Heimabakaðar saltkringlur með parmesan osti

Heimabakaðar saltkringlur eru mikið hnossgæti á þessum árstíma.
Heimabakaðar saltkringlur eru mikið hnossgæti á þessum árstíma. Unsplash/Hick Cattleham

Í Facebook-hópnum Heimalagað á Heimaey kennir ýmissa grasa. Þar deilir eyjafólk alls kyns uppskriftum með hvort öðru sem eiga það svo til að rata í handskrifaðar uppskriftarbækur og ganga á milli kynslóða. Þar er ekki einungis verið að deila uppskriftum af skotheldri þjóðhátíðar kjötsúpu eða reyktum lunda í soðsósu heldur ber þar einnig að líta ógrynni af sniðugum baksturs hugmyndum sem sóttar eru út fyrir landsteinana.

Í tilefni af októberfest fékk Matarvefur mbl.is leyfi til að deila uppskrift af mjúkum og bragðgóðum saltkringlum (Pretzel) að þýskum sið sem einn meðlimur Facebook-hópsins bakar gjarnan á þessum tíma árs en fékk sjálfur uppskriftina að láni hjá öðrum. Uppskriftin hefur gengið manna á milli bæði í Vestmannaeyjum og á fastalandinu og eru þeir sem hafa látið verða að því að baka umræddar saltkringlur sammála um að þær séu hreint úr sagt algert lostæti.

Saltkringlur að þýskum sið 

Uppskrift gefur 15 kringlur

  • 350 ml volgt vatn
  • 1 bréf af þurrgeri
  • 1 msk púðursykur
  • 1 tsk salt
  • 30 g brætt smjör
  • 770 g hveiti
  • Sjávarsalt
  • Parmesan ostur
  • 1,5 l vatn
  • 90 g matarsódi
  • Ostasósa

Aðferð:

  1. Hrærið saman vatni, þurrgeri og púðursykri þar til gerið fer að freyða.
  2. Bætið salti og smjöri saman við.
  3. Því næst er hveitinu bætt saman við í nokkrum skömmtum og deigið hnoðað með króknum á hrærivélinni eða í höndunum í stórri skál.
  4. Mögulegt er að minna eða meira magn þurfi af hveitinu en best er að deigið sé frekar blautt í sér en þurrt. Það á þó ekki að klístrast mjög mikið við alla fingur og skál.
  5. Deigið látið hefast í skál sem búið er að pensla með matarolíu að innan í um það bil 20 mínútur.
  6. Á meðan er vatn og matarsódi sett í pott og hitað að suðu.
  7. Hitið ofninn í 200°C.
  8. Að 20 mínútum liðnum er deiginu skipt niður í 15 hluta. Hver hluti er rúllaður út í jafnar lengjur sem er um það bil 40 - 50 cm á lengd. Reynið að endurhnoða deigið sem minnst. Það gerir það að verkum að kringlurnar verði mýkri í sér eftir bakstur.
  9. Takið hverja lengju jafnóðum, snúið upp á endana og mótið úr þeim kringlur.
  10. Leggið hverja og eina varlega ofan í pottinn og sjóðið í um 20 sekúndur. Best er að nota kleinuspaða til að veiða þær upp úr og gott er að hrista vatnið vel af þeim áður þær eru síðan lagðar ofan á bökunarpappír á bökunarplötu.
  11. Stráið sjávarsalti og parmesan osti yfir hverja kringlu og bakið í um 10-12 mínútur eða þar til kringlurnar verða fallega gylltar á lit.
  12. Berið fram með ostasósu sem hægt er að dýfa í.
Kringlur í mótun.
Kringlur í mótun. Skjáskot/Facebook
Hver og ein kringla er soðin í vatni og matarsóda …
Hver og ein kringla er soðin í vatni og matarsóda í um það bil 20 sekúndur. Skjáskot/Facebook
Salti og parmesan osti er sáldrað yfir hverja og eina …
Salti og parmesan osti er sáldrað yfir hverja og eina kringlu. Skjáskot/Facebook
Það gerir mikið að dýfa kringlunum í ostasósu.
Það gerir mikið að dýfa kringlunum í ostasósu. Skjáskot/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert