Hvítsúkkulaðikakan Ljósbrá ber nafn með rentu

Hvítsúkkulaðikaka sem ber heitið Ljósbrá er tilvalin í helgarbaksturinn. Brynja …
Hvítsúkkulaðikaka sem ber heitið Ljósbrá er tilvalin í helgarbaksturinn. Brynja Dadda Sverrisdóttir ber hana gjarnan fram með karamellusósu. Samsett mynd

Það er komið að helgarbakstrinum og að þessu sinni er það þessi hvítsúkkulaðikaka sem er alveg ómótstæðilega góð. Uppskriftin kemur ofan úr fjalli frá Brynju Döddu Sverrisdóttur ástríðubakara en hún er iðin að baka fyrir sína nánustu segir að innblásturinn fái hún uppi í fjallinu í Kjósinni.

„Þessi er alveg einstaklega góð. Hún kemur úr uppskriftabókinni Súkkulaðiást frá Nóa Síríus. Það er reyndar bók sem ég hef notað mikið, mjög góð og margar góðar uppskriftir í henni,“ segir Brynja Dadda.

„Hvítt súkkulaði er allt öðru vísi en dökkt og bragðið verður einstaklega karamellukennt og kakan er svolítið seig,“ bætir Brynja Dadda við.

Kakan er þétt og svolítið þung með dásamlegt karamellubragð. Í raun þarf ekkert með henni en það má nota rjóma, ís eða karamellusósu.

Ljósbrá stendur sig vel ein og sér en það er …
Ljósbrá stendur sig vel ein og sér en það er líka ljúft að bera hana fram með karamellusósu. Ljósmynd/Brynja Dadda Sverrisdóttir

Ljósbrá

  • 200 g hvítt súkkulaði
  • 120 g smjör
  • 300 g hrásykur
  • 1 tsk. vanillusykur
  • 4 egg
  • 250 g spelthveiti
  • ½ tsk. lyftiduft

Aðferð:

  1. Bræðið súkkulaðið og smjörið saman mjög varlega. Hvítt súkkulaði bráðnar öðruvísi en þetta dökka. Það þarf að nota vægan hita  og hræra nokkuð jafnt af og til.
  2. Hrærið saman sykrinum og eggjunum og bætið svo súkkulaði/smjörinu saman við.
  3. Bætið við öllum þurrefnunum og hrærið þar til vel allt er vel samfellt.
  4. Setjið í eldfast form (ca 24x12 sm) inn í 160°C heitan ofn, á blæstri í 50 til 60 mínútur (vert er að hafa í huga að ofnar eru misjafnir).
  5. Gott að láta kökuna kólna aðeins þegar hún kemur út og skera síðan í bita. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert