Það styttist óðum í þakkargjörðina en hún er á morgun, fimmtudaginn 28. nóvember. Á einhverjum heimilum hér á landi verður boðið upp á kalkún og meðlæti í tilefni hennar.
Margir kjósa að bjóða upp á sætkartöflumús með kalkúninum og til eru margar útgáfur af henni. Þessi uppskrift að sætkartöflumús passar sérstaklega vel með kalkúninum en hún er með salvíu, pekanhnetum og sítrónu. Salvían er ótrúlega góð með kalkúnakjöti og líka í sósugerð.
Vel er hægt að mæla með þessari uppskrift en teymið hjá Hátækni, sem er með VAXA grænmetið og spretturnar, á heiðurinn af þessari ljúffengu sætkartöflumús. Salvía gerir svo gott bragð. Upplagt er að geyma stilkana af salvíunni sem notuð er í matargerðina til að bragðbæta soð eða sósur. Allt af jurtinni geymir bragð og því er óþarfi að henda stilkunum.
Sætkartöflumús með salvíu og pekanhnetum
Fyrir 8-10
1,2 kg sætar kartöflur
250 g smjör
Safi og börkur úr einni sítrónu
Salt eftir smekk
1 pk. VAXA salvía,
100 g pekanhnetur
Hunang eftir smekk
Aðferð:
Stillið ofninn á 190°C hita með blæstri.
Bakið kartöflurnar með hýði þangað til þær eru orðnar alveg mjúkar.
Dragið hýðið af á meðan kartöflurnar eru heitar.
Hýðið ætti að renna auðveldlega af þeim. Gott er að nota viskastykki til verksins svo þið brennið ykkur ekki.
Setjið kartöflurnar í pott og hrærið harkalega og mikið, þangað til þær eru orðnar maukaðar. Einnig er hægt að setja þær í hrærivél eða blandara og mauka þær á sama máta.
Hrærið sítrónusafa, sítrónuberki og smjöri út í og smakkið til með salti.
Saxið salvíulaufin smátt og hrærið út í músina. Geymið nokkur lauf til skreytingar.
Blandið pekanhnetunum við 1-2 matskeiðar af hunangi.
Setjið þær svo á bökunarplötu klædda bökunarpappír og bakið þær við 150°C hita í 10 til 15 mínútur.
Leyfið hnetunum að kólna og dreifið þeim söxuðum eða heilum yfir músina auk nokkurra salvíulaufa til skrauts áður en þið berið músina fram.