Hreppstjórakaffi með kandís sem minnir á æskustundirnar

Hreppstjórakaffið er í raun algjör nostalgía að njóta en það …
Hreppstjórakaffið er í raun algjör nostalgía að njóta en það geriri kandísinn. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

Hreppstjórakaffið er drykkur helgarinnar og kemur úr kokteilabókinni Heimabarinn eft­ir þá Andra Davíð Pét­urs­son og Ivan Svan Corwasce barþjóna en í bók­inni er að finna fjöl­marga girni­lega kokteila og drykki sem eiga sér sögu.

Þennan drykk gerði Andri þegar hann var yfirbarþjónn á Mat og Drykk. Drykkurinn er innblásinn af íslenskri sveitasælu, en kaffið, rjóminn, brennivínið og kandís minna flesta Íslendinga á gæðastundir með ömmu og afa.

Þessi skemmtilega útfærsla af Irish Coffee er einstök á sinn hátt, brennivínið frá °64 Reykjavík Distillery parast einstaklega vel við kaffið, kandísið og rjómann enda ríkt af náttúrulegu kúmenbragði. Fitan úr rjómanum bindur svo allt bragðið saman í munninum og gefur silkimjúka áferð.

Hreppstjórakaffi

  • 30 ml brennivín
  • 15 ml kandíssíróp
  • toppað kaffi
  • toppað rjómi

Skraut:

  • kandís

Aðferð:

  1. Hreppstjórakaffi er byggður drykkur og því fljótlegt að gera hann ef maður er með öll hráefnin við höndina.
  2. Byrjið á að setja brennivínið og kandíssírópið í bolla og toppið hann svo upp með rjúkandi heitu kaffi.
  3. Léttþeytið rjómann að lokum með því að setja vel af rjóma í hristara ásamt teskeið eða gorminum úr streinernum og hristum í dágóða stund þar til rjóminn hefur þykknað.
  4. Hellið rjómanum síðan varlega yfir kaffið í bollanum og skreytið með muldum kandísmolum.
  5. Berið fram með reisn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka