Guðrún Erla Guðjónsdóttir, bakari og nemi í konditor, er ein þeirra sem ætlar að taka þátt í Bleika deginum sem fram undan er miðvikudaginn 23. október næstkomandi. Hún ætlar að bjóða upp á bleikar kræsingar í tilefni dagsins og baka hindberja- og hvítsúkkulaðikökur og skreyta þær með bleikum glassúr.
„Ég valdi að gera bleikan glassúr í tilefni Bleika dagsins og í raun líka fyrir þema októbermánaðar,“ segir Guðrún Erla.
Hún segir að þessar kökur slái ávallt í gegn og séu hreinlega ávanabindandi, þegar byrjað sé á einni langi þig strax í aðra. Þessar passa vel á bleika hlaðborðið á miðvikudaginn næstkomandi.
Í tilefni Bleika dagsins hvetur Krabbameinsfélagið landsmenn til að vera í bleiku alla leið, bera bleiku slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma, bjóða upp á bleikar kræsingar og halda bleik kaffiboð svo fátt eitt sé nefnt. Þetta er hvatning til allra svo að allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni fyrir stuðningi landsmanna og samstöðu.
Guðrún Erla skreytir kökurnar með bleikum glassúr.
Ljósmynd/Guðrún Erla Guðjónsdóttir
Hindberja- og hvítsúkkulaðikökur
Um 16 kökur
- 200 g púðursykur
- 210 g sykur
- 250 g smjör
- 2 egg
- ½ tsk. lyftiduft
- ½ tsk. matarsódi
- 1 tsk. salt
- 340 g hveiti
- 100 g frosin hindber
- 150 g hvítt súkkulaði
Aðferð:
- Þeytið smjör og sykur saman þar til það verður létt og ljóst.
- Bætið við einu og einu eggi í einu, og passið að skafa niður hliðarnar.
- Blandið öllu þurrefni saman og sigtið út í deigið.
- Þegar allt er komið saman eru hindberjunum og súkkulaðinu blandað rólega út í.
- Gott er að geyma deigið inn í ísskáp í að minnsta kosti 2 klukkustundir áður en kökurnar eru mótaðar og settar inn í ofn. Það hjálpar kökunum að halda formi sínu, og svo að þær fari ekki út um allt í ofninum.
- Mótið síðan kökur úr deiginu, í hæfilegri stærð og setjið á ofnplötu klædda bökunarpappír.
- Setjið kökurnar inn í ofn á 180°C hita og bakið í 10-12 mínútur.
- Þegar kökurnar hafa kólnað er fallegt að skreyta þær með glassúr eftir smekk, sjá uppskrift fyrir neðan.
Glassúr
- 50 g flórsykur
- 10 g vatn
- 2-3 dropar bleikur matarlitur
Aðferð:
- Blandið hráefninu saman og hrærið þar til blandan er fislétt og kekkjalaus.