Það er hefð á mörgum heimilum að útbúa ís fyrir jólin. Margir halda sig við sömu uppskriftina sem hefur gengið í erfðir kynslóðanna á milli en aðrir vilja prófa eitthvað nýtt á hverju ári.
Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla, er ein þeirra sem tilheyrir síðari hópnum en henni finnst gaman að prófa nýjar uppskriftir og hefur sjaldnast það sama í jólamatinn.
„Mér finnst samt mikilvægt að eftirrétturinn henti öllum á heimilinu og þessi ís er tilvalinn fyrir alla fjölskylduna. Hann er ótrúlega léttur í sér og piparkökurnar og hvítt súkkulaðið passar sérstaklega vel saman. Aðferðin við ísgerðina gerir það að verkum að hann er eins léttur í sér og raun ber vitni. Ég nota nefnilega eggjahvíturnar líka en ég stífþeyti þær og blanda þeim svo varlega saman við ísblönduna,“ segir Valla sem er komin í jólaskap.
Hátíðarís með hvítu súkkulaði og piparkökum
- 3 egg, aðskilin
- 50 g sykur
- 100 g hvítt súkkulaði
- 300 g rjómi
- 150 g muldar piparkökur
Aðferð:
- Aðskiljið eggin, setjið rauðurnar í skál ásamt sykri. Setjið hvíturnar í aðra.
- Bræðið hvíta súkkulaðið í vatnsbaði.
- Takið af hitanum um leið og það er bráðið og látið mesta hitann rjúka úr.
- Hvítt súkkulaði bráðnar við vægan hita svo varist sé að hafa of heitt undir.
- Þeytið eggin og rauðurnar mjög vel eða þar til mjög létt og ljóst.
- Stífþeytið þá rjómann í einni skál og þeytið hvíturnar í annarri þar til þær eru orðnar alveg stífar og hægt að hvolfa skálinni án þess að þær leki úr.
- Blandið hvíta súkkulaðinu við rauðurnar með sleikju.
- Blandið þá rjómanum saman við með sleikjunni.
- Blandið því næst þeyttu eggjahvítunum varlega saman við.
- Myljið piparkökurnar, ég setti þær í rennilásapoka og rúllaði yfir með kökukefli. Gott er að hafa stærri bita með.
- Blandið piparkökunum saman við að síðustu með sleikjunni. Setjið ísinn í litlar skálar eða eitt stórt form og frystið í að minnsta kosti 12 klukkustundir.