Eftirréttadrottningin, Ólöf Ólafsdóttir, konditor og fyrrverandi meðlimur íslenska kokkalandsliðsins, heldur áfram að gefa lesendum góð bakstursráð. Ráðin hennar Ólafar munu nýtast þeim sem hafa gaman af því að baka, skreyta kökur og galdra fram eftirrétti. Nú styttist óðum í aðventuna og jólin og þá getur gott að vera vel undirbúinn. Nú er það listin að gera góða karamellu.
„Ef við ætlum að gera góða karamellu eða karamellusósu er mikilvægt að vanda til verka. Þegar við tölum um að brúna sykur í potti þá erum við að tala um að karamellusera. Það eru til tvær grunnaðferðir þegar karamellu skal gjöra. Önnur aðferðin er að gera svo kallaða þurra karamellu en þá setjum við sykur í pott og brúnum hann við lágan hita. Hin leiðin er að gera blauta karamellu en þar setjið þið sykur í pott ásamt smá vatni. Þessi leið gefur ykkur meiri tíma og leyfir ykkur að hafa betri stjórn á karamellunni. Þegar hella skal rjóma í karamelluna er mikilvægt að hafa hann heitan svo að karamellan harðni ekki,“ segir Ólöf.