Boðið var upp á glæsilega matarveislu í franska sendiráðsbústaðnum hjá sendiherra Frakklands, Guillaume Bazard, á dögunum. Veislan var haldin í tilefni þess að franski Michelin-stjörnukokkurinnn Thomas Koebel frá Strassborg kom hingað til lands að kynna hefðbundinn mat frá héraðinu sínu Alsace.
„Mig hefur langað til að verða kokkur alveg síðan að ég var lítill krakki,” segir Thomas þegar hann er spurður um hvenær ástríða hans á matargerð hófst. „Pabbi minn eldaði mjög oft heima og ég horfði á hann elda og hjálpaði honum svo við eldamennskuna.
Ég hóf feril minn hjá mörgum mismunandi veitingastöðum í Alsace-héraði og komst þannig í kynni við margt fólk, sköpunargleðina og vinnusemina.
Eftir nokkur ár hlotnaðist mér tækifæri að taka við staðnum Le Relais de la Poste sem er fallegt hótel og veitingastaður í útjaðri Strassborgar. Eftir nokkur ár af ómældri vinnu, fengum við Michelin-stjörnuna árið 2023. “
Thomas er með húðflúr af Michelin-stjörnunni á framhandleggnum sínum og segir hlæjandi: „Ég lét húðflúra allan handlegginn fyrir mörgum árum en skildi eftir pláss hér fremst fyrir Michelin-stjörnuna. Hún var markmiðið.”
Aðspurður um hefðbundna rétti frá Alsace-héraði sem liggur til austurs í Frakklandi nálægt Þýskalandi segir hann að frægustu réttirnir þaðan séu eflaust Choucroute, sem er heitt súrkál með ýmiss konar kjötmeti, Tarte flambée eða flammkuche sem er þunn baka með sýrðum rjóma og beikoni, kouglof sem er eins konar krydduð kaka, og baekaoffe sem er kássa gerð úr kjöti og rótargrænmeti soðnu upp úr hvítvíni.
„Allt eru þetta frægir hefðbundnir réttir með mikla sérstöðu,” segir Thomas.
„Ég mæli með því að ferðast til Alsace. Héraðið er einstaklega ríkt af menningararfi og matarmenningu. Það er svo margt fallegt að sjá þar. Ég mæli með að sjá höllina í Haut Koeningsbourg, dómkirkjuna í Strassborg og jólamarkaðinn dásamlega í Strassborg. Svo er hægt að fara í frábærar gönguferðir, til dæmis frægu vínleiðina eða Route des vins, Kaysesberg, Colmar og auðvitað að kynna sér matarhefðir hins hefðbundna Winstub sem er vínstofa á Alsace-máli,“ segir Thomas með bros á vör.
Thomas er mjög ánægður að koma til Íslands en þetta er í fyrsta sinn sem hann kemur hingað. Hann hefur fylgst grannt með norræni matargerð undanfarin ár.
„Matargerðin í Reykjavík hefur komið mér skemmtilega á óvart. Hefðbundnir réttir eru mjög bragðmiklir og sjávarfangið er stórkostlega ferskt. Ég var mjög hrifinn af því hvað það er mikið af mismunandi veitingastöðum í Reykjavík.“
Þegar hann er spurður hvort markmið hans sé að ná í fleiri Michelin-stjörnur fyrir staðinn sinn segist hann bara vilja halda í þessa fyrstu stjörnu sem sé heilmikil vinna. „Það er alveg nóg að vera með eina stjörnu og passa upp á að halda henni. Ég þarf líka að eiga tíma með fjölskyldunni minni,” segir hann og brosir.
Að lokum var Thomas beðinn um að deila klassísku kartöflusalati frá Alsace sem gestir sendiráðsins fengu að smakka í veislunni í sendiráðsbústaðnum franska á dögunum og sló í gegn. Salatið kallast Grümbersalat og Thomas var til í að deila uppskriftinni með lesendum Matarvefsins.
Vert er að nefna að Melfor edik er ekki fáanlegt hér á landi en um er að ræða sérstakt edik frá Alsace með hunangskeim. Í staðinn er hægt að nota eplaedik eða hvítvínsedik.
Grümbersalat
Aðferð: