Góð kartöflumús getur gert góða máltíð enn betri. Ástríðukokkurinn og leirlistakonan Hanna Thordarson er snillingur í eldhúsinu og á heiðurinn af þessari ómótstæðilega góðu kartöflumús sem sú sem þetta skrifar prófaði um helgina. Þetta er kartöflumús með parmesanosti og brenndu smjöri sem bráðnar í munni.
„Þetta er tvist af kartöflumúsinni hennar mömmu. Ég er búin að bæta parmesanosti við og helli síðan brenndu smjöri yfir. Skemmtileg tilbreyting að bjóða upp á þessa útgáfu sem á vel með nánast öllu, líka með hátíðarmatnum,“ segir Hanna með bros á vör.
Hægt er að fylgjast með því sem Hanna töfrar fram í eldhúsinu hér.
Kartöflumús með parmesanosti og brenndu smjöri
- 1 kg kartöflur
- 1–2 msk. smjör
- 2½ dl heit mjólk (upp að suðu)
- Salt og hvítur pipar eftir smekk
- Smá mulið múskat
- 1–2 dl parmesanostur, rifinn fínt
- Brennt smjör, sjá uppskrift að neðan
Aðferð:
- Setjið kartöflurnar í kalt vatn og saltið aðeins og sjóðið, þegar suðan er komin upp, lækkið þá hitann og sjóðið í u.þ.b. 20 mínútur.
- Þið megið flysja karöflurnar áður en þið sjóðið þær eða strax eftir suðu.
- Hitið mjólk í potti, til að spara uppþvott er gott að nota pott sem hægt er að nota fyrir kartöflumúsina í lokin.
- Pressið kartöflurnar heitar.
- Bætið smjöri út í pottinn og hrærið saman við.
- Bætið síðan við heitri mjólkinni ásamt rifna parmesanostinum og hrærið saman. Best er að nota hrærivél. Passið að hræra ekki of lengi.
- Kryddið eftir smekk.
- Hönnu finnst ágætt að setja kartöflumúsina í lokin í pottinn, sem mjólkin var hituð í, og velgja hana á lágum hita.
- Gerið síðan brennda smjörið, sjá uppskrift að neðan.
Brennt smjör
- 30 g smjör
- 1–2 skarlottulaukar, fínt skornir
- ½–1 msk. kapers, smátt saxaðir
Aðferð:
- Bræðið smjör í potti ásamt lauk og kapers.
- Það er ágætt að láta smjörið malla á meðalhita í rólegheitum.
- Þegar farið er að krauma í því og froða myndast ætti að fara að koma brúnn litur í botninn.
- Þegar laukurinn er orðinn vel brúnn er gott að slökkva á hitanum.
- Rétt áður en kartöflumúsin er borin fram er ágætt að skerpa á hvoru tveggja.
- Setjið kartöflumúsina á fat og hellið síðan brennda smjörinu yfir.