Mexíkósk súpa að hætti Ellu Stínu

Með mexíkósúpu er gott að bera fram sýrðan rjóma, rifinn …
Með mexíkósúpu er gott að bera fram sýrðan rjóma, rifinn ost og nýbakað brauð. Ferskt kóríander gefur líka gott bragð. Ljósmynd/Ella Stína

Elín Kristín Guðmundsdóttir, alla jafna kölluð Ella Stína, elskar að þróa ljúffenga vegan rétti enda er hún að framleiða vegan vörur undir vörumerkinu Ella Stína.

Mexíkósk kjúklingasúpa er einn vinsælasti rétturinn á heimili hennar og það eru ekki allir vegan í fjölskyldunni. Hún ákvað að prófa að búa til vegan mexíkósúpu á dögunum og sagði til að mynda ekki syni sínum, sem er ekki vegan, frá því að súpan væri með vegan kjúllabitum. Súpan var borin fram á borð og viti menn, sonurinn borðaði súpuna með bestu lyst og hrósaði mömmu sinni fyrir matargerðina. Hann fékk síðan að vita sannleikann um kjúllabitana og hann sagðist ekki hafa fundið muninn.

Það er vel hægt að mæla með þessari hvort sem þið eruð vegan eður ei. Nú er bara að prófa og njóta. 

Girnileg súpa.
Girnileg súpa. Ljósmynd/Ella Stína

Mexíkósk súpa að hætti Ellu Stínu

  • 2 vænir laukar
  • 8-10 hvítlauksbátar, pressaðir
  • Olía, eftir smekk til að steika laukinn úr
  • 800 g kjúllabitar frá Ellu Stínu
  • 1 pk. rifinn ostur, sterkur frá Ellu Stínu
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar, lífrænir í uppáhaldi
  • 2-3 tengingar grænmetiskraftur, leystir upp í ½ l vatni
  • 2-3 teningar kjúklingakraftur vegan, leystir upp í  ½ l vatni
  • 1 l tómatsafi, t.d. frá Rapunzel
  • 1 msk. ferskt kóríander, má vera meira
  • 1 tsk. chili duft eða chili flögur eftir smekk
  • ½ tsk. svartur pipar grófmalaður.
  • 1 dós sýrður rjómi frá Qatly

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja laukinn í matvinnsluvél og hakkið smátt.
  2. Pressið hvítlaukinn og setjið í stóran pott með olíu og svissið þar til laukurinn hefur tekið á sig gulan lit.
  3. Bætið síðan öllum hráefnunum nema kjúllabitunum saman við og látið malla í um það bil 2 klukkustundir.
  4. Bætið kjúllabitunum saman við í lokin  og látið blandast við í um það bil 15 mínútur áður en súpan er borin fram.
  5. Hrærið reglulega í súpunni meðan hún er að malla.
  6. Smakkið til og hikið ekki við að bæta við kryddum sem þið hafið dálæti af.
  7. Berið súpuna fram með rifnum ost, sýrðum rjóma ásamt fersku kóríander og nýbökuðu súrdeigsbrauði ef vill.
  8. Upplagt að skreyta súpuna þegar hún er borin fram með fersku kóríander.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert