Lucas og Leifur sameina krafta sína - Coocoo's Nest „bröns take over“

Lucas Keller á Coocoo's Nest og Leifur Kolbeinsson á La …
Lucas Keller á Coocoo's Nest og Leifur Kolbeinsson á La Primavera hafa sameina krafta sína og verða með bröns á Hnoss Bistro um helgar næstu misseri. Ljósmynd/Óli Ozzo

Lucas Keller á Coocoo's Nest og Leifur Kolbeinsson á La Primavera hafa sameina krafta sína. Nú hafa sælkerar þessa lands ástæðu til að gleðjast þar sem að tveir af ástsælustu kokkum landsins hafa ákveðið að leiða saman hesta sína.

Þeir Lucas stofnandi hins rómaða Coocoo's Nest á Grandanum og Leifur á La Primavera ætla næstu misserin að bjóða uppá glænýjan bröns á Hnoss Bistro á jarðhæð Hörpu.

„Þessi nýi bröns verður í hlaðborðsformi og undir sterkum áhrifum frá gamla Coocoo's Nest og því er réttast að tala um Coocoo's nest „bröns take over“ á Hnoss. Brönsinn verður opinn alla laugardaga og sunnudaga á milli kl. 11.30 og 14.30 - í allan vetur,“ segir Leifur.

Gimsteinn í veitingaflórunni sem gleymist seint

Coocoo’s Nest í gömlu verbúðunum á Granda var rekinn við rómaðan orðstír í 10 ár og eftir að hann lokaði hafa fastagestir staðarins stöðugt kallað eftir endurkomu í einhverju formi. Það kemur ekki á óvart enda sló Coocoo’s Nest í gegn um leið og hann opnaði og var raun hálfgert félagsheimili þar sem fastagestir mættu oft í viku og stundum tvisvar sama daginn.

Lucas Keller og Íris Ann Sigurðardóttir með drengjunum sínum.
Lucas Keller og Íris Ann Sigurðardóttir með drengjunum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin Lucas Keller og Íris Ann, stofnendur Coocoo's Nest, kynntust í Flórens, þar sem Lucas lærði matreiðslu og Íris nam sjónlist og ljósmyndun. Eftir að þau luku námi og fluttu til Íslands létu þau sameiginlegan draum rætast og opnuðu Coocoo's Nest sem var í senn veitingastaður, kaffihús og listagallerí.

„Tímasetningin var frábær enda voru gömlu verbúðirnar á Grandanum farnar að vekja athygli og var tilkoma Coocoo’s Nest lykilþáttur í því að kveikja fjölbreytt mannlíf á Grandanum,“ segir Lucas.

Coocoo’s nest var reistur af elju og dugnaði af þeim hjónum með hjálp fjölskyldu og vina. Mikið var endurnýtt úr nærumhverfinu og gömul og falleg húsgögn fengu nýtt hlutverk. Á sama tíma var fjölskylda Lucasar og Írisar að stækka og voru börnin þeirra tvö nánast alin upp á Coocoo’s nest á uppgangsárum staðarins.

Hefur unnið til verðlauna fyrir súrdeigsbrauðin sín

„Matseldin á Coocoo’s Nest hitti íslenska sælkera beint í hjartastað enda hefur sjálfbærni og hráefnagæði verið leiðarljósið hjá ástríðukokknum Lucasi Keller. Hann hefur unnið til verðlauna fyrir súrdeigsbrauðin sín og var helgarbrönsinn á Coocoo’s einn sá allra vinsælasti öll árin sem staðurinn var opinn.

Lucas leggur lokahönd á brönsinn um helgina.
Lucas leggur lokahönd á brönsinn um helgina. Ljósmynd/Óli Ozzo

„Eftir að Coocoo’s nest lokaði dyrunum höfum hjónin, unnið hörðum höndum að því að setja saman matreiðslubók Coocoo’s nest, sem segir sögu okkar og staðarins og þar deilum við uppskriftunum að vinsælustu réttum Coocoo’s í gegnum tíðina,“ segir Lucas. Bókin er í þann mund að koma út og er ljóst að fastagestir sem sakna staðarins munu taka gleði sína á ný.

Ferskt nýtt grænmeti fær að njóta sín í matargerðinni.
Ferskt nýtt grænmeti fær að njóta sín í matargerðinni. Ljósmynd/Óli Ozzo

Lífið fer í hringi

Samstarf þeirra Lucasar og Leifs á sér skemmtilega forsögu en fyrsta starf Lucasar í veitingamennsku á Íslandi var einmitt hjá Leifi á gamla La Primavera í Austurstrætinu. Leif Kolbeins þarf vitanlega ekki að kynna fyrir Íslendingum enda enda hefur hann í hátt í þrjá áratugi verið boðberi nýrra strauma og ilmandi hefða í matreiðslu. Með ástríðu sinni fyrir Norður- ítalskri matargerð hefur hann sameinað íslensk hráefni og ítalska matarhefð og í raun unnið grettistak í eflingu íslenskrar veitingahúsamenningar.

Samstarf þeirra Lucasar og Leifs á sér skemmtilega forsögu en …
Samstarf þeirra Lucasar og Leifs á sér skemmtilega forsögu en fyrsta starf Lucasar í veitingamennsku á Íslandi var hjá Leifi á gamla La Primavera í Austurstrætinu Ljósmynd/Óli Ozzo

Hnoss Bistro á jarðhæð Hörpu

„Hnoss Bistro er nýr og spennandi veitingastaður á jarðhæð okkar ástkæru Hörpu. Þar fást ferskir og bragðgóðir réttir, eldaðir af framúrskarandi kokkum undir leiðsögn minni og Stefáns Elí matreiðslumeistara. Bröns á Hnoss er frábær valkostur fyrir fjölskyldur, hópa og vini þar sem aðgengið er frábært og umhverfið glæsilegt. Tilvalið er að tvinna saman bröns á Hnoss og frábæra dagskrá Hörpunnar þar sem tónleikar, sýningar, barnaviðburðir og ráðstefnur eru daglegt brauð,“ segir Leifur og er farinn að hlakka til vetrarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert