Hvaða pastategund passar með sósunni?

Mae Mu/Unsplash

Pasta hefur verið vinsælt um langa hríð enda frábært hráefni sem er bæði ódýrt og gott. Möguleikarnir eru endalausir þegar kemur að því að elda pastarétti en lögunin skiptir töluverðu máli.

Ítalir nota nefnilega ekki bara eitthvað pasta þegar þeir elda ákveðna rétti, allt er úthugsað og haldið í hefðirnar, fyrir Ítölum eru reglur og hefðir í eldhúsinu svolítið eins og trúarbrögð. En það er vissulega gild ástæða fyrir öllum þessum mismunandi formum af pasta sem er sérstaklega valið út frá sósunni í réttinum, í sumum tilfellum snýst þetta við þ.e.a.s. sósan er valin út frá pastategundinni.

Pastategundir eru eins og trúarbrögð í augum Ítala

Silkimjúkar og fínlegar sósur gerðar með olíu, eggjum, osti, smjöri og rjóma eru oftast bornar fram með fíngerðum pastalengjum eins og spagetti, tonnarelli, bugatini, linguine og fettuccine. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þessar mjúku sósur festast vel við lengjurnar og hvoru tveggja sósan og pastað eru með fínlega og mjúka áferð. Fullkomin pörun!

Silkimjúkar og fínlegar sósur gerðar með olíu, eggjum, osti, smjöri …
Silkimjúkar og fínlegar sósur gerðar með olíu, eggjum, osti, smjöri og rjóma eru oftast bornar fram með fíngerðum pastalengjum eins og spagetti. Bruna Branco/Unsplash

Hvernig pasta á að vera með kjötsósu?

Kjötsósur eins og notaðar eru í ragù rétti, t.d. ragù alla bolognese kalla á flatt og langt pasta, þá festast kjötbitarnir í sósunni vel við flatar lengjurnar. Þótt margir þekki hinn fræga rétt spagetti bolognese þá hentar oft betur að nota tagliatelle eða papardelle í hann. Papardelle er töluvert breiðara en tagliatelle.

Í þykkar og matarmiklar sósur eða réttir sem innihalda til dæmis baunir, grófa bita af kjöti eða grænmeti er stutt pasta í mismunandi lögun yfirleitt notað, eins og fusilli, rigatoni eða penne. Þessar tegundir pasta eru með dældir og göt sem þykkar matarmiklar sósur eiga auðvelt með að setjast í og pastað er svipað að stærð og matarbitarnir í réttinum.

Í þykkar og matarmiklar sósur eða réttir sem innihalda til …
Í þykkar og matarmiklar sósur eða réttir sem innihalda til dæmis baunir, grófa bita af kjöti eða grænmeti er stutt pasta í mismunandi lögun yfirleitt notað, eins og fusilli sem við köllum pastaskrúfur. Danila Harlow/Unsplash

Fyllingin leikur aðalhlutverkið

Þegar kemur að fylltu pasta eins og ravioli, cappelletti og tortellini verður að hafa í huga að fyllingin leikur aðalhlutverkið svo sósan má ekki vera of bragðmikil þannig að hún yfirtaki réttinn. Hér snúast því hlutverkin við og velja þarf sósu við hæfi með pastanu. Best er að bera fram einfalda tómatsósu en einnig er gott að nota smjör og parmesanost með fylltu pasta.

Gnocchi sem svipar eiginlega meira til „dumplings“ er gert úr hveiti og kartöflum og því svolítið frábrugðið hefðbundnu pasta. Margar tegundir af sósu henta með glocchi bæði tómatsósur, kjötsósur og rjóma- og ostasósur, hér má í raun gefa hugmyndafluginu lausan tauminn!

Ferskt pasta er alltaf sérlega ljúffengt.
Ferskt pasta er alltaf sérlega ljúffengt. Jorge Zapata/Unsplash
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert