Verslanakeðjan Krambúðin hefur hafið samstarf við heimsendingarþjónustuna Wolt um að senda matvörur og snarl heim að dyrum. Heimsendingarþjónustan hefur verið brautryðjandi í heimsendingu á Íslandi en hefur samstarfið við Krambúðina aukið enn fremur þá þjónustu sem Wolt býður upp á. Þetta kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu frá Wolt og Krambúðinni.
„Fyrsta verslun Krambúðarinnar hóf sendingar með Wolt í maí á þessu ári, en frá því í júlí hafa allar 15 verslanirnar á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, í Reykjanesbæ og á Selfossi hafið heimsendingar. Krambúðin býður upp á 2.600 til 2.900 mismunandi vörur en lögð var áhersla á að bjóða upp á fjölbreytt úrval sem viðskiptavinir gætu þurft í heimsendingu,“ segir Jóhann Már Helgason forstöðumaður viðskiptasviðs Wolt á Íslandi.
„Það er frábært tækifæri fyrir okkur að vinna með Krambúðinni. Við erum spennt að þróa samstarfið með þeim til að auka þjónustuframboðið á Íslandi. Krambúðin er traust vörumerki með sterka nærveru í samfélaginu og fjölbreytt vöruúrval sem mun auka verulega þægindin sem við bjóðum viðskiptavinum okkar upp á,“ segir Jóhann Már jafnframt.
Í fréttatilkynningunni kemur fram að ólíkt öðrum matvöruverslunum á netinu eru pantanir Krambúðarinnar afgreiddar frá verslun á staðnum. Þannig er afhendingartíminn styttur enn frekar og viðskiptavinir þurfa vanalega ekki að bíða meira en 30 mínútur eftir sendingunni. Samstarfinu er ætlað að gera dagleg innkaup hraðvirkari og auðveldari fyrir neytendur og gera þeim kleift að nálgast sömu hágæða vörur sem til eru í verslun án þess að þurfa að fara út fyrir hússins dyr. Í gegnum Wolt appið geta viðskiptavinir skoðað fjölbreytt vöruúrval Krambúðarinnar, lagt inn pöntun og fengið hana afhenta á um 30 mínútum, eftir staðsetningu.
„Þetta samstarf hefur gengið mjög vel og í raun farið fram úr okkar björtustu vonum. Við erum stolt af því að vera fyrsta þægindaverslunin á Íslandi sem býður upp á þessa þjónustu í gegnum Wolt og það er greinilegt að markaðurinn hefur beðið eftir þessu. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs með Wolt og að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á enn meiri þægindi í framtíðinni,“ segir Kristín Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Krambúðarinnar og Kjörbúðarinnar.
Samkvæmt tölum fyrstu mánaðanna er hvíti Monster Energy Ultra orkudrykkurinn vinsælasta staka varan og drykkir og snakk meðal vinsælustu vöruflokkanna, ásamt kjötbollum frá 1944.
Vinsælustu vörur Krambúðarinnar á Wolt: