Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans deilir uppskrift af gómsætri blómkálssúpu. Súpan iljar á köldum haustdögum og er á sama tíma ljúffeng.
Blómkálssúpa passar sem kvöldmatur en það má líka bera hana fram sem forrétt ef gesti ber að garði.
Matarboð í heimahúsum njóta mikilla vinsælda um þessar mundir og því ekki úr vegi að búa til matarmikla súpu frá grunni og slá þannig um sig.
Blómkálssúpa Húsó
- 1 L vatn
- ½ blómkálshöfuð
- 50 g smjör
- 50 g hveiti
- 2 kjötkraftsteningar
- ½ tsk. laukduft
- 1 dl rjómi eða matreiðslurjómi
- Salt pipar
Aðferð:
- Hreinsið og takið blómkálið í sundur í hæfilega súpubita.
- Látið í sjóðandi vatn og sjóðið í 2 mínútur.
- Veiðið upp úr pottinum og látið bíða í lokuðu íláti.
- Bætið kryddi og kjötkrafti saman við soðið.
- Blandið hveiti saman við smjörið þannig að úr verði bolla, blandið með gaffli eða píski.
- Látið smjörbolluna út í soðið og bræðið bolluna við vægan hita þar til bollan jafnast út.
- Bætið blómkáli og rjómanum út í og látið sjóða í 5 mínútur.
- Bragðbætið eftir smekk, notið salt og pipar til þess.
- Ef súpan er of þykk getið þið bætt í hana soði/mjólk eða rjóma.