„Fátt betra en að gæða mér á prinessutertu“

Hanna Þóra Thordarson matgæðingur hefur mikið dálæti af því að …
Hanna Þóra Thordarson matgæðingur hefur mikið dálæti af því að heimsækja Stokkhólm í Svíþjóð. Samsett mynd

Hanna Þóra Thordarson matgæðingur elskar að ferðast og á ferðalögum spilar matur stórt hlutverk hjá henni. Hún ljóstrar upp sinni uppáhaldsmatarborg, hvaða staðir og kaffihús heilla hana mest svo fátt sé nefnt.

Hanna er mikil áhugamanneskja um matargerð og veit fátt skemmtilegra en að spá í mat, elda hann og borða.

Þegar matur er annars vegar hvað er þér þá efst í huga?

„Það sem mér finnst svo heillandi við mat og matargerð er hvað hún getur verið nærandi á svo margan hátt. Ef tíminn er nægur þá finnst mér hugarró að bardúsa við matargerð.  Eins getur það verið góð samvera að elda og spjalla saman en ég og maðurinn minn eldum mikið saman og leggjum upp með að fá hópinn okkar allan saman í mat að minnsta kosti einu sinni í viku. Þetta er vinna og frágangurinn kannski ekki sá allra skemmtilegasti en hverrar mínútu virði. Þessi samvera nærir bæði líkama og sál og er ómetanleg. Það að sameinast við matarborðið með fólkinu, sem er samferða mér í lífinu, er einfaldlega best í heimi,“ segir Hanna.

Stokkhólmur er uppáhaldsmatarborgin hennar Hönnu.
Stokkhólmur er uppáhaldsmatarborgin hennar Hönnu. Ljósmynd/Unsplash

Punk Royal öðruvísi en allt annað

Hver er uppáhaldsmatarborgin þín þegar þú hugsar um mat og kræsingar?

„Það liggur beinast við að velja Stokkhólm vegna þess að þangað fer ég mjög oft og æska mín er mjög lituð af sænskri matargerð. Eins og í mörgum öðrum löndum þá er matarflóran töluverð og áhrifa gætir þar frá öðrum löndum. Í hvert skipti sem ég fer þangað reyni ég að finna einhvern nýjan stað. Þá er ég búin að kortleggja hvar skal snæða öll kvöldin. Það er töluverð endurnýjun, nýir veitingastaðir bætast við og aðrir sem leggja upp laupana. Ég hef oft lent í því að fara á stað þar sem maturinn er æði og farið aftur en þá er kominn nýr kokkur eða veitingastaðurinn verið seldur og gæðin breytt. Það er enginn einn veitingastaður sem ég fer alltaf á þegar ég heimsæki borgina, en ég á nokkra sem ég hef farið á nokkrum sinnum,“ segir Hanna og brosir.

„Mér finnst voða þægilegt að geta gengið heim af veitingastaðnum og vel því oft staði á Kungshólminum. Mooncake er austurlenskur veitingastaður sem hefur ekki ennþá klikkað. Sennilega er ein af ástæðunum sú að þar er alltaf sama starfsfólkið. Eigandinn er alltaf á staðnum og er málkunnugur mörgum af viðskiptavinum sínum sem koma aftur og aftur. Ef ég ætla að borða niðri í bæ hef ég síðustu skiptin farið á Smak og borðað þar í hádeginu. Maturinn þar er mjög góður og hægt að borða úti þegar gott er veður. Svo finnst mér Lille Ego í Vasastan líka mjög góður. Lítill staður og kósí en það getur verið þrautin þyngri að panta borð,“ segir Hanna og bætir við að einn staður sé þó sérstakari en aðrir.

Hanna hefur fengið sér beef tartar á veitingastaðnum Smak.
Hanna hefur fengið sér beef tartar á veitingastaðnum Smak. Samsett mynd

„Það er einn staður í Södermalm sem ég hef farið á tvisvar og langar að fara aftur. Hann heitir Punk Royal og er öðruvísi en allt annað. Maturinn er mjög góður og framreiddur öðruvísi en maður á að venjast. Allt þarna er mjög óhefðbundið og eiginlega best að fara þangað og vita sem minnst hverju má eiga von á. Með góðum hópi er hægt að lofa skemmtilegu og öðruvísi kvöldi. Það er bara hægt að panta borð klukkan 18 eða 21 en alltaf meira stuð um helgar og best að vera í seinna hollinu. Þar sem hann er mikið uppbókaður er vissara að panta með góðum fyrirvara.“

Punk Royal er öðruvísi veitingastaður, hipp og kúl.
Punk Royal er öðruvísi veitingastaður, hipp og kúl. Samsett mynd

Prinsessutertan í Thelins

Uppáhaldskaffihúsið?

„Bakkelsið í Svíþjóð er mjög gott. Þeir nota mikið af kardimommu og þar er hægt að kaupa ýmsar útgáfur af snúðum. Ef mig langar í kardimommubakkelsi fer ég yfirleitt í Fabrique. Prinsessutertan er hins vegar í mestu uppáhaldi hjá mér og mínum. Stelpunum mínum finnst prinsessutertan í Thelins best en þar er hún án sultu. Mér finnst alls ekki síðra að hafa sultu og hef gaman af því að prófa að smakka ýmsar útgáfur af prinsessunni.“

Prinsessutertan í góðum félagsskap.
Prinsessutertan í góðum félagsskap. Ljósmynd/Hanna Þóra Thordarson

Hvernig viltu hafa kaffið þitt?

Cappuccino er minn kaffibolli.“

Uppáhaldsmorgunverðarstaðurinn?

„Ég fæ mér yfirleitt morgunmatinn í íbúðinni sem ég dvel í.“

Hvað færðu þér yfirleitt í morgunmat þegar þú ert í uppáhaldsmatarborginni þinni?

„Ég byrja yfirleitt á einu engiferskoti. Með kaffibollanum fæ ég mér sænskt hafraþunnbrauð með sneið af Västerbotten (sænskur ostur) og klípu af sænskri fíkjusultu.“

Uppáhaldsbarinn?

„Ef veðrið er gott er uppáhaldsbarinn minn svalirnar í íbúðinni. Þar er besta útsýnið og þá fæ ég mér oft Gin frá Stockhomls bränneri með tonici, fullt af klökum og nokkrum sítrónudropum.“

Fátt betra en að sitja á svölunum með prinessutertu

Hvað er það sem stendur upp úr þegar þú heimsækir Stokkhólm?

„Ég bjó í Stokkhólmi fyrstu árin mín og á mjög góðar minningar þaðan. Maðurinn minn er fæddur og uppalinn í Svíþjóð þannig að tenging okkar við landið er töluverð. Ég átti nokkrar afasystur, sem voru mér mjög kærar, og ein af þeim bjó í Stokkhólmi. Þegar við heimsækjum Stokkhólm búum við í íbúðinni hennar. Hún er stútfull af minningum og veit ég fátt betra en að sitja á svölunum í góðu veðri flettandi matarblaði og að gæða mér á prinsessutertu,“ segir Hanna að lokum og strax farin að hlakka til næstu ferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert