Fastur liður á laugardagsmorgnum eru leyndardómsfullu uppskriftirnar úr Húsó-eldhúsinu í Hússtjórnarskólanum sem njóta mikilla vinsælda hjá lesendum matarvefsins.
Að þessu sinni deilir Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans með lesendum uppskrift að klassískri marmaraköku að hætti Húsó. Það er dásamlegt að geta boðið upp á þessa ljúfu marmaraköku með helgarkaffinu og ilmurinn úr eldhúsinu verður lokkandi.
Marmarakaka
- 150 g lint smjör eða 1 ¼ dl matarolía
- 1 ½ dl sykur
- 2 egg
- 3 dl hveiti
- 2 tsk. lyftiduft
- 1 dl mjólk
- 1 tsk. vanilludropar eða kardimommudropar
Aðferð:
- Hrærið smjöri/matarolíu og sykur saman í hrærivél.
- Brjótið eitt egg í einu í glas og blandið saman við og hrærið vel.
- Látið því næst hveiti og lyftiduft ásamt mjólk og vanilludropum út í hrærivélaskálina og hrærið þar til allt hefur blandast vel. Gætið þess að hræra ekki lengi í þessu skrefi.
- Takið 1/3 af deiginu og látið í smurt formkökuform, takið annan 1/3 af deiginu og látið á vinnudisk.
- Blandið í 1/3 hluta deigsins sem eftir er í hrærivélaskálinni með 2 msk. kakó, 2 tsk. sykur og 2 msk. mjólk. Látið kakódeigið í mótið, ofan á ljósa 1/3 deigið sem komið er í formið, og efst ljósa deigið sem hvíldi á vinnudisknum. Skerið í gegnum deigið í forminu með hníf, með því myndast fagurt mynstur þegar marmarakakan verður skorin.
- Bakið í neðstu grind í ofni við 180°C hita í um það bil 50 mínútur.