Spari snittubrauð með osti heilla matgæðinga til sjávar og sveita

Heimagerð spari snittubrauð eru ómótstæðileg.
Heimagerð spari snittubrauð eru ómótstæðileg. Ljósmynd/Aðsend

Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans í Reykjavík deilir uppskrift af snittubrauðum með osti sem eru sérlega sparileg. 

Það er oft hagkvæmara að baka brauð frá grunni en að kaupa þau tilbúin út úr búð. Eins og þessi uppskrift gefur til kynna þá er hún einföld en þó örlítið tímafrek. Deigið þarf að hefast tvisvar. Þetta er ekta svona dúllerí sem hægt er að gera um helgar á milli þess sem annað er sýslað á heimilinu. 

Spari snittubrauð henta vel með pastaréttum, súpum og á veisluborð. 

Brauðin eru góð með súpu og eru fín viðbót á …
Brauðin eru góð með súpu og eru fín viðbót á veisluborð. Ljósmynd/Aðsend

Spari snittubrauð með osti

  • 2 ½ dl ylvolgt vatn, u.þ.b. 37°C
  • 2 ½ tsk ger
  • 1 tsk sykur
  • 1 tsk salt
  • 1 msk olía
  • 2 msk hveitklíð ef vill
  • u.þ.b. 5 dl brauðhveiti

Í fyllingu:

  • Rifinn ostur
  • Smjör, brætt
  • 3-4 hvítlauksrif, söxuð

Aðferð:

  1. Leysið gerið og sykurinn upp í ylvolgu vatninu.
  2. Bætið síðan salti, olíu, hveitiklíð og brauðhveiti saman við.
  3. Látið hefast í u.þ.b. 40 mínútur. 
  4. Mótið síðan 2-3 aflöng brauð, skorið að endilöngu og rifinn ostur settur ofan í.
  5. Komið fyrir á bökunarpappír á bökunarplötu.
  6. Látið hefast aftur í u.þ.b. 20 mínútur.
  7. Bræðið smávegis af smjöri á vægum hita og bætið við söxuðum hvítlauk saman við og penslið á brauðin bæði fyrir og beint eftir bakstur.
  8. Bakið við 180°C í u.þ.b. 15-25 mínútur, fer eftir stærð brauða, eða þar til þau verða orðin gullinbrún.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka