„Má kalla mig matvanda matarbloggarann“

Berglind Hreiðarsdóttir sælkeri og matarbloggari með meiru ljóstrar upp sínum …
Berglind Hreiðarsdóttir sælkeri og matarbloggari með meiru ljóstrar upp sínum skemmtilegu matarvenjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Berglind Hreiðarsdóttir sælkeri og matarbloggari hjá Gotterí og gersemar ljóstr­ar upp sín­um skemmtilegu mat­ar­venj­um að þessu sinni. Hún segist vera matvönd og það veki áreiðanlega furðu margra þar sem hún er alltaf að skrifa um mat og setja inn uppskriftir.

„Ég er svakalega matvönd og það má klárlega kalla mig matvanda matarbloggarann. Ég er stundum búin að ákveða fyrirfram hvort eitthvað sé gott eða slæmt og vil ekki smakka ákveðna hluti ef þeir eru ekki fallegir og þar fram eftir götunum. Ég elska hins vegar sætindi og allan venjulegan mat og það skín líklega í gegn á síðunni minni. En ég ætla þó að segja að með aldrinum sé matvendnin aðeins að skána og ég er farin að gefa fleiri réttum séns.“

Planið hjá Berglindi var ekki að vera matarbloggari en hún segir að hlutirnir hafi hreinlega þróast í þessa átt.

„Ég kláraði MPM-meistaragráðu í verkefnastjórnun fyrir nokkrum árum og vann við mannauðsmál og verkefnastýringu í hátt í 20 ár áður en ég sneri mér að blogginu. Ég var ekkert á leiðinni að verða matarbloggari en það bara þróaðist þannig og ég elska það,“ segir Berglind og brosir breitt.

Byrjaði sem vettvangur fyrir áhugamálið

„Síðan mín Gotterí og gersemar byrjaði í raun bara sem vettvangur fyrir áhugamálið mitt og hefur þróast ansi mikið á síðustu 11 árum. Þar er að finna alls kyns uppskrifir, veisluráð þar sem ég elska að halda veislur og síðustu ár hef ég einnig skrifað um ferðalög, matsölustaði, gönguferðir og önnur ævintýri svona til að sameina öll áhugamálin mín á einn stað. Að stýra vinnutímanum sínum sjálfur og gera það sem þér finnst skemmtilegt á hverjum degi eru algjör forréttindi.“

Berglind ljóstrar hér upp sínum skemmtilegum matarvenjum fyrir lesendum og það fjúka nokkur leyndarmálin.

Fær sér stundum kökusneið í morgunmat

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Það er mjög misjafnt og yfir höfuð hvenær ég borða morgunmat. Yfirleitt langar mig ekki í neitt fyrr en ég hef verið vakandi í sirka tvo tíma, þá byrja ég yfirleitt bara á morgunkorni eða jógúrti en stundum fæ ég mér ristað brauð eða hafragraut. Það er sem sagt ekkert heilagt í þessum málum hjá mér og stundum fæ ég mér bara kökusneið.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Já, ég er mikil millimálamanneskja. Oftast fæ ég mér ávöxt, hnetubar, harðsoðið egg, þeyting, hrökkbrauð með kotasælu eða eitthvað álíka í millimál. Ég reyni að hafa smá jafnvægi í mataræðinu þar sem ég er mikill sætindagrís en vill meina ég vegi það upp með hollustu í önnur mál. Eigum við ekki að segja að ég sé að vinna með 80/20 regluna hér svona oftast í það minnsta.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Já, ég myndi segja það, ég er alltaf orðin mjög svöng í kringum hádegið og gæti alls ekki sleppt þeirri máltíð. Stundum gef ég mér tíma til að gera eitthvað ægilega hollt og fínt og ég elska þegar ég nenni því en á móti fæ ég mér stundum ristað brauð með sultu og kakómalt.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Rjóma, mjólk, ost, smjör, skyr og ávexti.“

Elskar mest að elda góðan mat

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Ég er ekki mikið að fara á veitingastaði hérlendis en undanfarið hafa Duck & Rose og Olifa Pizzeria verið í uppáhaldi hjá mér. Ég þarf klárlega að bæta úr veitingahúsaferðum, sé það þegar ég skrifa þessi svör, ég er allt of heimakær og elska mest að elda góðan mat og hafa það kósí heima.“

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á „bucket-listanum“ yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Ekki þannig, ég skoða yfirleitt veraldarvefinn vel samt áður en ég vel mér veitingastaði erlendis og fer aðeins á staði sem eru með góð ummæli. Mér finnst líka gott að sjá myndir af matnum á netinu og þannig endum við mun oftar á góðum veitingastöðum.“

Elskar pepperóní og ananas á pítsuna sína

Hvað vilt þú á pítsuna þína?

„Það er misjafnt, ég elska pepperóní og ananas, líka parmapitsu með klettasalati og svo líka pitsur með rjómaosti. Fiducia-pitsan á Olifa er ein sú allra besta í lífi mínu svo ég þarf alltaf reglulega að kíkja þangað í slíka.“

Uppáhaldsrétturinn þinn?

„Hvítlauksristaðir humarhalar, baðaðir í smjöri með salati og hvítlauksbrauði.“

Hvort velur þú kartöflur eða salat á diskinn þinn?

„Bæði.“

Hvort finnst þér skemmtilegra að baka eða matreiða?

„Held ég verði að segja baka, það er eitt það allra skemmtilegasta sem ég geri þó ég elski að útbúa allan mat.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka