Leikkonan Anita Briem er mikill aðdáandi Melabúðarinnar en hún hefur það fyrir sið að fá sér fisk á mánudögum, eins og margir Íslendingar. Hún ræddi um matarvenjur sínar, við þau Jón Axel, Regínu og Ásgeir Pál, í síðdegisþættinum Skemmtilegri leiðin heim á dögunum. Þar ræddi hún einnig um aðra þáttaröð af Ráðherranum, en fyrsti þáttur var sýndur á RÚV um liðna helgi.
Sjálf ætlar hún að horfa á hvern þátt í fyrsta sinn þegar hann kemur út, með hjartað í buxunum, eins og hún gerði þegar fyrsta þáttaröðin var sýnd. Hún segir að fólk megi svo sannarlega búast við jafn miklu drama og veseni og í fyrri seríu.
„Já, biddu fyrir þér,“ sagði Anita.
Hún nýtti sér sértilboð af kvöldverðinum í Melabúðinni á mánudag.
„Við Vesturbæingar borðum alltaf fisk í raspi á mánudögum. Það er sértilboð í Melabúðinni,“ sagði hún. Anita hefur búið í Vesturbænum síðastliðin fimm ár og segist vera komin „heim“ – og er orðinn fastagestur í Melabúðinni. Aðspurð segir hún að búðin hafi, sem betur fer, lítið breyst þrátt fyrir eigendaskipti.
„Okkur þykir öllum svo ofboðslega vænt um Melabúðina, eins og hún er. Ég held að það yrði uppi fótur og fit ef einhver ætlaði að fara að breyta Melabúðinni.“
Hlustaðu á Anitu Briem í Skemmtilegri leiðinni heim hér.