Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir nýtur sín þessa dagana í fæðingarorlofi og er byrjuð að undirbúa jólin. Í aðdraganda aðventunnar byrjar hún smákökubaksturinn og þær smákökur sem henni finnst ómissandi að eiga um jólin eru hinar frægu sörur.
Hún hefur ekki setið aðgerðalaus í fæðingarorlofinu og var til að mynda að koma með nýja vöru á markað, smákökudeigið þristakökur, en fyrir var Eva Laufey búin að koma með súkkulaðibitakökur og pekan- og trönuberjakökur.
Eva Laufey er markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaups en hún hefur komið víða við. „Ég var dagskrárgerðarkona í 10 ár, útvarpskona, svo er ég líka matreiðslubókahöfundur, búin að halda úti mínum eigin uppskriftavef í 13 ár og fyrir þremur árum kom ég með mína fyrstu vöru á markað, smákökudeigið.“
Bakstur hefur ávallt verið Evu Laufey hugleikinn og baksturbakteríuna fékk hún frá móður sinni og ömmu.
„Ég ólst upp við það að bæði mamma og amma bökuðu margar sortir á aðventunni. Ég á mjög góðar minningar úr eldhúsinu þar sem ég fylgdist með og fékk að taka þátt í bakstrinum. Ég tók meðal annars þátt í því að búa til loftkökur, það var alltaf mesta sportið. Síðan gerði ég vanilluhringi, kókostoppa, marenskökur og svo mætti lengi telja. Það var mikil tilhlökkun þegar jólasmákökuboxin voru dregin fram og fylltust smám saman fyrir jólin af ljúffengum smákökum,“ segir Eva Laufey og brosir.
Hún segist þó ekki hafa farið alveg sömu leið og þær. Ég baka fáar sortir, þær sem eru vinsælar hér heima, og ég baka smærri skammta og oftar. Ég elska kökuilminn í húsinu á aðventunni og vil því sem oftast hafa eitthvað í ofninum. Þá er lag að baka oftar og bara minni skammta.“
Áttu þínar uppáhaldssmákökur sem þú getur ekki verið án á aðventunni?
„Ég verð að segja súkkulaðibitakökur og sörur. Baka þær alltaf og svo bæti ég nokkrum tegundum við, fer bara eftir í hvaða stuði ég er og hvað fjölskylduna langar í hverju sinni,“ segir Eva Laufey og bætir við að hún borði sennilega meira af smákökum í nóvember og byrjun desember. „Ég borða sennilega minnst af þeim um jólin því þá eru svo margar kræsingar í boði en að sjálfsögðu á ég þær alltaf til. Þetta hefur þó breyst og kökuátið góða hefst hjá mér í byrjun nóvember,“ segir Eva Laufey kímin.
Segðu okkur aðeins frá tilurð þess að þú ákvaðst að framleiða tilbúið smákökudeig?
„Þetta er þriðja árið þar sem ég er með kökudeig í sölu fyrir jólin og þetta er svo skemmtilegt. Ég var búin að taka eftir því að mynstrið er breytt. Það eru ekki margir að baka ótal sortir fyrir jólin eins og áður og fólk kýs einfaldleikann. Eitthvað sem einfaldar lífið þar sem tíminn getur stundum verið af skornum skammti og ekki mikill tími fyrir jólabaksturinn. Þess vegna fór ég í þetta verkefni að þróa smákökudeig úr mínum uppskriftum. Þetta hefur verið heljarinnar verkefni, að aðlaga kökudeigið að kökunum eins og maður bakar heima. Það skipti mig miklu máli að deigið sé úrvalsdeig og viðskiptavinir fái góða vöru í baksturinn. Ég vinn deigið í samvinnu við Mylluna og þar eru snillingar sem hafa hjálpað mér að ná einmitt því með vörunni, það er að segja að kökurnar séu eins og maður gerir þær sjálfur frá grunni.“
Aðspurð segist Eva Laufey hafa fengið innblásturinn frá kjarnanum, mömmu sinni og ömmu. „Mig langaði að búa til deig sem færir fólki sama kökuilm og ég ólst upp við. Ég er með súkkulaðibitakökur, pekan- og trönuberjakökur og svo kynntum við til leiks nýja tegund í ár en það eru þristakökur. Ég er forfallinn Þrista-aðdáandi og því lá beinast við að sameina kökudeigið og þetta góða súkkulaði. Útkoman er ansi góð þó ég segi sjálf frá og mér heyrist fólk vera á sama máli,“ segir Eva Laufey og brosir.
„Svo eru það auðvitað bökuðu kökurnar, það er náttúrlega algjör snilld að geta gripið með sér box af bökuðum smákökum. Þá getur þú keypt þér kökur án þess að hafa nokkuð fyrir því. Viðtökurnar hafa vægt til orða tekið verið rosalega góðar, í byrjun nóvember var sölumet slegið og jólavertíðin er í raun ekki hafin svo þetta er mjög ánægjuleg byrjun og ég er svo þakklát fyrir móttökurnar.“
Þessa dagana er Eva Laufey í fæðingarorlofi og getur undirbúið jólin með fólkinu sínu. „Ég nýt þess að vera heima með stelpunum mínum á þessum árstíma, alla jafna væri mikið fjör í vinnunni þar sem Hagkaup er afar stór í jólaverslun Íslendinga og yfirleitt mikið að gera í vinnu á þessum tíma og rosalega gaman. Ég fylgist með fólkinu mínu á kantinum fyrir þessi jól sem er bara gaman,“ segir hún og brosir.
„Ég er farin að huga að því að taka upp seríur og byrja að skreyta smám saman. Kökubaksturinn er hið minnsta byrjaður og það er einstaklega þægilegt að vera með tilbúnu kökudeigin sem ég hef ekkert fyrir nema það að skera niður, rúlla í kúlur og baka. Lágmarksfyrirhöfn en útkoman sú að húsið ilmar af kökum og það er hlýleiki sem því fylgir,“ segir hún.
„Hægt er að nýta deigið á marga vegu og til dæmis elska ég að baka deigið sem risasmáköku en þá nota ég bakstursform eða pönnu sem þolir að fara inn í ofn. Hún er borin fram með ís og súkkulaðisósu, dásamlegur eftirréttur sem bráðnar í munni. Það má því leika sér með deigið að vild og gera það að sínu,“ bætir hún við.
Þegar Eva Laufey er spurð hvort hún vilji deila með lesendum matarvefsins uppskrift að sörunum sem hún getur ekki verið án er hún fljót til svars. „Já mín er ánægjan, sörurnar eru ómissandi í desember. Uppskriftin er frá mömmu minni en sörurnar eru aðeins grófari vegna þess að við notum heslihnetur í botninn. Auðvitað má skipta þeim út fyrir möndlur,“ segir Eva Laufey að lokum með bros á vör.
Sörurnar hennar mömmu
Botn
Aðferð:
Krem
Aðferð:
Hjúpur
Aðferð: