Aðalsteinn safnar pólitískum uppskriftum sem eiga sér sögu

Aðalsteinn Leifsson og eiginkona hans Ágústa Þóra Jónsson eru með …
Aðalsteinn Leifsson og eiginkona hans Ágústa Þóra Jónsson eru með góða verkaskiptingu í eldhúsinu. mbl.is/Arnþór Birkisson

Aðalsteinn Leifsson matgæðingur og fyrrverandi ríkissáttasemjari hefur brennandi áhuga á eldamennsku og bakstri. Hann er iðinn við að elda sterka rétti sem kitla bragðlaukana. Hann hefur líka mikinn áhuga á menningarsögu matar og safnar uppskriftum sem hafa pólitíska þýðingu.

Hann er líka sérfræðingur í samningatækni, sem hann kennir m.a. í MBA-náminu í Háskólanum í Reykjavík og eflaust kemur það sér vel í eldhúsinu þegar hann semur við eiginkonuna hvað á að vera í matinn. Eins og fram hefur komið er hann líka fyrrverandi ríkissáttasemjari og hefur mikið starfað utan landsteinana, síðast sem einn af framkvæmdastjórum EFTA í Genf og Brussel og núna er hann í framboði fyrir Viðreisn fyrir Alþingiskosningarnar.

Neisti sem varð að báli

Aðspurður segir Aðalsteinn að ástríða hans fyrir matargerð hafi ekki kviknaði fyrr en hann var 18 ára gamall.

„Þá hafði ég verið skiptinemi í Hollandi þar sem ég kynntist indónesískri matargerð, en Indónesía var ein af nýlendum Hollands. Ég varð sérstaklega hrifinn af satay-sósu, sem er bragðsterk hnetusósa. Hún var hvergi til á Íslandi og þá varð ég að finna uppskrift og elda hana sjálfur. Þessi neisti varð að báli og ég fékk brennandi áhuga á eldamennsku og bakstri. Seinna fékk ég áhuga á menningarsögu matar og fór fyrir fimmtán árum að safna uppskriftum sem hafa pólitíska þýðingu eða pólitíska sögu, sem sameinar matargerð og áhuga á stjórnmálum og á núna dálítið bókasafn um efnið,“ segir Aðalsteinn sposkur á svipinn.

Hvort finnst þér skemmtilegra að elda eða baka?

„Hvort er skemmtilegra skíði eða snjóbretti! Bæði, ég elda meira en ég baka. Ég á það til að baka þegar það er mikið um að vera á heimilinu og dálítið stress í lofti. Þá veit ég ekki af mér fyrr en ég er kominn með brauð eða köku í ofninn. Það er líklega vegna þess hversu róandi það er að fá bakstursilm í húsið og „hygge“ sig með góðri köku eða heitu brauði. Ég á það líka til að kaupa allt of mikið af bönunum þannig að ég hafi tilefni til að búa til bananabrauð,“ segir Aðalsteinn og hlær.

Þegar kemur að matargerð eftir árstíðum, breytist eldamennskan þín eftir hvaða árstíð er?

„Já, matargerðin breytist mikið eftir árstíðum. Núna þegar það fer að dimma og kólna elda ég meira margskonar matarmiklar súpur og pottrétti. Haustið er í mínum huga tíminn fyrir smalabökur, innbakað, sveppasósu, kartöflugratín, gúllas og svona hlýja rétti sem eiga einhvern veginn ekki við á sumrin. Á sumrin er ég meira með ítalska matargerð og sterka asíska rétti, eitthvað léttara og bragðsterkara.“

Gott að vera einráð í eldhúsinu

Aðalsteinn segir að hann hafi alveg þurft að fara í samningaviðræður við konuna sína þegar kemur að eldamennsku.

„Konan mín, Ágústa, og ég höfum verið gift i tæp 30 ár. Það tók okkur um 15 ár með tilraunum og hreinskiptnum samningaviðræðum að finna taktinn í verkaskiptingu í eldhúsinu þar til við fundum hið fullkomna fyrirkomulag. Að minnsta kosti er það fullkomið fyrir okkur. Það virkar þannig að aðra vikuna kaupa ég í matinn, elda og tek til eftir kvöldverðinn með hjálp barnanna. Hina vikuna er ég alveg stikkfrí því þá sér Ágústa um allt saman. Þannig er hægt að plana að vinna lengur eða sinna áhugamálum aðra hvora viku. Við höfum líka bæði sterkar skoðanir á matargerð og finnst gott að vera einráð í eldhúsinu nema náttúrlega á jólunum og öðrum hátíðum þar sem við plönum fyrirfram að vera lengi saman og laga góðan mat í sameiningu.“

Buttery Chicken, með engu butter og engum chicken að hætti …
Buttery Chicken, með engu butter og engum chicken að hætti Aðalsteins. mbl.is/Arnþór Birkisson

Óvænt og skemmtilegt ævintýri

Aðalsteinn segist eiga sinn uppáhaldsvetrarrétt og sagan bak við hann sé í raun ævintýralega skemmtileg.

Uppáhaldsrétturinn vetrarrétturinn er Buttery Chicken, með engu „butter“ og engum „chicken“. Dóttir okkar, Margrét Sól, vildi gerast vegan fyrir um átta árum og sonur okkar, Viktor Helgi, fylgdi í kjölfarið. Ég var upphaflega mjög tortrygginn gagnvart því og reyndi að fá þau ofan af því. Þegar það tókst ekki ákváðum við sem fjölskylda að elda aðeins grænmetisrétti heima hjá okkur, þó að ég borði mjög gjarnan fisk og einstaka sinnum kjöt utan heimilisins. Þannig gætum við tryggt að við borðuðum áfram saman og að við öll fengjum næringarríkan mat. Við höfðum smá áhyggjur af því að annars yrði mataræði hennar allt of einhæft. Þetta hefur verið mjög óvænt og mjög skemmtilegt ævintýri. Til dæmis þurftum við að finna nýjar útgáfur á réttum sem voru vinsælar hjá fjölskyldumeðlimum og þá varð til þessi frábæri réttur sem er í miklu uppáhaldi,“ segir Aðalsteinn að lokum og deilir hér með lesendum uppskriftinni af dýrðlega réttinum sem á vel við á þessum árstíma.

Ómótstæðilega góður grænmetisréttur sem bragð er af.
Ómótstæðilega góður grænmetisréttur sem bragð er af. mbl.is/Arnþór Birkisson

Buttery Chicken, með engu butter og engum chicken

  • 1 bolli kasjúhnetur
  • 2-3 msk. matarolía
  • Ferskt engifer rifið, sæmilega stór bútur (svona 4 sentimetrar)
  • 2-3 rif hvítlaukur, marin
  • 1 laukur, fínsaxaður
  • 1-2 tsk. chilli-krydd
  • 1 tsk. túrmerik
  • 1 tsk. kóríander (má sleppa ef vill)
  • 1 tsk. kúmin
  • ½ tsk. kanil
  • ½ tsk. paprikukrydd
  • 2 msk. síróp eða hlynsíróp eða bara það sem er til
  • ½ sítróna, safi úr hálfri sítrónu
  • 1-2 pk. tófu, ég nota ódýrt tófu sem fæst t.d. í Bónus
  •  2 dósir niðursoðnir tómar
  • 1 -2 teningar grænmetiskraftur eða 1 - 2 tsk.
  • Svartur pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að leggja kasjúhneturnar í bleyti, helst í nokkra klukkutíma.
  2. Ef þið gleymið því, setjið þær þá í heitt vatn í 10 mínútur.
  3. Maukið þær síðan í matvinnsluvél með smá vatni þannig að úr verður einskonar kasjúhnetu rjómi.
  4. Hitið olíuna í potti og bætið út í hvítlauk og lauk og hitið þar til laukurinn verður glær.
  5. Bætið þá út í ferskum engifer og kryddinu og leyfið þessu að hitna aðeins áður en þið hellið tómötunum og kasjúhnetu rjómanum út í.
  6. Meðan þetta mallar skerið þá niður tófu í teninga og setjið síðan í pottinn.
  7. Smakkið til með svörtum pipar, smá salti eða öðru kryddi ef ykkur finnst eitthvað vanta upp á.
  8. Berið réttinn fram með hrísgrjónum, salati, mangó-chutney og naan-brauði, ef þið eigið það til.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka