Landsliðskokkur kaupir hverfisstað með ástinni sinni

Bjarki Snær Þorsteinsson og konan hans, Stefanía Marta Jónasdóttir, njóta …
Bjarki Snær Þorsteinsson og konan hans, Stefanía Marta Jónasdóttir, njóta þess að vinna saman á staðnum sínum og sonur þeirra Jökull fær að taka þátt með foreldrum sínum. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarki Snær Þorsteinsson, matreiðslumaður og landsliðskokkur, og konan hans, Stefanía Marta Jónasdóttir, eiga og reka kaffihúsið og vínbarinn Dæinn í Urriðaholti í Garðabæ. Staðurinn er orðinn þekktur hverfisstaður og íbúar eru iðnir við að fjölmenna og njóta góðra veitinga.

Gaman er að segja frá því að Bjarki kom, sá og sigraði í keppninni um titilinn grænmetiskokkur ársins sem haldin var í apríl síðastliðnum og er hann sá fyrsti til að hljóta þann titil hér á landi.

Unga parið hefur fallega sýn á því hvernig þau geta sameinað krafta sína og látið draum sinn rætast með því að eiga og reka kaffihúsið og gera það sjálfbært. Ástríða Bjarka liggur í matargerðinni og veit hann fátt skemmtilegra en að galdra fram girnilegar veitingar fyrir matargesti sína á kaffihúsinu. Þá koma hæfileikar hans vel að notum og hafa til að mynda pítsurnar hans slegið í gegn. Stefanía nýtur þess að stjana við gesti staðarins og hefur fundið sína hillu þar.

Staðurinn er fallega hannaður í retró-stíl þar sem hlýir litir …
Staðurinn er fallega hannaður í retró-stíl þar sem hlýir litir eru í forgrunni í bland við leður, við og flísar. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkurs konar félagsmiðstöð

Segðu okkur aðeins frá tilurð kaffihússins og vínbarsins Dæinn.

„Í raun kom það bara þannig til að við sáum staðinn auglýstan til sölu og vildum alls ekki að honum yrði lokað og hugsuðum þá að þetta gæti orðið skemmtilegt verkefni fyrir okkur Stefaníu að takast á við saman. Það er gaman að geta tekið þátt í að vera með stað eins og þennan fyrir hverfið, enda hugsum við þetta sem nokkurs konar félagsmiðstöð þar sem allir geta komið og átt notalega stund yfir mat, drykk, spilum eða öðru,“ segir Bjarki.

„Við erum tvö sem eigum og rekum staðinn með mikilli hjálp frá Jökli syni okkar sem skríður vaktina með okkur af og til. Ásamt kettinum Gylfa sem er hjarta staðarins en hann býr hérna í hverfinu og höldum við mikið upp á hann ásamt fleirum í hverfinu sem koma og heilsa honum. Svo erum við með gott starfsfólk sem hjálpar okkur að halda staðnum gangandi þar sem við erum í öðrum verkefnum ásamt því að vera með Jökul, og ég í verkefnum með kokkalandsliðinu.“

Aðspurður segir Bjarki að staðurinn hafi heitið Dæinn þegar þau tóku við honum. „Okkur fannst það skemmtilegt og ákváðum að halda nafninu þar sem fólk í hverfinu þekkir staðinn. Dæinn er tekið af orðinu daginn, sem okkur finnst eiga vel við kaffihúsahliðina á staðnum.“

Hefðbundnar kræsingar og kaffi er ávallt á boðstólum auk þess …
Hefðbundnar kræsingar og kaffi er ávallt á boðstólum auk þess sem dýrindis tertur eru bornar fram. mbl.is/Árni Sæberg

Vera til staðar fyrir fólkið

Áherslur okkar í rekstrinum eru að vera til staðar fyrir fólkið í hverfinu, það er langt að fara í miðbæinn og gott að geta fengið sér sæti í rólegu umhverfi eins hér í Urriðaholtinu og fengið sér að snæða og drekka í góðra vina hópi. Urriðaholt er frábært hverfi með mörgum ungum fjölskyldum og fólki á öllum aldri. Það eru ákveðin þægindi að vera með stað í hverfi eins og þessu þar sem allir vilja allt gera til að svona staður nái að standa undir sér. Þetta er auðvitað ekki staður sem neinn verður ríkur af en mjög mikilvægt að einhver taki hann að sér og haldi honum gangandi fyrir fólkið,“ segir Bjarki og brosir.

