Berglind Guðmunds lífskúnstner er þekkt fyrir að vera mikill gleðigjafi og leggja sitt af mörkum til að öðrum líði vel. Hún er líka fagurkeri og hennar bestu stundir eru í eldhúsinu með sínu besta fólki.
Hún starfar sem hjúkrunarfræðingur, fararstjóri og er nú komin í framboð en hún er frambjóðandi Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Áhugasvið hennar er vítt en hún hefur meðal annars áhuga á ferðalögum, andlegri líðan og öllu því sem eykur gæði og gleði lífsins. Hún heldur úti Instagramsíðunni sem ber heitið lífsgleðin sem lýsir henni vel.
„Ég vil minna mig, og þá um leið aðra á að hægja á, njóta litlu hlutanna, láta gott af sér leiða og finna þakklætið,“ segir Berglind og brosir sínu geislandi brosi.
„Þar sem nú styttist óðfluga í kosningar vil ég hvetja fólk til að mæta á kjörstað á laugardag og kjósa. Reyna að hafa daginn sem huggulegastan, skella sér í sitt fínasta púss og eiga góða stund með fólkinu sínu.“
Þrátt fyrir miklar annir þessa dagana, þar sem hún er á kafi í miðri kosningabaráttu, ljóstrar hún upp fyrir lesendum Matarvefsins hvað henni finnst vera ómissandi að eiga í eldhúsinu.
Hvað finnst þér ómissandi að eiga í eldhúsinu?
„Staðalbúnaður í eldhúsinu er ólífuolía frá Olifa, sjávarsalt frá Saltverk, ilmkerti og þá sérstaklega Stormur frá Urð. Áfengislaust rauðvín frá Oddbird. Já og ég verð að nefna desilítramál, mjög mikilvægt. Ég var án þess í nokkrar vikur og baksturinn fór í rugl. Svo elska ég öll tæki sem létta mér lífið, og í eldhúsinu er það uppþvottavélin. Ef hún bilar þá fer allt á hliðina.“
Áttu þér uppáhaldsglasalínu?
„Ég er voðalega hrifin af iittala glösunum og hef verið að eignast þau smám saman. Ég á nokkur rauðvíns- og bjórglös frá þeim og langar að eignast kampavínsglösin. Þó ég drekki ekki áfengi þá er mér samt umhugað að fá drykkina mína í fallegum glösum.“
Hvað finnst þér vera heitasta trendið í eldhúsið núna?
„Heitasta trendið á þessum árstíma er að mínu mati alltaf huggulegheit. Kósí samverustundir með fólkinu okkar, matar eða baksturslykt, kertaljós og kærleikur. Með hverju árinu sem líður er ég alltaf meira og meira meðvituð um það hvað skiptir mestu máli í lífinu og samverustundirnar eru dýrmætar.“
Hvaða litur er að koma sterkur inn að þínu mati?
„Appelsínugulur er að koma mjög sterkur inn þessa dagana og það gleður.“
Uppáhaldshnífasettið?
„Global hnífarnir hennar mömmu. Þeir eru geggjaðir.“
Plast- eða viðarbretti?
„Viðarbretti eru miklu meira kósí og falleg, en á sama tíma elska ég samt allt sem ég get sett í uppþvottavélina.“
Ertu með kaffivél í eldhúsinu?
„Já, ég á dásamlega Nespresso vél og við byrjum alla morgna saman.“
Áttu þér þinn uppáhaldskaffibolla?
„Besta kaffið fæ ég á Ítalíu. Það er sama hvar á Ítalíu ég er þá er alltaf hægt að treysta því að kaffið sé upp á tíu. Þar elska ég að byrja daginn á hverfisstað og fæ mér einn rótsterkan espresso og sætmeti með eins og cornetto með vanillukremi. Ég sakna svo sannarlega Ítalíu minnar.“
Breytir þú eldhúsinu eftir árstíðum, hvað varðar liti og annað slíkt?
„Ég breytti eldhúsinu mínu fyrir einhverjum árum síðan og er bara hæstánægð með það. Ég er rosalega lítil skreytingarkona, meira svona Gyða Sól, en umkringd dásamlega hæfileikaríku fólki sem pikkar í mig og aðstoðar þegar það er kominn tími á breytingar.“
Uppáhaldsstaðurinn í eldhúsinu?
„Eldhúsið allt en þar eru oftast bestu stundirnar. Uppáhaldið mitt er þegar börnin mín fjögur og tengdadóttir eru í mat og eru að hlæja og eiga góðan stund á meðan ég er að sinna eldamennskunni. Það eru svona stundir þar sem ég fæ gott í hjartað.“
Áttu þér draumaeldavél?
„Ég er með geggjaða gaseldavél og vel alltaf gas fram yfir annað.“
Ertu með kerti í eldhúsinu?
„Já, ég elska kertaljós og aðallega ilmkerti. Ég er með ilmkertablæti á háu stigi og elska að fá góða lykt á heimilið.
Finnst þér skipta máli að leggja fallega á borð?
„Já, það skiptir 100% máli upp á upplifunina og hversu vel maður nýtur matarins og ég elska að vera í kringum fólk sem er þannig. En yfirleitt þá brussa ég öllu á borðið í flýti. Er samt að æfa mig í núvitundinni og gera hluti hægt og vel, það má segja að það sé enn rými til bætingar. En yfir hátíðir og á tyllidögum legg ég metnað og alúð í borðskreytingar og þannig dúllerí.“
Hvað dreymir þig um að eignast í eldhúsið?
„Mann til að elda fyrir mig, smá grín en samt eiginlega bara alls ekki.“
Áttu grill?
„Já, ég á Weber ferðagrill sem er fínt á litlu svölunum mínum og gott til síns brúks.“