Viðskiptavinir Hagkaups hafa dagana 2.-13. október fengið þann valmöguleika á sjálfsafgreiðslukössum að bæta 500 krónur við körfuna sína í formi styrks til Bleiku slaufunnar. Þetta er liður að söfnun sem Hagkaup hefur sett á fót til þess að aðstoða þetta verðuga málefni. Hagkaup hefur svo bætt upphæð við söfnunina og þannig styrkja Hagkaup og viðskiptavinir Hagkaups Bleiku slaufuna saman og hafa gert síðustu ár. Í tilkynningu frá Hagkaup segir að tvær og hálf milljón hafi safnast að þessu sinni.
„Söfnunin gekk vonum framar og í ár gátum við afhent Krabbameinsfélaginu tvær og hálfa milljón og við erum einstaklega þakklát viðskiptavinum okkar fyrir að taka þátt í þessari söfnun með okkur. Það er virkilega fallegt að sjá hversu vel okkar viðskiptavinir hafa tekið í söfnunina og margir sem lögðu henni lið,“ segir Lilja Björg Gísladóttir sérfræðingur markaðsmála hjá Hagkaup.
Það voru Lilja Björg Gísladóttir, sérfræðingur markaðsmála hjá Hagkaup og Rakel Ósk Hreinsdóttir, vörustjóri snyrtivöru og fatnaðar hjá Hagkaup sem afhentu Árna Reyni Alfreðssyni, forstöðumanni markaðsmála og fjáraflanna hjá Krabbameinsfélaginu, ávísunina.
Hagkaup hvetur öll sem hafa getu til að leggja Bleiku slaufunni lið með einum eða öðrum hætti og minna viðskiptavini sína á bleika daginn sem verður miðvikudaginn 23. október næstkomandi.