Alma D. Möller landlæknir sviptir hulunni af ástríðu sinni fyrir mat. Einnig segir hún frá matarvenjum sínum sem eru í nokkuð föstum skorðum. Hún er mikill matgæðingur og þykir franskur matur bestur. Einnig er hún iðin við að heimsækja Michelin-stjörnu veitingastaði úti í heimi og kann svo sannarlega að njóta þegar matur er annars vegar.
Alma er svæfinga- og gjörgæslulæknir en ákvað að læra einnig lýðheilsufræði. „Liðir í aukinni lýðheilsu eru heilsusamlegir lifnaðarhættir eins og að borða hollt, hreyfa sig reglulega, sofa vel, hlúa að andlegri heilsu og forðast áfengi og tóbak,“ segir Alma.
Gaman er að upplýsa lesendur um það að Alma var fyrsta konan til að verða læknir á þyrlu Landhelgisgæslunnar og fyrst kvenna til að verða Landlæknir árið 2018 í þá 258 ára sögu þess embættis. Það eru kannski ekki allir sem vita það. Nú hefur Alma stigið inn á nýtt svið og er í framboði til Alþingis og er oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.
Þrátt fyrir miklar annir hugsar Alma ávallt vel um heilsuna og hugar vel að matarvenjum sínum og hvetur aðra til þess að gera það sama.
„Ég vil hvetja fólk til að taka sér tíma í eldamennsku og að sameinast við matarborðið, sérstaklega þau sem eiga börn, þetta eru ómetanlegar samverustundir. Við ættum að leggja áherslu á hollan og fjölbreyttan mat sem er ríkur af næringarefnum frá náttúrunnar hendi, svo sem grænmeti, ávexti, gróft kornmeti, baunir, jurtaolíu, fituminni mjólkurvörur, fisk, magurt kjöt og fleira. Svo þurfum við öll að taka D-vítamín. Munum samt að óhollt er hollt í hófi en ekki segja að ég hafi sagt það,“ segir Alma og hlær.
Alma ljóstrar hér upp matarvenjum sínum og segir frá matarástríðu sinni sem hefur ávallt blundað í henni.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég legg alúð við morgunmatinn og er dugleg að breyta til, borða alls ekki alltaf það sama. Algengur morgunmatur eru egg í ýmsum búningum, hrærð, soðin, í eggjaköku og spari t.d. Egg Benedikt eða aðrar útfærslur til að mynda með spínati eða laxi. Einn af uppáhaldseggjaréttunum er shakshuka, það er svo gott að gera rétti sem stuðla að því að maður borði líka grænmeti í morgunmat. Einnig hafragrautur með alls kyns út á, t.d. berjum og hnetum og þessa dagana oft AB-mjólk með ávöxtum og heimagerðu múslí. Svo er auðvitað gott kaffi ómissandi.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég borða ekki oft á milli mála því ég borða bæði staðgóðan morgunmat og hádegismat. Það væru þá helst ávextir en auðvitað slæðast kökubitar með.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Já, ég sleppi eiginlega aldrei úr máltíð. Ég borða morgunmat mjög snemma og því er ég orðin svöng svona um klukkan 11.30. Ég er í góðu mötuneyti á virkum dögum og hleð grænmeti á diskinn, set svo fisk eða kjöt sem meðlæti, stilli reyndar kjötneyslu í hóf. Ég ákvað að borða fyrst og fremst kjöt af dýrum sem hafa lifað góðu lífi sem er þá íslenskt lambakjöt og svo hreindýrakjöt og aðra villibráð sem maðurinn minn, tengdasonur og sonur veiða. Annars skemmdi félagi minn, Páll Matthíasson geðlæknir, þetta svolítið fyrir mér þegar hann sagði að það væri ljótt að veiða dýr sem væru að lifa hamingjuríku lífi.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Haframjólk sem mér finnst mér best út í kaffið og á grautinn. Egg, AB-mjólk og ávexti.“
Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?
„Við erum með kolagrill með reykhólfi. Mér finnst æðislegt þegar eiginmaðurinn grillar nautakjöt sem ég borða reyndar sjaldan og hefur smá reyk. Líka grillað grænmeti, eins og papriku, kúrbít og eggaldin. Góð sósa er svo bernaise frá grunni eða viskýsósa og þá má dreypa nokkrum dropum af viskíi út á steikina fyrir þau sem vilja.“
Hvað viltu á pítsuna þína?
„Ananas, pepperóní, sveppir, ananas, ólífur og aftur ananas. Svo er líka hvít pítsa með geitaosti, kartöflum, pekanhnetum og trufflum í uppáhaldi.“
Færð þú þér pylsu með öllu?
„Já, stundum á ferðum um landið. Mér finnst æðislegt að fá pylsu með tómatsósu, sinnepi, remúlaði og steiktum lauk.“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Mér finnst franskur matur bestur og eiginlega sama hvert maður fer út að borða í Frakklandi. Dóttir mín var í námsdvöl í Orleans, við hjóluðum út í sveit og fengum borð á útiveitingastað þar sem fólkið úr sveitinni kom í sunnudagsmat. Þar var borinn fram fimm rétta, einfaldur matur, það var ógleymanleg upplifun. Næst bestur finnst mér miðausturlenskur matur og svo kannski ítalskur.“
Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja, sem er á „bucket-listanum-listanum“?
„Já, ég hef átt marga og heimsótt suma. Nú eru það Noma og Geranium í Kaupmannahöfn en það gengur hægt að fá borð; einnig Koks í Færeyjum.“
Uppáhaldskokkurinn þinn?
„Maðurinn minn, Torfi Fjalar Jónasson hjartalæknir.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Ískalt og tært vatn úr læk á hálendi Íslands.“
Ertu góður kokkur?
„Já.“