Þórdís Lóa Þórhallsdóttir gleðigjafi og forseti borgarstjórnar Reykjavíkur ljóstrar up skemmtilegum matarvenjum sínum og ástríðu fyrir skotveiðum. Góður matur er miklu uppáhaldi hjá Þórdísi Lóu en að sama skapi segist hún ekki vera neitt sérstakur kokkur.
„Ég er meira svona matgæðingur með mikinn áhuga en takmarkaða hæfileika í eldhúsinu. Eldamennska kemur ekki náttúrulega til mín og því fylgi ég leiðbeiningum og les mér til,“ segir Þórdís Lóa og hlær.
„Ég hef lengi verið fylgjandi „slow food“ aðferðafræðinni. Partur af “slow food” er að rækta og veiða sinn mat. En ég er dolfallin fyrir skotveiði og veiði mikið. Stangaveiði, netaveiði og skotveiði eru í uppáhaldi og nú er veiðisumarið nýbúið og gæsaveiðitímabilið byrjað og framundan er gæsaveiðiferð norður í land með góðum vinum.“
Hún vill gera og græja alltaf sjálf. „Þá alltaf með styrkri hjálp mataráhrifavalda sem ég á bækur eftir eða fylgi á netinu. Dæmi um það er uppáhalds hjá mér er matgæðingurinn Berglind Ólafsdóttir sem heldur úti síðunni Krydd og krásir og Otto Lenghi. Svo á ég allar bækurnar eftir Nönnu Rögnvaldar sem er einhvers konar matmóðir heimilisins,“ segir Þórdís Lóa einlæg.
„Það var ferlegt þegar börnin fluttu að heiman, við hjónin héldum áfram að elda fyrir fimm manna fjölskyldu og sátum uppi með alltof stóra skammta og mikla afganga. Þannig að nú er aðalmálið að elda minna og ég hef tekið upp nýjan takt sem ég kalla „Lóa og litlir diskar“ eða smáskammta aðferðafræðin. Svo er það nýjasta í okkar lífi að við erum skógarbændur þannig að fljótlega mun ég stúdera allt um lerkisveppi og hvernig á að elda þá.“
Þórdís Lóa er Breiðhyltingur og Árbæingur, svona einhverskonar úthverfakona í húð og hár að eigin sögn. „Fyrir stuttu flutti ég í Laugardalinn og er alsæl enda bíður Laugardalurinn upp á það sem ég sóttist eftir í Elliðaárdalnum þ.e. góða útivist og sundlaug. Það sem var erfitt við flutningana var að byrja að fara í nýja hverfissundlaug. Það er með ólíkindum hvað maður er vanafastur þegar það kemur að sundlaugum, og nú fer ég stöku sinnum í nostalgíuferðir í Árbæjar- og Breiðholtslaugina. Laugardalslaugin er nýja hverfislaugin mín og ég er komin upp á lagið með að synda í 50 metra laug en fyrst hélt ég að ég myndi drukkna,“ segir Þórdís Lóa og skellihlær.
Pólitíkin spilar stórt hlutverk í lífi Þórdísar Lóu en eins og fram hefur komið er hún forseti borgarstjórnar og oddviti Viðreisnar í Reykjavík. Hún kemur úr atvinnulífinu og fer inni í pólitík árið 2018. Einnig er hún stjórnarformaður Faxaflóahafna og ber ábyrgð á atvinnumálum, nýsköpun og ferðaþjónustu. Þannig að verkefnin eru mörg. Hún lætur samt verkefnin ekki stoppa sig í því að sinna áhugamálunum sem eru líka mörg, þar er útivist og veiði í forgrunni.
„Stangaveiði í silung og lax er eitt af mínum uppáhalds. Netaveiði fyrir silung og þá ekki síður gaman að leggja net undir ís á veturna. Svo hef ég verið um langt skeið í skotveiði og fer á gæsa- og hreindýraveiðar en minna á rjúpu því mér finnst hún ekki góð.“
Þegar kemur að matarvenjum Þórdísar Lóu segist hún vera nokkuð vanaföst og halda í ákveðnar hefðir.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Sterkur expresso er það fyrsta sem ég hugsa um þegar ég vakna á morgnana. Í morgunmat fæ ég mér oftast gríska jógúrt með múslí og helst með hindberjum sem ég rækta sjálf en stundum hrökkbrauð með osti og eggjum.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Ég er mikið á ferðinni og því er hádegisverður oft smá höfuðverkur. Ég verð að borða í hádeginu því annars verð ég eins og úlfur í afmælisveislu seinna um daginn. Ef ég gæti þá myndi vilja borða salat með góðu próteini í hádeginu. Ég næ oft að skella mér í mötuneyti ráðhússins og þá fer ég alltaf á salatbarinn sem er stórfínn, nema þegar það vantar fetaost þá verð ég ægilega matsár.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég er að passa mig að borða þrjár máltíðir á dag og eitthvað hollt og gott á milli mála. Ég hef í gegnum tíðina borðað lítið á milli mála, en er að reyna að bæta úr því. Nú þegar ég fylgi skammta aðferðafræðinni. Mér finnst geggjað að fá mér epli eða smá hrökkkex með osti. Gott kaffi er ávallt mikilvægt með, en ég er einnig mjög kaffisár og þoli illa þunnt og vont kaffi. Svo er líka dásamlegt að fá smá súkkulaði um kaffileytið. Ég hef sagt skilið við allt bakkelsi en þar sem summa lastanna er alltaf sú sama þá kemur oft upp mikil súkkulaðiþörf um klukkan fjögur á daginn.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Ég á alltaf gríska Örnu jógúrt, ost, egg, papriku, límónu og smjör. Svo á ég oftast skinku og flatkökur í frysti.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?
„Ég á nokkra uppáhaldsveitingastaði í Reykjavík og árstíðin skiptir mig máli, þannig fer ég á Jómfrúna um jólin. Á sumrin finnst mér dásamlegt að sitja úti á Fjallkonunni. Svo á ég mér nýjan uppáhaldsstað sem staðsettur er í mathöllinni Hafnartorg Gallery en það er La Trattoria sem er ítalskur staður sem mér finnst frábær. Sandholt er miklu uppáhaldi ef ég fer eitthvað í morgunmat.“
Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á „Bucket-listanum“ yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?
„Það er ekki beint einhver sérstakur staður sem er á „Bucket-listanum mínum“, en mig langar að fara einhvern tímann til Marokkó á góða veitingastaði og ef heimspólitíkin þróast í átt að ást og frið þá langar mig til Líbanon. Mér finnst matur frá þessum heimshluta óskaplega góður.“
Hvað vilt þú á pítsuna þína?
„Uppáhaldspítsan mín er humarpítsa sem ég geri sjálf eftir uppskrift sem er inni á uppskriftavefnum Krydd og krásir hér.
Hvað færð þú þér á pylsuna þín?
„Pylsa með öllu eins og Sunnlendingar segja. Allt undir nema sinnep og remúlaði“
Uppáhaldsrétturinn þinn?
„Gæsalæra-confit, sem við höfum unnið sjálf og ekki síður geggjað að nota afganga af gæsa-confit á salat með gráðosti og bláberjum.“
Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?
„Ég er alveg skilyrt með kartöflur, þær verða að vera með smjörsteiktum silung og salvíu smjöri og með hægelduðum hrygg en þá er það nánast upptalið. Mér finnst nýja kartöflur góðar og borða þær ef ég fæ einhverja uppskeru en kartöflur eru ekki partur af daglegum mat hjá mér. Salat og grænmeti er hins vegar eitthvað sem ég borða mikið af.“
Hvort finnst þér skemmtilegra að baka eða matreiða?
„Mér finnst mjög gaman að elda og baka þegar ég er í sveitinni minni norður í Reykjadal en í borginni elda ég minna, enda er starf forseta borgarstjórnar erilsamt og óútreiknanlegt og ég má lítið vera að því að hugsa um eldamennsku. Um helgar reynum við að elda meira og þá finnst mér gaman að elda kjúklingapasta og allskyns fisk en í sveitinni baka ég mikið og á ávallt til dásamlega súkkulaði köku í frysti og er að fullkomna að baka kryddbrauð og sítrónuköku,“ segir Þórdís Lóa spennt.
„Í sumar kenndi svo frænka mín, hún Þórdís Petra tónlistarkona, mér að baka „Focaccia“ brauð sem er mjög skemmtilegt og einfalt þegar maður er búin að átta sig á tímanum og tækninni við að láta deigið hefa sig.“
„Ég er mikil bröns manneskja, og mér finnst dásamlegt að skella í góðan bröns. Tína úr ísskápnum og raða því upp fallega og áður en maður veit af er kominn þessi dýrindis bröns. Svo er líka svo gaman að ræða pólitík í rólegheitunum yfir góðum bröns,“ segir Þórdís Lóa að lokum.