Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt og lífskúnstner er sniðugri en flestir þegar kemur að hönnun, skreytingum og bakstri svo fátt sé nefnt.
Hún ætlar að halda upp á Bleika daginn sem framundan er miðvikudaginn 23. október næstkomandi og bjóða upp á bleikar kræsingar enda elskar hún allt sem er bleikt. Bleiki liturinn er í miklu uppáhaldi hjá Hildi og hún getur töfrað fram ótrúlegustu hluti í bleiku.
„Ég kaupi alltaf bleiku slaufuna enda er málefnið svo mikilvægt og stendur nærri okkur öllum, öll þekkjum við konur sem barist hafa við krabbamein og mér finnst mikilvægt að heiðra hugrekki þeirra á Bleika deginum - já og bara alltaf,“ segir Hildur.
Þegar kemur að því að töfrar fram bleikar kræsingar í tilefni Bleika dagsins er Hildur sniðugri en flestir og segir að maður þurfi ekki að vera góður bakari til að galdra fram bleikar kökur. Leyndardómurinn felist í skrautinu.
„Ég kann svo lítið að baka að ég redda mér oft með skrautinu, en ég gerði það einmitt núna. Ég gerði einfaldar Rice Krispies kökur ásamt systur minni sem er öllu klárari en ég í eldhúsinu. Kökurnar eru gerðar úr sykurpúðum, smjöri og Rice Krispies með bleikum matarlit,“ segir Hildur með bros á vör.
„Stelpurnar mínar elska svona nammi lengjur og ég stal laugardagsnamminu þeirra og bjó til slaufur úr þeim og festi þær á Rice Krispies kökurnar. Ég setti síðan afganginn í kúluklakaform til þess að búa til lítil brjóst, svo notaði ég kökuskraut fyrir geirvörtur.
Síðan gerði ég bleikt kaffi. En kaffið gerði ég með góðu espressokaffi og fyllti glasið með klökum og blandaði bleikum matarlit úr í vegan rjóma sem ég hellti yfir, rjóminn er svolítið sætur á bragðið þannig að þetta verður svolítið eins og góð köld froða,“ segir Hildur og bætir við að það sé gaman að fara alla leið með bleika litinn.
„Svo fannst mér sætt að hnýta saman servíetturnar með slaufum utan um gaflana til þess að vera í slaufu þemanu.“
Bleikar slaufukökur og lítil brjóst
Til skrauts:
Aðferð: