Ógurlegar hrekkjavökukræsingar

Mæðgur Una Dögg Guðmundsdóttir og Andrea Líf deila sama áhugamáli, …
Mæðgur Una Dögg Guðmundsdóttir og Andrea Líf deila sama áhugamáli, bakstri, og ætla að baka saman ógurlegar kræsingar fyrir hrekkjavökuna. Morgunblaðið/Eggert

Una Dögg Guðmundsdóttir ástríðubakari og dóttir hennar Andrea Líf ætla að taka hrekkjavökuna alla leið. Þær ætla að bjóða stórfjölskyldunni upp á ógurlega kræsingar og klæða sig upp í hræðilega búninga.

Mæðgurnar búa á Seltjarnarnesi og eru báðar áhugamanneskjur um bakstur og matargerð. Þótt Andrea sé einungis tólf ára er hún farin að baka sjálf og elskar fátt meira en að fá að taka þátt í eldhússtörfunum með móður sinni.

Andrea smitaðist af bakstursbakteríunni

Hrekkjavakan er fram undan fimmtudaginn 31. október næstkomandi og margir eru byrjaðir að búa sig undir hrylling. Það hefur færst í vöxt að Íslendingar taki þátt í hrekkjavökunni með því að klæða sig upp, bjóða í hrekkjavökupartí með ógurlegum kræsingum og skera út grasker. Mæðgurnar eru byrjaðar að þróa sínar kræsingar.

„Ég hef verið að baka síðan ég man eftir mér og áhuginn aukist með hverju árinu. Ég held að Andrea mín hafi smitast af bakstursbakteríunni hjá mér og þegar kemur að hrekkjavökunni er hún rosalega spennt fyrir að búa til hræðilegar kræsingar,“ segir Una og hlær.

Una hefur verið iðin við að baka fyrir vini og vandamenn og lagt sitt af mörkum þegar mikið stendur til. „Ég hef komið að efnissköpun fyrir fyrirtæki tengt uppskriftum og skemmtilegum hugmyndum fyrir veislur og viðburði.

Gómsæt Graskerssúpa passar ákaflega vel við þennan árstíma. Grasker eru …
Gómsæt Graskerssúpa passar ákaflega vel við þennan árstíma. Grasker eru táknræn fyrir hrekkjavöku og svo eru þau svo góð í súpugerð.

Núna síðast fyrir fæðingarorlofið starfaði ég sem heimilisfræðikennari við Grunnskóla Seltjarnarness en það vakti mikla lukku og þá má sérstaklega nefna það þegar ég bauð nemendum að taka þátt í svokallaðri „bake off“-keppni eða baksturskeppni. Það var frábært að sjá metnaðinn og þennan gríðarlega áhuga ungra nemenda á bakstri og matargerð.“

Æðislegar smákökur í köngulóarformi

Andrea er líka efnilegur bakari, mikill hugmyndasmiður er kemur að tækifærisbakstri svo sem fyrir hrekkjavöku eða jól. „ segir Una og bætir við að Andrea hafi sjálf bakað eina tegundina fyrir lesendur Morgunblaðsins. Hún bakaði æðislegar smákökur í köngulóarformi í tilefni af hrekkjavökunni og deilir uppskriftinni hér.

Köngulær Allir vilja hafa skríðandi köngulær á veisluborðinu á hrekkjavökunni …
Köngulær Allir vilja hafa skríðandi köngulær á veisluborðinu á hrekkjavökunni ógurlegu.

Ófá hrekkjavökupartíin hafa verið haldin á heimili Unu og þá fyrst og fremst fyrir yngri kynslóðina síðastliðin ár.

„Ég hef alveg haldið skemmtileg hrekkjavökupartí en síðustu ár hafa þau snúist meira um vini dætra minna og að skapa gleði með þeim. Það er svo gaman að sjá börnin skreyta og klæða sig upp fyrir vökuna þar sem þau nýta sköpunarkraftinn og hugmyndaflugið til að vera eins ógurleg og þau geta. Einnig finnst mér mikilvægt að leyfa þeim að taka þátt í að búa til kræsingar til að bjóða upp á.“

Skrímsli Hvern langar ekki að borða litrík skrímsla brownies sem …
Skrímsli Hvern langar ekki að borða litrík skrímsla brownies sem kitla bragðlaukana? Morgunblaðið/Eggert

Töfra fram hryllilegar veitingar

Það sem heillar Unu helst við hrekkjavökuna er að undirbúa og töfra fram hryllilegar veitingar.

„Sérstaklega að fá nýjar hugmyndir ár eftir ár og þróa þær áfram. Ég kem ávallt með eitthvað nýtt á hverju ári. Hrekkjavakan mín í ár verður væntanlega með aðeins rólegra sniði þar sem ég með einn lítinn dreng, nýfæddan, og annan þriggja ára. Við munum skella okkur til systur minnar og klæða okkur upp í hræðilega búninga. Síðan ætlum við svo að taka á móti krökkum með sælgæti þegar bankað verður upp á og beðið um grikk eða gott.“

Ormar Frumleg og öðruvísi útfærsla á lasanja með Oreo-kexi og …
Ormar Frumleg og öðruvísi útfærsla á lasanja með Oreo-kexi og litríkum ormum.

