Bleika þemað heldur áfram á Matarvefnum og næst er það Anna Marín Bentsdóttir ástríðubakari hjá lífsstíl- og eldhúsversluninni Kokku sem deilir með lesendum girnilegri uppskrift að bleikri skyrköku. Kakan er með hindberjakeim og kexbotninn er hreint sælgæti.
Ómótstæðilega freistandi skyrkaka.
Ljósmynd/Bent Marinósson
Anna Marín ætlar að halda upp á Bleika daginn sem framundan er á miðvikudaginn 23. október næstkomandi og bjóða upp á þessa dýrðlegu bleiku skyrköku sem á án ef eftir gleðja þá sem fá að njóta. Hún ætlar að dekka borð þar sem bleiki liturinn fær að njóta sín og vera sjálf svolítið bleik í tilefni dagsins.
Skyrkakan er einstaklega falleg og bragðast syndsamlega vel.
Fegurð í bleiku.
Ljósmynd/Bent Marinósson
Bleik skyrkaka
Kex botn
- 200 g Lukex
- 80 g bráðið smjör
Aðferð:
- Byrjið á því að setja kexið í matvinnsluvél og myljið þar til að það eru engir stórir klumpar eftir af kexi eftir.
- Bræðið smjörið og blandið því við kexið.
- Setjið bökunarpappír í botninn á 24 cm smelluform og hellið kex blöndunni í botninn og þjappið henni vel.
- Kælið síðan á meðan skyrfyllingin er gerð.
Hindberjaskyrfylling
- 300 g frosin hindber
- 80 g sykur
- börkur af 1 sítrónu
- safi úr 1 sítrónu
- 5 matarlímsplötur
- 500 g vanillu skyr
- 300 g þeyttur rjómi
- Hindberja sulta
Aðferð:
- Leggið matarlíms plöturnar í kalt vatn og setjið til hliðar.
- Setjið hindber, sykur, sítrónu börk og safa. í miðlungs pott.
- Hrærið saman yfir vægum hita.
- Stappið berin og svo leyfið að malla í nokkrar mínútur.
- Bætið síðan matarlímsblöðunum út í og hrærið vel.
- Hellið síðan blöndunni í gegnum sigti og leyfið að kólna.
- Setjið skyrið og flórsykur í skál og hrærið með písk.
- Hrærið hindberja blöndunni við skyrið.
- Stífþeytið síðan rjómann og blandið varlega við skyrblönduna með sleikju.
- Takið kex botninn úr kæli, hellið skyrblöndunni yfir og sléttið úr toppnum.
- Setjið aftur í kæli og kælið í minnst 6 klukkustundir eða helst yfir nótt.
Hindberjasósa
- 200 g frosin hindber
- 80 g sykur
- 220 g fersk hindber
Aðferð:
- Setjið frosnu hindberin og sykurinn saman í pott og hrærið yfir miðlungs hita þar til blandan hefur þykkt smá.
- Hellið síðan í gegnum sigti ofan í skál og bætið fersku hindberjunum út í.
- Hrærið allt varlega saman og leyfið að standa við stofuhita í 30-60 mínútur.
Samsetning:
- Takið kökuna úr kæli og færið á disk, skreytið með hindberja sósunni.
- Skerið síðan í og njótið.