Uppáhaldsfiskréttur skólameistarans í Húsó

Marta María Arnarsdóttir skólameistari í Hússtjórnarskólanum elskar þennan ofnbakaða fiskrétt …
Marta María Arnarsdóttir skólameistari í Hússtjórnarskólanum elskar þennan ofnbakaða fiskrétt með blaðlauk. Samsett mynd

Marta María Arn­ars­dótt­ir skóla­meist­ari Hús­stjórn­ar­skól­ans elskar góða fiskrétti og einn af hennar uppáhalds er þessi ljúffengi ofnbakaði fiskur með blaðlauk. 

Uppskriftin kemur úr eldhúsinu í Húsó og þegar kemur að því að velja smurost í réttinn getur hver og einn valið þann sem honum þykir bestur. Það sem Mörtu Maríu finnst svo gott er blaðlaukurinn sem settur er út í réttinn og það er líka hægt að velja smurost með blaðlauk ef vill.

Þetta er góður réttur til að njóta alla daga, meira segja á sunnudagskvöldi í góðum félagsskap

Ofnbakaður fiskur með blaðlauk

  • 800 g fiskflök, ýsa eða þorskur
  • 2 msk. sítrónusafi
  • ½ tsk. salt
  • 1 tsk. sítrónupipar
  • 250 g smurostur (papriku, sveppa eða annar)
  • ½ dl rjómi
  • ½ dl vatn
  • 1 dl brauðrasp
  • ½ saxaður blaðlaukur (má skipta út fyrir rauðlauk)
  • 2 msk steinselja
  • 100 g rifinn ostur
  • 60 g brætt smjör

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 190°C hita.
  2. Smyrjið eldfast mót.
  3. Gætið þess að fiskflökin séu roð- og beinhreinsuð.
  4. Skerið fiskflökin í jafnstór stykki og raðið í formið.
  5. Kreistið sítrónusafann yfir fiskinn ásamt salti og sítrónupipar.
  6. Bræðið saman smurostinn og rjómann ásamt vatninu í potti við vægan hita og hrærið í þar til úr verður jöfn sósa.
  7. Hellið blöndunni jafnt yfir fiskinn.
  8. Blandið brauðraspinum, blaðlauknum, steinseljunni, rifna ostinum og brædda smjörinu saman í skál.
  9. Dreifið brauðraspsblöndunni yfir fiskinn.
  10. Bakið í ofni í um það bil 20 mínútur við 190°C.
  11. Berið fram með grjónum eða kartöflum og góðu salati.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert