Yfirkokkurinn úti í Flatey er kominn til Nýju Mexíkó

Friðgeir Trausti Helgason matreiðlsumeistari býr í Nýju Mexíkó. Hér er …
Friðgeir Trausti Helgason matreiðlsumeistari býr í Nýju Mexíkó. Hér er hann með einum af sauðfjárbóndanum sem hann verslar við, Antonio Manzanares, fyrir litla konsept staðinn sinn Sólfood. Ljósmynd/Aðsend

Friðgeir Helgason matreiðslumeistari, alla jafna kallaður Geiri kokkur, býr í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum þar sem hann hefur heillað fólkið í kringum sig á svæðinu með matargerð sinni. Hann er þekktur fyrir sína töfrandi matargerð úti í Flatey í Breiðafirði en þar heillaði hann matargesti og eyjaskeggja með nýstárlegri og frumlegri matargerð þar sem hráefnið úr nærumhverfinu var í brennidepli.

Hann hefur átt litríkan og áhugaverðan feril í veitingabransanum og er enn að láta ljós sitt skína. Geiri hefur unnið á betri veitingastöðum og náð sér í þekkingu og reynslu á mörgum sviðum í matargerðinni.

„Ég lærði á sínum tíma í New Orleans og vann á bestu veitingastöðum þar í borg í um það bil 16 ár. Svo hef ég líka starfað sem einkakokkur í Kaliforníu og unnið á lúxusstöðum víða þar. Ég var líka yfirkokkur á Hótel Flatey í Breiðafirði í nokkur sumur,“ segir Geiri.

Kokkalífið úti í Flatey

Aðspurður segir Geiri að tímarnir úti í Flatey hafi verið einstakir. „Það var gífurlega gefandi að vinna úti í Flatey. Ég var með lítinn en góðan matseðil sem ég var stanslaust að uppfæra byggðan á því hráefni sem ég fékk ferskast á hverjum tíma. Maður stekkur ekki út í Bónus ef eitthvað hráefni kemur ekki með ferjunni Baldri út. Sjávarfang var að sjálfsögðu það besta sem völ var á beint úr sjónum í Breiðafirði. Ég var líka duglegur að safna bæði jurtum og þara sem ég notaði óspart í réttunum sem ég framreiddi.“

Geiri bjó í mörg ár í Los Angeles en aðstæður og atvinna eiginkonunnar, Lilju Pétursdóttur, réðu því að þau ákváðu að færa sig um set og flytja búferlum. „Konan mín var búin að vinna við kvikmyndagerð í Nýju Mexíkó í liðlega tvö ár þegar við ákváðum að kaupa hús hérna og flytja alfarið frá Los Angeles. Það er miklu ódýrara að búa hérna. Náttúran er stórkostleg og allt miklu rólegra en í stórborginni,“ segir Geiri og bætir við það hafi aukið lífsgæðin að taka þetta skref.

Friðgeir Trausti Helgason, alla jafna kallaður Geiri og eiginkonan hans …
Friðgeir Trausti Helgason, alla jafna kallaður Geiri og eiginkonan hans Lilja Pétursdóttir á heimili sínu í Nýju Mexíkó. Ljósmynd/Aðsend

Byrjaður heima með sitt eigið konsept

Geiri hefur undanfarin tvö ár starfað á einu virtasta veitingahúsi fylkisins í Nýju Mexíkó, Farm and Table. Hann ákvað síðan að breyta til og byrja með sitt eigið konsept.

„Fyrir stuttu vandi ég mínu kvæði í kross og byrjaði að starfa sjálfstætt undir merkjum Sólfood. Ég er með lítið smökkunarmatarboð fyrir tíu manna hópa heima hjá mér auk þess sem ég tek að mér matseld fyrir brúðkaupsveislur og aðrar tækifærisveislur, en þó aldrei fyrir fleiri en fjörutíu til fimmtíu manns.

Einn hópur af mörgum sem hefur komið heim til Geira …
Einn hópur af mörgum sem hefur komið heim til Geira að njóta matarupplifunnar Sólfood. Ljósmynd/Aðsend

Ég er hættur að nenna að þræla mér í áttatíu til níutíu tíma í viku og er einfaldlega orðinn of gamall til þess að vera að djöflast í eldhúsi á veitingastað. Nú hef ég mikið meiri tíma til þess að vera að þvælast um í náttúrunni og taka ljósmyndir sem er mikil ástríða hjá mér,“ segir Geiri glaður í bragði.

Hvernig myndir þú lýsa matargerð þinni?

„Maturinn sem ég geri er að sjálfsögðu speglun á þeirri persónu sem ég er og af reynslu minni af ólíkum stöðum þar sem ég hef starfað og búið á. Einnig elda ég mat sem mér finnst sjálfum gott að borða. Mér finnst til dæmis mjög gaman og gott að borða það sem er kallaður götumatur, aðallega taco. Síðan finnst mér líka skemmtilegt að borða á betri stöðum. En góður matur byggist að sjálfsögðu alltaf á hráefninu sem þú notar. Það ræður alltaf förinni. Síðan finnst mér líka mikilvægt að elda með ást og umhyggju, ástríðan verður að vera til staðar.

Ég byrjaði upprunalega að kokka af því að ég hafði virkilega gaman af því að elda góðan mat fyrir vini mína og halda matarboð. Nú er eiginlega hægt að segja að hringnum sé lokað, ég er búinn að prófa margt, ólíka hluti og safna í reynslubankann. Það sem ég er að gera með Sólfood er í raun það sem mér finnst skemmtilegast og rauði þráðurinn í minni matargerð. 

Á sama tíma og ég nýt mín í eldhúsinu heima slepp ég við allt það sem fylgir því að vera að þræla á veitingahúsum. Eins og stressið, áreitið sem því fylgir og er laus við langan og erfiðan vinnutíma,“ segir Geiri sem er mjög ánægður með þann stað sem hann er kominn á í dag.

Friðgeir Trausti velur aðeins hágæða hráefni í matargerðina. Hér er …
Friðgeir Trausti velur aðeins hágæða hráefni í matargerðina. Hér er hann að leggja lokahönd á framsetningu eins réttar fyrir matargesti sína ásamt Alice gestakokknum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Saknar sjávarfangsins frá Breiðafirði

Býr Nýja Mexíkó yfir góðu hráefni?

„Já, hráefnið hérna er að mestu leyti fyrsta flokks. Í gegnum vinnuna á Farm and Table kynntist ég mikið af góðum smábændum. Bæði þeim sem rækta grænmeti og kjötmeti. Ég fæ til að mynda að besta nautakjöt sem ég hef smakkað beint frá býli á sléttunni í norður Nýju Mexíkó.

Síðan er sauðabóndinn sem ég hef viðskipti við sá eini í Bandaríkjunum sem er með smala og lætur féð ganga laust í Klettafjöllunum norðarlega í fylkinu. Ég er líka kominn með góðan aðila sem sér um að útvega mér ferskan fisk, sem er ekki auðvelt hérna þar sem það eru yfir 3000 km í næsta haf. Ég get til dæmis fengið ferska íslenska þorskhnakka ef ég vil. 

En sjávarfangið hér verður aldrei eins gott og það sem er í boði í Breiðafirði,“ segir Geiri að lokum og viðurkennir að hann sakni oft hráefnisins sem hann hafði aðgang að út í Flatey.

Metnaðurinn er í fyrrirúmi.
Metnaðurinn er í fyrrirúmi. Ljósmynd/Aðsend
Djúpsteiktur kjúklingur borinn fram á vöfflum er réttur sem hefur …
Djúpsteiktur kjúklingur borinn fram á vöfflum er réttur sem hefur slegið í gegn hjá Geira. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert