smátt. Merjið hvítlaukinn og saxið einnig mjög smátt. Skerið ólífurnar í sneiðar ef þær eru heilar.
- Setjið ólífuolíu á pönnu og hitið í smástund, setjið lauk og hvítlauk út á og steikið við meðalhita í nokkrar mínútur. Varist að brenna laukinn.
- Setjið ólífurnar saman við ásamt tómatpúrru og kryddum. Steikið áfram í smá stund.
- Hellið smjörbaununum ásamt vökvanum út í, bætið kókosþykkninu saman við ásamt pestó, næringargeri og sítrónusafa.
- Hrærið vel saman og þegar kókosmjólkin er orðin vel samlöguð setjið þá grænmetiskraftinn út í og smakkið til með salti og pipar.
- Látið réttinn malla í 5 mínútur og setjið síðan fersku basilíkuna út í.
- Berið fram með nýbökuðu ciabatta-brauði eða súrdeigsbrauði.