Mexíkósk veisla í Húsó

Mexíkóskt þema var í matargerðinni í Húsó á dögunum.
Mexíkóskt þema var í matargerðinni í Húsó á dögunum. Samsett mynd/Árni Sæberg

Fast­ur liður á laug­ar­dags­morgn­um á Mat­ar­vefn­um eru leynd­ar­dóms­fullu upp­skrift­irn­ar úr Húsó-­eld­hús­inu í Hús­stjórn­ar­skól­an­um sem njóta mik­illa vin­sælda hjá les­end­um og nú verður veisla.

Að þessu sinni deil­ir Marta María Arn­ars­dótt­ir skóla­meist­ari Hús­stjórn­ar­skól­ans með les­end­um upp­skrift að mexíkóskri veislu. Nemendurnir í Húsó vorum með mexíkóskt þema á dögunum. Göldruð var fram þessi glæsilega mexíkóska matarveisla sem hitti í mark. Það er ávallt gaman að blanda inn á milli matarhefðum frá öðrum löndum og njóta þess að heimsækja aðra bragðheima.

Þetta er ekta matur sem gaman er fyrir fjölskyldur eða vinahópa að gera saman. Matur er manns gaman og því er upplagt að vera stundum með matarveislur eins og þessa og njóta saman.

Mexíkósk matarveisla

Tortillur - heimagerðar

12 tortilla pönnukökur

  • 375 g hveiti (eða t.d. hveiti og spelt til helminga)
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 80 ml. grænmetisolía
  • 240 ml. heitt vatn 

Aðferð:

  1. Blandið hveiti, salti og lyftidufti saman í skál.
  2. Bætið olíu og vatni saman við og hrærið í hrærivél í um 1 mínútu en stoppið nokkrum sinnum og skrapið deigið niður úr hliðunum.
  3. Þegar þetta hefur blandast vel saman, stillið á lægstu stillingu og hrærið í aðra mínútu.
  4. Færið á hveitistráið borð og skiptið deiginu í tvennt og síðan aftur í tvennt.
  5. Haldið þessu áfram þar til þið hafið skipt deiginu í 12 jafnstóra hluta og mótið síðan kúlur. Ef deigið er klístrað bætið smá hveiti saman við.
  6. Setjið viskastykki yfir kúlurnar og leyfið að standa í um 15 mínútur.
  7. Eftir þetta skuluð þið fletja deigið út og hita því næst pönnukökupönnu eða litla pönnu. Þegar hún er orðin mjög heit setjið pönnukökuna á pönnuna og steikið í um 1 mínútu, eða þar til hún er farin að fá brúna hringi, færið á hina hliðina og hitið í 30 sekúndur.
  8. Gott er að geyma tortillurnar í poka með rennilás eða í lokuðu íláti.
  9. Það heldur þeim mjúkum meðan hinar pönnukökurnar eru bakaðar.
  10. Tortillurnar haldast ferskar í lokuðu íláti í sólarhring og geymast einnig í frysti í langan tíma.

Quesadillas með nautahakki

  • 500 g nautahakk
  • 1 laukur
  • 1 rauð paprika
  • 200 g rjómaostur
  • 3 msk. sweet chili sósa
  • Chili explotion krydd eða ferskur chili smátt skorinn
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Salsa
  • Nachos
  • Rifinn ostur
  • 6 stórar tortillur
  • 2 msk. ólífuolía
  • 2 tsk. paprikuduft

Aðferð:

  1. Steikið nautahakkið og kryddið með salti, pipar og chili explotion/ferskum chili.
  2. Skerið lauk og papriku í þunnar sneiðar og steikið með nautahakkinu í nokkrar mínútur.
  3. Bætið rjómaosti og sweet chili á pönnuna og látið bráðna saman.
  4. Leggið tortillakökurnar á ofnplötu og dreifið fyllingunni yfir tortillurnar.
  5. Myljið nachos og setjið yfir ásamt rifnum osti.
  6. Leggið aðra tortillaköku yfir og penslið með olíu og paprikudufti.
  7. Setjið í 200 °C heitan ofn í 5-8 mínútur.
  8. Skerið í sneiðar og berið fram með salsasósu og sýrðum rjóma.

Enchiladas með kjúklingi

  • 2 msk. ólífuolía
  • 1 laukur, smátt saxaður
  • 2-3 hvítlauksrif
  • chilipipar (best að nota 3-4 þurrkuð rauð aldin í þennan rétt því þá er maður alltaf með svipaðan styrkleika. Það eru til margar og mismunandi gerðir af chilipipar)
  • 1 msk. ferskt kóríander
  • 1 dós niðursoðnir tómatar
  • 2 msk. tómatmauk (1 dvergdós)
  • Salt og pipar eftir smekk
  • 250 g steiktur eða soðinn kjúklingur, tilvalið að nýta afgang af kjúklingi
  • 250 g kotasæla
  • 250 g rifinn ostur
  • 12 ljósar tortilla kökur

Aðferð:

  1. Hitið olíu á pönnu.
  2. Steikið lauk og hvítlauk þar til hann mýkist.
  3. Bætið við chilipipar og kóríander og síðan tómötum og tómatmauki.
  4. Smakkið til með salti og pipar. Látið krauma í 15-20 mínútur.
  5. Blandið saman smátt skornu kjúklingakjöti, osti og kotasælu.
  6. Fyllið tortilla kökurnar með blöndunni, vefjið upp og setjið á eldfast fat með samskeytin niður.
  7. Hellið tómatblöndunni yfir, setjið álpappír yfir og bakið í 30 mínútur.
  8. Takið þá álpappírinn af og bakið áfram í 15 mínútur.
  9. Skreytið með ferskum kóríander.
  10. Berið fram með góðu salati.

Heimatilbúið guacamole

Fyrir 4-5

  • 4 stór, þroskuð avókadó
  • 1 rauðlaukur
  • 2 stórir tómatar
  • 4 hvítlauksrif (fyrir þá sem elska ekki hvítlauk, 2 rif)
  • ½ sítróna
  • 1 tsk. salt
  • 1 msk. saxaður kóríander (ef þið viljið)

Aðferð: 

  1. Skerið avókadó þversum þannig að steininn liggi í öðrum helmingnum þegar hann er kominn í sundur.
  2. Notið svo skeið til að ná steininum úr og skafið innan úr öllum helmingnum og setjið í skál. Stappið svo innihald avókadósins með gaffli og notið skeiðina til að hjálpa, stappið þangað til þetta er orðið að algjöru mauki.
  3. Skerið rauðlaukinn í eins smáa bita og hægt er og setjið út í avókadómaukið.
  4. Gerið það sama við tómatana, skerið í eins smáa bita og mögulegt er og setjið út í blönduna.
  5. Pressið hvítlauksrifin út í.
  6. Kreistið hálfa sítrónu út í skálina og bætið við einni teskeið af salti eða eftir smekk.
  7. Að lokum er öllu hrært saman í litríkt og fallegt guacamole-mauk sem bragðast æðislega.

Fersk salsasósa

Fyrir 4-5

  • 6 vel þroskaðir eldrauðir tómatar
  • 400 g niðursoðnir tómatar
  • 1 lítill rauðlaukur, skorinn smátt
  • 2 hvítlauksrif, rifið eða smátt saxað
  • 1 grænn chilipipar (stór eða smár eftir smekk)
  • Góð handfylli af ferskum kóríander
  • Safi úr einni límónu
  • ½ tsk. cumin
  • 1 tsk. sjávarsalt

Aðferð:

  1. Allt sett í matvinnsluvél eða blandara nema fersku tómatarnir og blandað/púlsað þannig að útkoman verði frekar gróf salsasósa. Ekki mauka of lengi.
  2. Skerið fersku tómatana í tvennt og hreinsið innan úr þeim með skeið.
  3. Skerið smátt niður og blandið saman við rest. Ef tómatarnir eru ekki hreinsaðir verður sósan allt of þunn.
  4. Smakkið til með salti og sigtið aðeins af vökvanum frá áður en salsasósan er borin fram.
  5. Sósan geymist í ísskáp í 2-3 daga.
  6. Ef matvinnsluvél eða blandari er ekki við höndina er líka hægt að skera allt hráefnið frekar smátt með hníf og blanda saman.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert