Berglind Hreiðars hjá Gotterí og gersemar fór á kostum um helgina þegar hún útbjó og setti saman þetta dýrðlega súkkulaðijólatré. Eftir að hafa horft á handbragð hennar virkar þetta sáraeinfalt. Nú er bara að prófa.
„Ég sá þessa hugmynd á Instagram um daginn og gat ekki hætt að hugsa um hana fyrr en ég væri búin að prófa því mér fannst þetta svo sniðug hugmynd,“ segir Berglind.
Sjáið handbragðið hér á Instagram.
Súkkulaðijólatré
- 300 g dökkt súkkulaði
- 80 g möndlur
- 80 g pistasíur
- 40 g pekanhnetur
- 40 g trönuber
- 40 g heslihnetur
- 40 g lakkrísflögur
Aðferð:
- Saxið hnetur og möndlur gróft niður og blandið í skál ásamt trönuberjunum.
- Bræðið súkkulaði og teiknið 8 hringi á bökunarpappír, minnsti um 3 cm í þvermál og svo stækka um ½-1 cm hvern eftir það.
- Smyrjið næst vænu súkkulaðilagi inn í hvern hring, skiljið eftir c.a ½ cm allan hringinn því súkkulaðið flest betur út þegar þið setjið hnetublönduna yfir.
- Dreifið næst vel af hnetublöndu yfir hvern súkkulaðihring og að lokum lakkrísflögum.
- Kælið/frystið þar til storknað og raðið síðan saman með því að setja smá brætt súkkulaði á milli hringja.
- Skreytið með því að sigta smá flórsykur yfir allt saman (má sleppa).
- Berið fram og njótið – eða skreytið með þessari dýrð.