Í upphafi nýrrar viku er ávallt gott að fá sér góðan ofnbakaðan fisk. Þessi þorskur í sítrónusósu er ljúffengur og bragðgóður og yljar á dimmum vetrarkvöldum. Uppskriftin er úr smiðju Guðrúnar Ýrar Eðvaldsdóttur hjá Döðlum og smjöri en uppskriftina gerði hún fyrir matarvefinn Gott í matinn. Þetta er þorskur með dýrindis sósu sem inniheldur m.a. sítrónu, sinnep og smurost og er toppuð með ferskri basilíku. Með fiskinum er upplagt að bera fram hrísgrjón eða kartöflur og ferskt salat að eigin vali.
Þorskur í sítrónusósu
Fyrir 4
- 800 g þorskur (eða ýsa)
- 1 msk. olía
- 1 stk. blaðlaukur
- 3 stk. hvítlauksrif
- 2 msk. sterkt sinnep, t.d. dijon
- 2½ msk. sítrónusafi
- 100 ml rjómi
- 100 ml hreinn smurostur frá MS
- salt og pipar eftir smekk
- rifinn Pizzaostur (má sleppa ef vill)
- fersk basilíka eftir smekk
Aðferð:
- Byrjið á því að stilla ofninn á 200°C.
- Skerið fiskinn í bita og leggið í eldfast form.
- Skerið þá blaðlaukinn í sneiðar og setjið í pott ásamt olíu og pressuðum hvítlauk, leyfið því að steikjast í 2-3 mínútur.
- Bætið saman við sinnepi, sítrónusafa, rjóma, smurosti og salti og pipar, hrærið vel saman.
- Leyfið sósunni að blandast saman þar til smurosturinn er allur bráðnaður.
- Dreifið þá úr sósunni yfir fiskinn og setjið rifinn ost yfir ef ykkur langar.
- Setjið fiskréttinn inn í ofn í 15 mínútur, takið út og dreifið ferskri basilíku yfir.
- Gott er að bera réttinn fram með hrísgrjónum eða kartöflum og fersku salati.