Matvælaframleiðandinn Katla hefur hafið útflutning á tilbúnu kökudeig til stórverslana Costco í Bretlandi og Svíþjóð. Þar haldast í hendur íslenskt sælgæti og íslensk smákökuhefð í sókn Kötlu á nýja markaði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Kötlu í dag.
Katla og Nói Síríus þróuðu í fyrra fyrir innanlandsmarkað nýja tegund smákökudeigs, byggðu á hinu vinsæla sælgæti Pipp og Eitt sett. „Vinsældir smákökudeigsins okkar náðu til Costco sem komu að máli við okkur, og báðu um sérframleiðslu á sérstökum magnpakkningum til þeirra. Við slóum til og erum nú að hefja útflutning á tveimur nýjum tegundum eingöngu til þeirra. Smákökudeig frá Kötlu með Nóa rjómasúkkulaði og smákökudeig með litríkum Nóa súkkulaðiperlum. Mjög spennandi tíma,“ segir Rannveig Tryggvadóttir framkvæmdastjóri Kötlu.
Þessar nýju tegundir verða einungis fáanlegar í verslunum Costco, og eru á leið í 29 verslanir í Bretlandi og eina í Svíþjóð, ásamt því að fást í Costco í Garðabæ.