Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta-, og ferðamálaráðherra og matgæðingur með meiru, sviptir hulunni af matarvenjum sínum að þessu sinni. Lilja elskar að elda og borða með fólkinu sínu. Hún veit fátt skemmtilegra en að eyða laugardagskvöldum í góðum félagsskap þar sem góður matur er í forgrunni.
„Ég er mikill matgæðingur og elska að matreiða og deila þeirri ástríðu með fólki. Því bjóðum við fjölskyldan oft heim í mat. Eftirlætið mitt er laugardagskvöld í góðum félagsskap þar sem borðaður er góður matur sem búið að nostra við og rætt er um allt milli himins og jarðar.
Íslenska lambið á sérstakan stað í hjarta mér, enda er það einstaklega bragðgott og samofið þjóðarsálinni. Segja má að ég sé sauðfjárbóndi, þar sem mér var gefið eitt lamb sem er í góðu yfirlæti á bóndabæ á Suðurlandi. Ég er ennþá að melta hugmyndina um að flytja það hingað heim en ég efast um að það raungerist. Í millitíðinni læt ég bara hann Snorra minn, hundinn knáa, duga, enda lítur hann út eins og lítið lamb verandi hvítur Mini schnauzer,“ segir Lilja og hlær.
„Ég nýt þess að borða góðan mat með fólkinu mínu. Við eldhúsborðið skapast mikilvægur tími þar sem fjölskyldan fær næði til þess að tala saman og sú tenging er dýrmæt. Ég á tvö börn sem eru á fullu allan daginn eins og við hjónin og því skiptir þessi tími mig miklu máli og er liður í því að hægja á okkur öllum. Það er oft freistandi að borða á hlaupum eða yfir sjónvarpinu en ég legg mikið upp úr því að það sé setið til borðs saman og maturinn sé hollur og góður. Fjölskyldan hefur öll miklar skoðanir á mat og það eru oft fjörugar samningaviðræður í bílnum á leiðinni heim um hvað sé í matinn,“ segir Lilja sposk á svip.
Lilja ljóstrar hér upp fyrir lesendum hverjar matarvenjur hennar eru og hvernig hún vill hafa pylsuna sína svo fátt sé nefnt.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Alltaf cappuccino og ristað súrdeigsbrauð með osti og rifsberjasultu. Frábær samsetning.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég borða lítið á milli mála og gleymi mér oft þegar mikið er að gera. Ég reyni að vera með hollt millimál í veskinu til að grípa í.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Nei, ekki endilega. Morgunverðurinn er ómissandi en hádegisverðurinn er skemmtilegur en ekki nauðsynlegur. Þarna komum við aftur af því að millimálið í veskinu er góð hugmynd.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Epli, mjólk, ost og hráskinku.“
Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?
„Ribeye-steik sem Maggi maðurinn minn grillar. Hann er snillingur á grillinu.“
Hvað viltu á pítsuna þína?
„Hráskinku, rjómaost/geitaost, tómata. Óhefðbundið og æðislegt.“
Færð þú þér pylsu með öllu?
„Eina með öllu en lítið af öllu. Mér finnst pylsur vandræðalega góðar. Pabbi var mjög duglegur í þessari deild og mér þykir hreinlega vænt um SS-pylsur. Bara lyktin kveikir á svo mörgum ljúfum minningum.“
Hvert ferðu þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á?
„Ég er mjög hrifin af Austur-Indíafélaginu. Blandaði tandoori-grillrétturinn þar er á heimsmælikvarða.“
Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja, sem er á „bucket-listanum“?
„Einn uppáhaldsstaðurinn minn er Cantler’s Waterfront Restaurant and Crab House í Annapolis í Maryland. Þetta er staður sem sérhæfir sig í sjávarfangi og er frábær. Þegar við fjölskyldan bjuggum í Bandaríkjunum var þetta uppáhaldsstaðurinn okkar. Sérréttir hússins eru framúrskarandi ásamt þjónustunni. Hann er líklega efstur á lista yfir þá staði sem mig langar að heimsækja, aftur.“
Uppáhaldskokkurinn þinn?
„Þeir eru þrír. Maðurinn minn er mjög góður á grillinu og býr til bestu brauðtertur í heimi. Móðir mín heitin var einnig snilldarkokkur og það var allt listagott hjá henni. Hún lagði metnað í hverja máltíð, þannig að það var aldrei matur klukkan sjö á kvöldin, því lágmarksundirbúningur hjá henni var klukkutími og allt unnið frá grunni. Síðan er litli bakameistarinn minn, hún Signý dóttir mín, virkilega hæfileikarík í eldhúsinu en hún getur hent í heilu hnallþórurnar nánast blindandi og gjörsamlega elskar að baka.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Ísköld mjólk og engiferskot. Alls ekki saman eða nálægt hvort öðru.“
Ertu góður kokkur?
„Já, ég tel að ég geti sagt það, enda er það eitt það allra skemmtilegasta sem ég geri. Mér finnst mjög afslappandi að elda og við eldamennskuna skapast oft fjarlægð við önnur verkefni sem verður til þess að góðar hugmyndir og lausnir koma til mín í kjölfarið. Íslenska smjörið er leynivopnið mitt. Það klikkar aldrei!“