„Fer á gæsa- og hreindýraveiðar“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir ljóstrar upp skemmtilegum matarvenjum sínum og ástríðu …
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir ljóstrar upp skemmtilegum matarvenjum sínum og ástríðu sinni fyrir skotveiðum. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Þór­dís Lóa Þór­halls­dótt­ir gleðigjafi og for­seti borg­ar­stjórn­ar Reykja­vík­ur ljóstr­ar up skemmti­leg­um mat­ar­venj­um sín­um og ástríðu fyr­ir skot­veiðum. Góður mat­ur er miklu upp­á­haldi hjá Þór­dísi Lóu en að sama skapi seg­ist hún ekki vera neitt sér­stak­ur kokk­ur.

„Ég er meira svona mat­gæðing­ur með mik­inn áhuga en tak­markaða hæfi­leika í eld­hús­inu. Elda­mennska kem­ur ekki nátt­úru­lega til mín og því fylgi ég leiðbein­ing­um og les mér til,“ seg­ir Þór­dís Lóa og hlær.

„Ég hef lengi verið fylgj­andi „slow food“ aðferðafræðinni. Part­ur af “slow food” er að rækta og veiða sinn mat. En ég er dol­fall­in fyr­ir skot­veiði og veiði mikið. Stanga­veiði, neta­veiði og skot­veiði eru í upp­á­haldi og nú er veiðisum­arið ný­búið og gæsa­veiðitíma­bilið byrjað og framund­an er gæsa­veiðiferð norður í land með góðum vin­um.“

Hún vill gera og græja alltaf sjálf. „Þá alltaf með styrkri hjálp mataráhrifa­valda sem ég á bæk­ur eft­ir eða fylgi á net­inu. Dæmi um það er upp­á­halds hjá mér er mat­gæðing­ur­inn Berg­lind Ólafs­dótt­ir sem held­ur úti síðunni Krydd og krás­ir og Otto Leng­hi. Svo á ég all­ar bæk­urn­ar eft­ir Nönnu Rögn­vald­ar sem er ein­hvers kon­ar mat­móðir heim­il­is­ins,“ seg­ir Þór­dís Lóa ein­læg.

Aðal­málið að elda minna

„Það var fer­legt þegar börn­in fluttu að heim­an, við hjón­in héld­um áfram að elda fyr­ir fimm manna fjöl­skyldu  og sát­um uppi með alltof stóra skammta og mikla af­ganga. Þannig að nú er aðal­málið að elda minna og ég hef tekið upp nýj­an takt sem ég kalla „Lóa og litl­ir disk­ar“ eða smáskammta aðferðafræðin. Svo er það nýj­asta í okk­ar lífi að við erum skóg­ar­bænd­ur þannig að fljót­lega mun ég stúd­era allt um lerk­i­sveppi og hvernig á að elda þá.“

Þór­dís Lóa er Breiðhylt­ing­ur og Árbæ­ing­ur, svona ein­hvers­kon­ar út­hverfa­kona í húð og hár að eig­in sögn. „Fyr­ir stuttu flutti ég í Laug­ar­dal­inn og er al­sæl enda bíður Laug­ar­dal­ur­inn upp á það sem ég sótt­ist eft­ir í Elliðaár­daln­um þ.e. góða úti­vist og sund­laug. Það sem var erfitt við flutn­ing­ana var að byrja að fara í nýja hverf­issund­laug.  Það er með ólík­ind­um hvað maður er vanafast­ur þegar það kem­ur að sund­laug­um, og nú fer ég stöku sinn­um í nostal­g­íu­ferðir í Árbæj­ar- og Breiðholts­laug­ina. Laug­ar­dals­laug­in er nýja hverf­is­laug­in mín og ég er kom­in upp á lagið með að synda í 50 metra laug en fyrst hélt ég að ég myndi drukkna,“ seg­ir Þór­dís Lóa og skelli­hlær.

Þórdís Lóa er Breiðhyltingur og Árbæingur, svona einhverskonar úthverfakona í …
Þór­dís Lóa er Breiðhylt­ing­ur og Árbæ­ing­ur, svona ein­hvers­kon­ar út­hverfa­kona í húð og hár að eig­in sögn. mbl.is/​Karítas Sveina Guðjóns­dótt­ir

Póli­tík­in stopp­ar ekki veiðina og úti­vist­ina

Póli­tík­in spil­ar stórt hlut­verk í lífi Þór­dís­ar Lóu en eins og fram hef­ur komið er hún for­seti borg­ar­stjórn­ar og odd­viti Viðreisn­ar í Reykja­vík. Hún kem­ur úr at­vinnu­líf­inu og fer inni í póli­tík árið 2018. Einnig er hún stjórn­ar­formaður Faxa­flóa­hafna og ber  ábyrgð á at­vinnu­mál­um, ný­sköp­un og ferðaþjón­ustu. Þannig að verk­efn­in eru mörg. Hún læt­ur samt verk­efn­in ekki stoppa sig í því að sinna áhuga­mál­un­um sem eru líka mörg, þar er úti­vist og veiði í for­grunni.

„Stanga­veiði í sil­ung og lax er eitt af mín­um upp­á­halds. Neta­veiði fyr­ir sil­ung og þá ekki síður gam­an að leggja net und­ir ís á vet­urna. Svo hef ég verið um langt skeið í skot­veiði og fer á gæsa- og hrein­dýra­veiðar en minna á rjúpu því mér finnst hún ekki góð.“

Þegar kem­ur að mat­ar­venj­um Þór­dís­ar Lóu seg­ist hún vera nokkuð vana­föst og halda í ákveðnar hefðir.

Hvað færðu þér í morg­un­mat?

„Sterk­ur expresso er það fyrsta sem ég hugsa um þegar ég vakna á morgn­ana. Í morg­un­mat fæ ég mér oft­ast gríska jóg­úrt með mús­lí og helst með hind­berj­um sem ég rækta sjálf en stund­um hrökk­brauð með osti og eggj­um.“

Er ægi­lega mats­ár og kaffis­ár

Finnst þér ómiss­andi að borða há­deg­is­verð?

„Ég er mikið á ferðinni og því er há­deg­is­verður oft smá höfuðverk­ur. Ég verð að borða í há­deg­inu því ann­ars verð ég eins og úlf­ur í af­mæl­is­veislu seinna um dag­inn. Ef ég gæti þá myndi vilja borða sal­at með góðu próteini í há­deg­inu. Ég næ oft að skella mér í mötu­neyti ráðhúss­ins og þá fer ég alltaf á sal­at­bar­inn sem er stór­fínn, nema þegar það vant­ar feta­ost þá verð ég ægi­lega mats­ár.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Ég er að passa mig að borða þrjár máltíðir á dag og eitt­hvað hollt og gott á milli mála. Ég hef í gegn­um tíðina borðað lítið á milli mála, en er að reyna að bæta úr því. Nú þegar ég fylgi skammta aðferðafræðinni. Mér finnst geggjað að fá mér epli eða smá hrökkk­ex með osti. Gott kaffi er ávallt mik­il­vægt með, en ég er einnig mjög kaffis­ár og þoli illa þunnt og vont kaffi. Svo er líka dá­sam­legt að fá smá súkkulaði um kaffi­leytið. Ég hef sagt skilið við allt bakk­elsi en þar sem summa last­anna er alltaf sú sama þá kem­ur oft upp mik­il súkkulaðiþörf um klukk­an fjög­ur á dag­inn.“

Hvað áttu alltaf til í ís­skápn­um?

„Ég á alltaf gríska Örnu jóg­úrt, ost, egg, papriku, límónu og smjör. Svo á ég oft­ast skinku og flat­kök­ur í frysti.“

Þegar þú ætl­ar að gera vel við þig í mat og drykk og vel­ur veit­ingastað til að fara á hvert ferðu?