„Í grunninn er þetta hverfisstaður en það kemur fólk alls staðar frá og allir eru meira en velkomnir, okkur þykir ákaflega vænt um að fá fólk úr öllum áttum og gaman að sjá hve margir koma aftur og aftur.“

Ein af tertunum.
Ein af tertunum. mbl.is/Árni Sæberg

Leggja metnað í matseðilinn

Bjarki og Stefanía standa reglulega að viðburðum á staðnum og þeir hafa notið mikilla vinsælda. „Viðburðirnir hjá okkur hafa slegið í gegn, við reynum að vera með viðburði eins oft og við getum og hefur fólk tekið virkilega vel í það og verið duglegt að mæta. Má þar nefna föstudagspítsu-kvöldin sem við höfum verið með, þá er ávallt uppbókað um leið og viðburðurinn er auglýstur. Við höfum líka fundið fyrir því að matseðillinn er að slá í gegn og bjórinn rýkur út. En við leggjum mikinn metnað í matseðilinn og viljum bjóða upp á góða matarupplifun.“

Mikill metnaður er lagður í matseðilinn og pítsurnar njóta mikilla …
Mikill metnaður er lagður í matseðilinn og pítsurnar njóta mikilla vinsælda enda eru reglulega haldin sérstök pítsakvöld og þá er staðurinn ávallt uppbókaður. mbl.is/Árni Sæberg

Þar sem Bjarki er landsliðskokkur bíða hans nokkur stór verkefni og það þýðir stífar æfingar. Hann þarf því að skipuleggja sig vel til að geta rekið kaffihúsið samhliða landsliðsæfingum.

„Núna í febrúar á næsta ári taka við strangar æfingar fyrir heimsmeistaramótið í matreiðslu þar sem planið er að sjálfsögðu að komast á verðlaunapall. Það er það sem við ætlum okkur.

Við lentum í þriðja sæti á Ólympíuleikunum sem haldnir voru í byrjun árs og væri mjög gaman að ná enn lengra, enda munaði bara hársbreidd frá fyrsta sætinu,“ segir Bjarki, sem er kominn með blóðbragð í munninn.

„Það er ávallt vinna að vera í rekstri og sömuleiðis að vera í landsliðinu þar sem eru reglulegar og langar æfingar. En með hjálp frábærs starfsfólks og Stefaníu minnar þá gengur þetta allt upp,“ bætir Bjarki við og segist þakklátur fyrir að geta gert hvort tveggja.

Hlýleikinn umvefur staðinn.
Hlýleikinn umvefur staðinn. mbl.is/Árni Sæberg

Markmiðið að láta staðinn vera sjálfbæran

Bjarki segist líta framtíðina björtum augum. „Planið er að halda áfram að hjálpa staðnum að vaxa og dafna og markmiðið að láta hann verða nokkuð sjálfbæran. Það tekur allt sinn tíma en gerist hratt með fólkinu sem er duglegt að koma og kíkja á okkur.“

Bæði segjast þau spennt fyrir komandi vetri og stefnan sé að vera með spennandi viðburði sem laði hverfisbúa að. „Við reynum að vera með eins marga viðburði og við getum og óskum einnig eftir því, ef einhver vill vera með viðburð, að heyra í okkur. Gestunum sem hingað koma finnst skemmtilegt að brjóta upp daginn og kíkja í skemmtilegt kvöld. Við erum þegar með nokkra viðburði planaða í vetur en verða þeir allir auglýstir á facebook-síðunni okkar þegar nær dregur. Má þar nefna pítsukvöld, konukvöld og mömmu- og pabbamorgna svo fátt eitt sé nefnt.“

Við erum óendanlega þakklát fólkinu sem hefur verið að mæta og sýna vilja fyrir því að halda svona hverfisstað opnum. Það hvetur okkur til dáða og okkar stefna er að halda áfram að láta hann vaxa og blómstra eins lengi og fólk er tilbúið að mæta til okkar,“ segir Bjarki að lokum og hleypur á eftir syninum Jökli, sem fer eins og eldibrandur um allan staðinn skríðandi.

Rjúkandi heitt kaffi.
Rjúkandi heitt kaffi. mbl.is/Árni Sæberg
Hollustu morgunverður er líka í boði.
Hollustu morgunverður er líka í boði. mbl.is/Árni Sæberg
Kaffihúsið og vínbarinn Dæinn er staðsettur í Urriðaholtinu í Garðabæ.
Kaffihúsið og vínbarinn Dæinn er staðsettur í Urriðaholtinu í Garðabæ. mbl.is/Árni Sæberg
Mæðginin njóta sín saman á kaffihúsinu og boðið verður upp …
Mæðginin njóta sín saman á kaffihúsinu og boðið verður upp á mömmu- og pabbamorgna þar sem unga fjölskyldur geta átt saman góðar samverustundir. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka