Hver man ekki eftir því að hafa fengið kjötbollur í brúnni sósu, gerðar úr kjötfarsi í bernsku? Margir elskuðu þennan rétt og finnst það hrein nostalgía að fá þessar kjötbollur.
Berglind Hreiðars hjá Gotterí og gersemar gerði könnun á dögunum hvort fylgjendur hennar myndu vilja fá uppskrift af gamaldagskjötbollu til að njóta.
„Ég gerði svona bollur í haust og setti inn smá könnun á Instagram hjá mér hvort fólk kynni almennt að útbúa slíkar eða ekki. Um 70% sögðust kunna þetta en hátt í 30% sögðust það ekki og væru til í að vita hvernig þetta væri gert,“ segir Berglind og ákvað að svara kallinu og deila með fylgjendum sínu þessari uppskrift.
Hér kemur uppskriftin hennar af kjötbollunum í brúnni sósu ásamt kartöflumús fyrir þá sem vilja prófa og fara aftur til fortíðar.
Kjötbollur í brúnni sósu og kartöflumús
Kjötbollur í brúnni sósu
- 700 g nýtt kjötfars
- 50 g smjör
- 300 ml vatn
- 300 ml rjómi
- 2 msk. fljótandi nautakraftur
- 3-4 msk. maízenamjöl/sósuþykkjari
- Sósulitur eftir smekk
- Salt og pipar eftir smekk
Aðferð:
- Bræðið smjörið við meðalháan hita.
- Baðið matskeið í smjöri og mótið með henni kjötbollur úr farsinu, bætið alltaf smjöri á hana á milli til að farsið festist ekki við.
- Steikið bollurnar vel á öllum hliðum.
- Hellið þá vatni, rjóma og fljótandi krafti saman við og þykkið með maízenamjöli.
- Litið með sósulit sé þess óskað og kryddið aðeins með salti og pipar eftir smekk.
- Leyfið bollunum að malla aðeins í sósunni á meðan þið klárið kartöflumús og takið til annað meðlæti.
Kartöflumús
- 1 kg bökunarkartöflur
- 40 g smjör
- 150 ml nýmjólk
- 2 msk. sykur
- 1 tsk. salt
Aðferð:
- Flysjið og skerið kartöflurnar niður í bita til að flýta fyrir suðunni.
- Sjóðið þar til þær mýkjast og setjið þá yfir í hrærivél með K-inu eða í skál og notið kartöflustappara.
- Bætið smjöri, mjólk, sykri og salti saman við og blandið saman þar til kartöflumús hefur myndast.