Epli og kanill er góð jólablanda og hefur ávallt verið í miklu uppáhaldi hjá Valgerði Grétu Gröndal sælkera og matarbloggara, alla jafna kölluð Valla. Hún deildi á dögunum með fylgjendum sínum á Instagram hugmynd af þessari jólalegu eplaböku sem sló í gegn á hennar heimili sem vel er hægt að mæla með.
„Allra handa eplakökur eru fljótar að rjúka út á mínu heimili og þessi er engin undantekning. Þrátt fyrir að vera formkaka er hún dúnmjúk og kryddbragðið passar fullkomlega með eplunum. Það er nefnilega eplasafinn sem á stóran þátt í að gera hana mjúka og djúsí og gefur auðvitað ennþá betra eplabragð,“ segir Valla um eplakökuna sína sem hún tileinkar jólunum.
Jólaleg eplabaka
- 2 græn epli, í minni kantinum
- 250 g hveiti
- 1 ½ tsk. lyftiduft
- ½ tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 4 tsk. kanill
- 1 tsk. malað engifer
- ½ tsk. negull
- ¼ tsk. allrahanda (má sleppa)
- ¼ tsk. múskat
- 160 ml. jurtaolía
- 200 g púðursykur
- 3 tsk. vanilludropar
- 2 stk. egg við stofuhita
- 60 ml. eplasafi frá Beutelsbacher
- 60 ml. grísk jógúrt
Aðferð:
- Byrjið á því að hita ofninn í 175°C blástur. Smyrjið kringlótt formkökuform mjög vel að innan og dustið hveiti yfir.
- Afhýðið eplin og rífið á rifjárni, setjið til hliðar.
- Setjið öll þurrefnin saman í skál, blandið þeim saman með písk eða gaffli og setjið til hliðar.
- Þeytið saman egg og sykur með k-áinu á hrærivélinni, bætið þá út í olíunni, vanilludropunum og grísku jógúrtinni og hrærið saman við.
- Setjið þá helminginn af þurrefnunum út í og hrærið á rólegum hraða. Þá hellið þið eplasafanum saman við og klárið að hella þurrefnunum út í.
- Munið að skafa niður á milli.
- Hrærið aðeins áfram þar til deigið er samlagað.
- Setjið þá eplin saman við með sleikju og setjið deigið í formið.
- Bakið í 35-40 mínútur.
- Kakan er tilbúin þegar prjóni sem stungið er í hana kemur hreinn upp.
- Berið fram á fallegan og jólalegan hátt. Upplagt er sáldrað aðeins af flórsykri yfir kökuna ef þið viljið hafa hana jólalegri en það má sleppa því.