Fer á Jóm­frúna um jól­in

„Ég á nokkra upp­á­haldsveit­ingastaði í Reykja­vík og árstíðin skipt­ir mig máli, þannig fer ég á Jóm­frúna um jól­in. Á sumr­in finnst mér dá­sam­legt að sitja úti á Fjall­kon­unni. Svo á ég mér nýj­an upp­á­haldsstað sem staðsett­ur er í mat­höll­inni Hafn­ar­torg Gallery en það er La Tratt­oria sem er ít­alsk­ur staður sem mér finnst frá­bær. Sand­holt er miklu upp­á­haldi ef ég fer eitt­hvað í morg­un­mat.“

Er ein­hver veit­ingastaður úti í heimi sem er á „Bucket-list­an­um“ yfir þá staði sem þú verður að heim­sækja?

„Það er ekki beint ein­hver sér­stak­ur staður sem er á „Bucket-list­an­um mín­um“, en mig lang­ar að fara ein­hvern tím­ann til Mar­okkó á góða veit­ingastaði og ef heim­spóli­tík­in þró­ast í átt að ást og frið þá lang­ar mig til Líb­anon. Mér finnst mat­ur frá þess­um heims­hluta óskap­lega góður.“

Hvað vilt þú á pítsuna þína?

Upp­á­hald­spít­s­an mín er humarpítsa sem ég geri sjálf eft­ir upp­skrift sem er inni á upp­skrifta­vefn­um Krydd og krás­ir hér.  

Hvað færð þú þér á pyls­una þín?

„Pylsa með öllu eins og Sunn­lend­ing­ar segja. Allt und­ir nema sinn­ep og remúlaði“

Gæsa-con­fit upp­á­halds

Upp­á­halds­rétt­ur­inn þinn?

„Gæsa­læra-con­fit, sem við höf­um unnið sjálf og ekki síður geggjað að nota af­ganga af gæsa-con­fit á sal­at með gráðosti og blá­berj­um.“

Hvort vel­ur þú kart­öfl­ur eða sal­at á disk­inn þinn?

„Ég er al­veg skil­yrt með kart­öfl­ur, þær verða að vera með smjör­steikt­um sil­ung og salvíu smjöri og með hæg­elduðum hrygg en þá er það nán­ast upp­talið. Mér finnst nýja kart­öfl­ur góðar og borða þær ef ég fæ ein­hverja upp­skeru en kart­öfl­ur eru ekki part­ur af dag­leg­um mat hjá mér. Sal­at og græn­meti er hins veg­ar eitt­hvað sem ég borða mikið af.“

Þórdísi Lóu finnst gaman að ræða pólitík yfir góðum bröns.
Þór­dísi Lóu finnst gam­an að ræða póli­tík yfir góðum bröns. mbl.is/​Karítas Sveina Guðjóns­dótt­ir

Gam­an að ræða póli­tík yfir góðum bröns

Hvort finnst þér skemmti­legra að baka eða mat­reiða?

„Mér finnst mjög gam­an að elda og baka þegar ég er í sveit­inni minni norður í Reykja­dal en í borg­inni elda ég minna, enda er starf for­seta borg­ar­stjórn­ar er­ilsamt og óút­reikn­an­legt og ég má lítið vera að því að hugsa um elda­mennsku. Um helg­ar reyn­um við að elda meira og þá finnst mér gam­an að elda kjúk­lingapasta og allskyns fisk en í sveit­inni baka ég mikið og á ávallt til dá­sam­lega súkkulaði köku í frysti og er að full­komna að baka krydd­brauð og sítr­ónu­köku,“ seg­ir Þór­dís Lóa spennt.

 „Í sum­ar kenndi svo frænka mín, hún Þór­dís Petra tón­list­ar­kona, mér að baka „Focaccia“ brauð sem er mjög skemmti­legt og ein­falt þegar maður er búin að átta sig á tím­an­um og tækn­inni við að láta deigið hefa sig.“

„Ég er mik­il bröns mann­eskja, og mér finnst dá­sam­legt að skella í góðan bröns. Tína úr ís­skápn­um og  raða því upp fal­lega og áður en maður veit af er kom­inn þessi dýr­ind­is bröns. Svo er líka svo gam­an að ræða póli­tík í ró­leg­heit­un­um yfir góðum bröns,“ seg­ir Þór­dís Lóa að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert
Loka