Stórstjörnur opna veitingastaði á Keflavíkurflugvelli

Stórstjörnurnar Haukur Már Hauksson, betur þekktur sem Haukur Chef, Hrefna …
Stórstjörnurnar Haukur Már Hauksson, betur þekktur sem Haukur Chef, Hrefna Rósa Sætran og Einar Örn Einarsson hafa opnað veitingastaði á Keflavíkurflugvelli. Samsett mynd

Veitingasvæðið Aðalstræti er nú opið í brottfararsal Keflavíkurflugvallar, við mikinn fögnuð matgæðinga og sælkera. Alls eru þrír nýir veitingastaðir á veitingasvæðinu; hamborgarastaðurinn Yuzu, ítalski veitingastaðurinn La Trattoria og mexíkóski matstaðurinn Zócalo. Eykst þar með enn frekar úrval veitinga á flugvellinum til að koma til móts við þarfir og óskir sem flestra gesta. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Isavia.

Einn vinsælasti hamborgarastaður landsins er lentur

Hamborgarastaðinn Yuzu þekkja margir en staðirnir eru nú orðnir sex talsins; fjórir á höfuðborgarsvæðinu, einn í Hveragerði og sá nýjasti á flugvellinum. Á Yuzu í KEF geta gestir nælt sér í vinsælustu réttina sem Yuzu hefur að bjóða, auk þess sem boðið verður upp á morgunverð sem er sérstaklega útfærður fyrir flugvöllinn. Matseðill Yuzu er þróaður af stjörnukokkinum Hauki Má Haukssyni og byggist á góðu úrvali af alls kyns hamborgurum.

„Það er virkilega spennandi að vera búinn að opna sjötta Yuzu staðinn og það á sjálfum Keflavíkurflugvelli! Góður hamborgari er að mínu mati hin fullkomna máltíð og það verður gaman að geta sent gesti flugvallarins í háloftin sadda og sæla,“ segir Haukur Már Hauksson, einnig þekktur sem Haukur chef.

Yuzu er orðinn landsfrægur hamborgarastaður og maðurinn bak við Yuzu …
Yuzu er orðinn landsfrægur hamborgarastaður og maðurinn bak við Yuzu er Haukur Chef. Ljósmynd/Aðsend

Ekta ítölsk stemning

La Trattoria býður fjölbreytt úrval af réttum sem innblásnir eru af matarmenningu um alla Ítalíu og áherslan er á einfaldleika og gæði hráefnis. La Trattoria var fyrst opnaður í mathöllinni á Hafnartorgi og hefur notið mikilla vinsælda meðal matarunnenda. Hrefna Sætran, einn af okkar þekktustu kokkum, og Ágúst Reynisson veitingamaður eiga heiðurinn af matseðlinum á La Trattoria.

„Við ætlum að bjóða gestum flugvallarins upp á alvöru ítalskan mat og vín. Ferskt pasta, ljúffengar bruschettur og úrval af Zenato vínum. Svo verðum við með sérstaka viðbót á KEF matseðlinum sem samanstendur af úrvali af pitsum,“ segir Hrefna Sætran.

La Trattoria er ekta ítalskur veitingastaður og stjörnukokkurinn Hrefna Sætran …
La Trattoria er ekta ítalskur veitingastaður og stjörnukokkurinn Hrefna Sætran á meðal annars heiðurinn af matseðlinum ásamt veitingamanninum Ágústi Reynissyni. Ljósmynd/Aðsend

Hollur og ferskur mexíkóskur matur

Zócalo býður upp á mexíkóskan mat sem kitlar bragðlaukana. Zócalo hefur íslenska tengingu en eigandi keðjunnar er Einar Örn Einarsson, sem var annar stofnenda Serrano hér á landi. Þetta er hins vegar fyrsti Zócalo staðurinn þeirra hér á landi. Á matseðli staðarins er meðal annars hágæða burritos, burritos skálar, quesadillas, taco, nachos og salöt.

Zócalo býður upp á mexíkóskan mat sem kitlar bragðlaukana og …
Zócalo býður upp á mexíkóskan mat sem kitlar bragðlaukana og er þetta fyrsti staðurinn hér á landi. Ljósmynd/Aðsend

Reykvísk miðbæjarstemning

Íslenska hönnunarteymið HAF Studio hannaði Aðalstræti og svæðið í kringum veitingasvæðið. Áhersla var lögð á að skapa heildrænt rými sem heldur vel um gesti og minnir á útisvæði og stemningu eins og gerist best í miðborg Reykjavíkur.

„Við höfum beðið spennt eftir því að Aðalstræti opni í KEF og erum virkilega stolt af þessari viðbót við flugvöllinn. Zócalo, La Trattoria og Yuzu eru allt frábærir veitingastaðir með sín sérkenni og bæta enn frekar úrvalið í flugstöðinni. Aðalstræti er sérhannað fyrir flugvöllinn með hraða, gæði og fjölbreytni í fyrirrúmi. Allir matseðlar eru aðlagaðir flugstöðinni með vinsælum réttum sem eru hraðir í afgreiðslu. Þjónustustigið er hratt og gott en hægt er að panta á sjálfsafgreiðslustöðvum eða á stöðunum sjálfum,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildarstjóri verslunar og veitinga.

Aðalstræti er staðsett í nýrri austurálmu flugvallarins og er þetta fyrsta skrefið í opnun inn á aðra hæð álmunnar sem mun stórbæta aðstöðu fyrir brottfararfarþega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert