Steikarloka með karamelluseruðum lauk að hætti Andreu

Steikarlokuna ber Andrea fram með frönskum kartöflum.
Steikarlokuna ber Andrea fram með frönskum kartöflum. Ljósmynd/Andrea Gunnars

Þessar girnilegu steikarlokur koma úr smiðju Andreu Gunnars matarbloggara og eru syndsamlegar að horfa á. Á steikarlokunum er hún með karamelluseraðan lauk og bernaise sósu sem bráðna í munni. Það verður enginn steikaraðdáandi svikinn af þessum lokum og hver og einn getur valið hversu mikið magn er að hverju er sett með og valið sinn uppáhaldsost ofan á lokuna. Hér er það einfaldleikinn sem ræður för.

Steikarloka með karamelluseruðum lauk

Fyrir 2

  • 350 g nautakjöt, kryddað og eldað eftir smekk
  • baguette, skorið í tvennt og þversum, vert að taka endana af
  • rifinn ostur eftir smekk
  • 2 laukar, skornir í þunnar sneiðar
  • 1 msk. smjör
  • ½ msk.  ólífuolía
  • 1 msk. púðursykur
  • salt og pipar eftir smekk
  • 4 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • 150 g sveppir, sneiddir
  • bernaise sósa eftir smekk

Aðferð:

  1. Bræðið smjör og ólífuolíu á mjög vægum hita á pönnu.
  2. Bætið lauk á pönnuna og saltið hann eftir smekk.
  3. Látið laukinn malla á pönnunni í klukkutíma en hrærið í honum á 10 mínútna fresti.
  4. Þegar klukkutími er liðinn er púðursykur og pipar sett á pönnuna og blandað vel saman við laukinn.
  5. Látið malla í 15 mínútur til viðbótar og hrærið þá hvítlauk saman við.
  6. Takið laukinn af pönnunni og setjið til hliðar.
  7. Bætið smá ólífuolíu á pönnuna og steikið sveppina.
  8. Smyrjið neðri hlutann af baguette brauðunum með karamelluseruðum lauk og raðið sveppum yfir.
  9. Setjið rifinn ost yfir eftir smekk og látið bráðna yfir.
  10. Bakið við 200° þar til osturinn er bráðnaður og kominn með fallegan lit.
  11. Raðið nautakjöti og bernaise sósu eftir smekk yfir brauðin og endið á að mylja ógrynni af svörtum pipar yfir.
  12. Berið fram með frönskum kartöflum og meiri bernaise sósu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert