Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og oddviti fyrir Flokk fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður ljóstrar upp skemmtilegum staðreyndum um matarvenjur sínar. Hann veit fátt betra en að dunda sér í eldhúsinu og sér ávallt um matinn á heimilinu.
Ragnar er 51 árs gamall, fimm barna faðir og það hlutverk er í forgrunni. Fyrir utan áhugamálin í eldhúsinu spilar hann í hljómsveitum og stundar hreyfingu og útivist.
„Ég er að vinna að útgáfu hljómplötu og var nýlega að skrá mig í þríþraut og fylgja konunni minni, Guðbjörgu Ingunni Magnúsdóttur, í þeirri vegferð. Þar stefni ég á að spreyta mig á fyrsta hálfa járnkarlinum næsta haust. Ég lifi fyrir fjölskyldu og vini og veit fátt betra en samverustundir með þeim. Elstu strákarnir okkar eru forfallnir af bíladellu og þykist ég vera orðinn nokkuð liðtækur í bílaviðgerðum. Svo er ég danspabbi líka en yngsta dóttir okkar er á fullu í samkvæmisdönsum. Ég elska föðurhlutverkið,“ segir Ragnar meyr.
Matarástríðan er til staðar hjá Ragnari og eldhúsið er staðurinn sem hann nýtur þess að slaka á. „Ég sé alltaf um matinn á heimilinu. Ítalskur matur er í sérstöku uppáhaldi. Ég veit fátt betra og meira slakandi en að dunda mér í eldhúsinu, hlusta á tónlist, og undirbúa kvöldmat eða matarboð með góðum vinum og fjölskyldu. Næstelsti sonur okkar smitaðist af þessari ástríðu fyrir eldhúsinu og erum við nú oftast tveir að dunda okkur í matargerð. Hann tekur svo alveg yfir ef ég er að vinna fram eftir eða á kvöldin. Mér finnst alveg jafn slakandi að fara í búð og versla, tek mér oft góðan tíma í að fara búðina og ganga fram og til baka, þvera og endilanga, eins óskipulega og hugsast getur. Veit ekki af hverju en þessu fylgir einhver óskiljanleg ró að vera í eldhúsinu við matargerð eða þrif eða vera innan um fólk sem er að versla,“ segir Ragnar og brosir.
Ragnar gaf sér tíma til að svara nokkrum spurningum um matarvenjur þrátt fyrir miklar annir í kosningabaráttunni en kjördagur nálgast óðfluga. Einungis þrír dagar eru til kosninga.
Hvað færðu þér í morgunmat?
„Ég fæ mér yfirleitt aldrei morgunmat en sjóðandi heitt svart kaffi er ómissandi á hverjum morgni.“
Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?
„Ég borða ekki á milli mála. Spara mig fyrir kvöldmatinn.“
Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?
„Já, ég er svo heppinn að vera á vinnustað með frábært mötuneyti, hollt og alltaf gott. Um helgar erum við fjölskyldan ávallt með hádegisbröns, annan daginn.“
Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?
„Ost, egg, ávexti og smjör.“
Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?
„Það mun vera lambið.“
Hvað viltu á pítsuna þína?
„Pepperóní, sveppi og rjómaost. Eða bara hvað sem er.“
Færð þú þér pylsu með öllu?
„Já, heldur betur!“
Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á, hvert ferðu?
„Við förum ekki oft út að borða en þá er uppáhaldsstaðurinn okkar Bombay Basar.“
Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja, sem er á „bucket-listanum“?
„Nei, enginn sem ég man eftir, við reynum yfirleitt að finna óvenjulega og litla staði þegar við förum erlendis.“
Uppáhaldskokkurinn þinn?
„Daníel Dúi, sonur minn.“
Uppáhaldsdrykkurinn þinn?
„Ísköld kók í dós.“
Ertu góður kokkur?
„Af fjölskyldunni að dæma er ég ekki sá versti. Þegar börnin hringja daglega til að spyrja mig hvað sé í matinn í kvöld, í stað þess að láta vita að þau borði ekki, er nægilegur mælikvarði fyrir mig.“