Graskerssúpa

  • 1 stk. meðalstórt grasker eða butternut-grasker
  • 1 stk. stór sæt kartafla
  • 1 msk. kókosolía
  • 1 stk. laukur saxaður
  • 2 stk. hvítlauksrif pressuð
  • 15-20 g ferskt engifer pressað
  • 400 ml kókosmjólk
  • 500 ml vatn
  • 2 stk. grænmetisteningur
  • 1 tsk. paprikuduft
  • 1 tsk. kóríander
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 200°C.
  2. Skerið graskerið í tvennt og hreinsið fræin í burtu.
  3. Skerið einnig sætu kartöfluna í tvennt. Leggið hvort tveggja á ofnplötu klædda bökunarpappír og penslið með ólífuolíu.
  4. Hitið í ofni í um það bil 35 mínútur eða þar til graskerið og sæta kartaflan eru orðin mjúk.
  5. Setjið kókosolíu í pott og steikið laukinn í 5-6 mínútur við meðalháan hita.
  6. Bætið engifer og hvítlauksrifjum saman við og steikið í um 2 mínútur til viðbótar.
  7. Afhýðið sætu kartöfluna og setjið í pottinn ásamt graskerskjöti og blandið saman með töfrasprota.
  8. Leysið næst upp grænmetisteningana í 500 ml af vatni og hellið út í pottinn.
  9. Ef þið viljið þynnri áferð þá má bæta meira vatni saman við.
  10. Bætið kryddinu saman við og hrærið vel.
  11. Setjið að lokum kókosmjólk út í og kryddið til með salti og pipar. Berið súpuna fram með graskersfræjum, góðum ristuðum hnetum og svo skemmir ekki að hafa góðar brauðbollur með.

Orma-lasanja

  • 2 pk. Royal-súkkulaðibúðingur
  • mjólk, magn aftan á pakkanum af búðingnum
  • 1 pk. Oreo-kex
  • 1 pk. hlaupormar að eigin vali

Aðferð:

  1. Byrjið á að þeyta Royal-búðinginn með mjólk (sjá magn á bakhlið pakkans).
  2. Hellið blöndunni í form og kælið. Setjið Oreo-kexkökur í matvinnsluvél og stráið svo yfir búðingsblönduna.
  3. Að lokum skreytið þið með hlaupormum og berið svo fram þetta hryllilega orma-lasanja.

Skrímsla-brownies-bitar

Brownies-bitar

  • 1 pk. Betty Crocker brownie-blanda
  • 1 stk. egg
  • olía
  • vatn

Aðferð:

  1. Byrjið á að hita ofninn samkvæmt leiðbeiningum á kökublöndunni.
  2. Blandið kökudeigið samkvæmt leiðbeiningum og leggið í smurt form.
  3. Bakið eftir leiðbeiningum aftan á pakkanum. 
  4. Leyfið kökunni að kólna og skerið svo í mismunandi bita.

Krem

  • 250 g smjörlíki, mjúkt
  • 250 g flórsykur
  • 1 msk. vanilludropar
  • 2-4 litir af matarlit

Til skrauts

  • Sælgætisaugu

Aðferð:

  1. Blandið saman smjörlíki, flórsykri og vanilludropum og þeytið vel.
  2. Skiptið kreminu í 2-4 skálar og litið með mismunandi matarlit.
  3. Smyrjið svo hvern kökubita með smá kremi og skreytið með sælgætisaugunum.

Köngulóarsmákökur að hætti Andreu

  • 120 g mjúkt smjör
  • 100 g púðursykur
  • 50 g sykur
  • 2 egg
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 150 g hveiti
  • ½ tsk. salt
  • ½ tsk. matarsódi
  • ½ tsk. lyftiduft
  • 150 g suðusúkkulaði saxað í bita
  • 2-3 lengjur Rollo-súkkulaði eða Reeses-súkkulaðimolar til skreytingar
  • 1 pk. sælgætisaugu til skreytingar
  • Betty Crocker-súkkulaðikrem til skreytingar

Aðferð:

  1. Byrjið á að hita ofninn í 180°C á blæstri.
  2. Blandið öllum þurrefnum nema sykri saman í skál og setjið til hliðar. Saxið suðusúkkulaðið og setjið til hliðar. Þeytið saman í skál sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós í sér.
  3. Bætið næst eggjum saman við og þeytið aðeins áfram.
  4. Næst setjið þið vanilludropa saman við og hrærið vel í blöndunni.
  5. Blandið síðan þurrefnunum varlega saman við með sleikju, passið að allt blandist vel.
  6. Að lokum er súkkulaðinu bætt saman við.
  7. Gerið litlar kúlur og leggið á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Passið að hafa smá bil á milli.
  8. Bakið í 13-15 mínútur og leyfið svo að kólna aðeins áður en þið skreytið kökurnar.
  9. Setjið einn Rollo- eða Reeses-bita á hverja köku, sprautið Betty Crocker-kreminu úr sprautupoka með mjóum stút og myndið fætur á könguló.
  10. Setjið einnig tvær litlar doppur af kremi þar sem festa á sælgætisaugun.
  11. Raðið skemmtilega á bretti eða á bakka og leyfið köngulónum að njóta sín.
Smákökur Þetta eru ógurlegar kökur sem heilla örugglega yngri kynslóðina.
Smákökur Þetta eru ógurlegar kökur sem heilla örugglega yngri kynslóðina.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert