Nautatartar með japönsku ívafi í uppáhaldi hjá Hönnu

Nýstárleg og falleg útfærsla á nautatartar með japönsku ívafi.
Nýstárleg og falleg útfærsla á nautatartar með japönsku ívafi. Ljósmynd/Hanna Thordarson

Hanna Thordarson leirlistakona og matgæðingur með meiru er snillingur þegar kemur að því að töfra fram fallega sælkerarétti. Nautatartar með japönsku ívafi er eitt af því sem er í miklu uppáhaldi hjá Hönnu en hún er á því að þessi réttur er ekki allra. En þetta er fullkominn próteinréttur þegar unnið er með gæða hráefni.

„Þessa uppskrift fékk ég hjá Guðrúnu vinkonu minni og er frábært að bera þennan fram sem forrétt en eins og áður hefur komið fram þá er eins gott að það sé kjötfólk sem er að setjast að borðum,“ segir Hanna.

Þar sem verið er að vinna með hrátt kjöt segir Hanna að þurfi að hafa eftirfarandi í huga:

  • Hreinlæti þar sem við erum að handfjatla hrátt kjöt.
  • Nota íslenskt gæðakjöt, skera frá sinar og fitu.
  • Til að forðast bakteríur er meginreglan sú að geyma kjötið í kæli og jafnvel að skella því aðeins í frystinn, með því að hafa kjötið hálffrosið er auðveldara að skera það niður.  
  • Kjötið er ekki látið standa lengi í stofuhita.
  • Ekki fyrir ófrískar konur.

Hægt er að fylgjast með matarást Hönnu á Instagramsíðu hennar hér.

Nautatartar með japönsku ívafi

  • 250 g nautakjöt eins og nautalund, nautafile eða innra læri, skorið í lengjur og svo í litla bita
  • 1 – 1½ msk. soja japönsk
  • 3 msk. majónes
  • 4 sneiðar af súrdeigsbrauði, ristaðar (má sleppa)
  • Smjör til steikingar
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Límóna til skrauts, má sleppa ef vill
  • Parmesanostur, rifinn

Sveppablanda

  • 2 dl sveppir, smátt skornir
  • 2 msk. safi úr límónu
  • 1 tsk. fínskorið/rifið engifer
  • 1 tsk. sesamolía
  • 1 kryddmál sykur (kryddmál er 1/5 tsk.)
  • 1 kryddmál salt

Aðferð:

  1. Skerið kjötið niður í teninga. Það eru til ýmsar leiðir með það, sumir skera það fyrst langsum og svo hvern bita aftur langsum og síðan þvert í litla bita. Það er smekksatriði hversu fínt kjötið er saxað niður. Það má gera töluvert áður en kjötið er borið fram en þá skiptir máli að geyma það í lokuðu íláti í kæli. 
  2. Best að taka kjötið úr kæli aðeins áður en það er borið fram svo að það sé ekki alveg ískalt
  3. Næst skref er að gera sveppablönduna.
  4. Blandið saman sveppum, límónusafa, engiferi, sesamolíu, sykri og salti í skál.
  5. Látið standa í 5 – 10 mínútur.
  6. Sigtið vökvann frá.
  7. Takið kjötið úr kæli og hrærið saman við stuttu áður en það er borið fram.
  8. Steikið brauði í smjöri.
  9. Fallegt að skera út hringi úr brauðinu. Ein útgáfa er að nota hálfa límónu í staðinn fyrir brauð, þá þarf aðeins að skera af henni svo að hún sé stöðug.
  10. Setjið kjöt ofan á hvert brauð, gott að setja hringmót á brauðið og kjötið ofan í það.
  11. Taka svo hringmótið af og þá myndast falleg heild
  12. Rifið síðan parmesanost yfir.       
  13. Berið fram og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert