Grétar Matthíasson, margfaldur Íslandsmeistari í kokteilagerð. sigraði í alþjóðlegri kokteilakeppni sem haldin var á dögunum í stærsta spilavíti Evrópu, City of Dream í Limassol á Kýpur.
Í keppninni, sem stóð yfir síðustu helgi, mættu saman fremstu barþjónar heims sem hafa sigrað landskeppnir eða sigrað í alþjóðlegum keppnum um allan heim. Grétar hefur áður náð fimmta sæti á heimsmeistaramóti í klassískum kokteilum. Hann hefur sýnt einstaka hæfileika í að blanda saman brögðum og skapa einstakan drykk í þeim keppnum sem hann hefur tekið þátt í.
Með sínum nýstárlega kokteili, „Butterfly effect“, sem inniheldur Loka vodka, diamante tequila, yuzu, lychee og kaffi lime, náði Grétar að sannfæra dómnefndina og aðra gesti um að hann væri verðugur sigursins.
„Þetta er ótrúlegur áfangi á mínum ferli,“ segir Grétar og bætir við: „Ég er mjög stoltur af því að hafa fengið tækifæri til að keppa á svona stigi og að fá að bera fána Íslands hátt.“
Sigur Grétars er stór áfangi fyrir íslenska barþjónabransann og sýnir að íslenskir barþjónar eru meðal fremstu í heiminum.
Grétar Matthíasson er einn af þekktustu barþjónum Íslands og góð fyrirmynd fyrir aðra. Hann hefur árum saman verið í fararbroddi í íslenskri kokteilagerð. Hann hefur unnið fjölmörg verðlaun, þar á meðal Íslandsmeistaratitilinn í kokteilagerð þrisvar sinnum, tvisvar sinnum unnið sinn flokk á Heimsmeistaramóti barþjóna og endaði til að mynda í fimmta sæti á Heimsmeistaramótinu sem fram fór í Madeira í Portúgal í byrjun nóvember síðastliðnum.