Ómótstæðilega girnileg bleik ostakaka

Girnileg bleik ostakaka skreytt með bleikhjúpuðum jarðarberjum.
Girnileg bleik ostakaka skreytt með bleikhjúpuðum jarðarberjum. Ljósmynd/Andrea Gunnarsdóttir

Andrea Gunnarsdóttir, sælkeri og matarbloggari, heldur ávallt upp á bleikan október með því að töfra fram bleikar og girnilegar kræsingar sem gleðja alla sælkera. Í tilefni Bleika dagsins á morgun, miðvikudaginn 23. október, ætlar hún að bjóða upp á bleika ostaköku skreytta með jarðarberjum sem er ómótstæðilega girnileg.

Meira segja Rice Krispies-ið er bleikt.
Meira segja Rice Krispies-ið er bleikt. Ljósmynd/Andrea Gunnarsdóttir

Ostakaka með jarðarberjum og Rice Krispies-botni

  • 5 bollar Rice Krispies
  • 1⁄4 bolli smjör
  • 4 bollar sykurpúðar
  • Bleikur matarlitur eftir smekk
  • 200 g rjómaostur
  • 1 bolli flórsykur
  • 1 bolli rjómi
  • 1 bolli nýmjólk
  • 1 pk. Royal jarðarberjabúðingur
  • Jarðarber eftir smekk
  • 150 g hvítt súkkulaði, brætt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að klæða kringlótt 26 cm smelluform með bökunarpappír.
  2. Bræðið smjörið í potti.
  3. Bætið sykurpúðunum í pottinn þegar smjörið er bráðnað og hrærið stöðugt í þar til sykurpúðarnir eru bráðnaðir og blandan orðin slétt.
  4. Setjið bleikan matarlit eftir smekk saman við og hrærið vel saman.
  5. Takið af hitanum og blandið Rice Krispies saman við með sleif.
  6. Takið síðan pottinn af og setjið blönduna í smellimótið.
  7. Þrýstið blöndunni í botninn á smelluforminu og setjið í ísskáp.
  8. Þeytið saman Royal jarðaberjabúðingi og nýmjólk og setjið í ísskáp í 5 mínútur.
  9. Blandið saman flórsykri og rjómaosti.
  10. Þeytið rjómann.
  11. Blandið saman búðingnum, rjómanum og rjómaostblöndunni.
  12. Hrærið bleikum matarlit saman við eftir smekk.
  13. Hellið blöndunni yfir Rice Krispies-botninn, strekkið plastfilmu yfir og setjið í frysti og hafið botninn þar þangað til 2 klukkutímar eru til stefnu áður en á að bera kökuna fram.
  14. Bræðið þá hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði.
  15. Blandið smá bleikum matarlit saman við.
  16. Skerið jarðarber í tvennt og dýfið í brædda súkkulaðið.
  17. Raðið jarðarberjunum yfir kökuna.
  18. Bætið smá bleikum matarlit út í súkkulaðið til viðbótar og dreifið yfir kökuna.
  19. Berið fram með þeyttum rjóma og jarðarberjum ef vill.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka