Gyða Dröfn Víðisdóttir, alla jafna kölluð Gyða, vinnur sem þjónn á veitingastaðnum OTO við Hverfisgötu. Hún hefur starfað þar frá opnun staðarins og er ekkert á leiðinni að hætta. Eins og frægt er orðið hefur staðurinn fengið góða umsögn hjá stjörnukokknum Gordon Ramsay og er í miklu uppáhaldi hjá honum.
Gyða elskar að vera þjónn og sinnir starfinu af alúð. Á næstu dögum er hún að útskrifast sem framreiðslumaður en hún er einungis 21 árs gömul og er með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands. Hún er einnig með diplómu í hótel- og veitingastjórnun frá Cesar Ritz og HR.
„Ég elska að vera þjónn, það er mikil ástríða hjá mér fyrir þessu starfi. Það er svo margþætt og endalaust af atvinnumöguleikum út um allan heim. Þú getur farið ýmsar leiðir innan bransans, hvort sem það er kokteilaleiðin, vínþjónn eða jafnvel bryti,“ segir Gyða með bros á vör.
Hefur þú ávallt haft áhuga á því að starfa sem þjónn?
„Eiginlega ekki, ég vissi hreinlega ekki að þetta væri starfið sem myndi heilla mig upp úr skónum. Ég hef ávallt haft mikinn áhuga á þjónustu og sölumennsku og alltaf á þeim vettvangi á einn eða annan hátt. En ég byrjaði ekki sem þjónn á veitingastað fyrr en ég hóf störf á OTO í apríl fyrir tveimur árum. Ég fór beint í Háskólann í Reykjavík, eftir Verzló, að læra hótel- og veitingastjórnun. Þar kviknaði áhugi minn á veitingageiranum, þá sérstaklega á víni og framreiðslu.
Það var svo eiginlega fyrir tilviljun að ég endaði á veitingastað. Ég var beðin um að taka aukavakt á veitingastað niðri í bæ til að redda vinkonu minni. Ég endaði á því að vera ráðin á staðinn á þessum nýja veitingastað sem var verið að fara að opna sem var OTO,“ segir Gyða og hlær.
Á þessum tímapunkti hafði ég ekki stigið fæti inn á veitingastað, ekki nema sem gestur. Eftir þessa vakt hef ég ekki farið af gólfinu og mun ekki koma til með að gera það, að minnsta kosti ekki í bráð.“
Eftir að hún byrjaði á OTO tók hún þá ákvörðun að mennta sig sem framreiðslumaður og mun útskrifast núna í desember, síðan tekur hún sveinsprófið í janúar.
Hvað er það sem heillar þig mest við starfið?
„Það sem heillar mig mest við starfið er hvað þjónusta getur breytt upplifun matargesta. Ég elska sjálf góða þjónustu og fer mikið út að borða á hinum ýmsu stöðum. Það er skemmtilegt að upplifa eitthvað nýtt og reyna að gera hið sama fyrir aðra. Þjónustan sem við veitum á OTO er persónuleg og skemmtileg en á sama tíma fagleg. Að fá að vera partur af upplifun fólks er eitthvað sem ég elska. Ég lifi fyrir það að eiga fastagesti sem að knúsa mann eftir kvöldið. Fólk sem kemur og upplifir eitthvað nýtt og gjörsamlega fellur fyrir OTO,“ segir Gyða meyr.
Aðspurð segir Gyða það ekki endilega sköpun að þjónn sé faglærður. „Að mínu mati skiptir það ekki endilega máli fyrir gestinn. Ég þekki fullt af þjónum sem að eru frábærir í sínu starfi en eru ekki faglærðir. Samt er skynsamlegt ef maður ætlar að vinna við þetta til frambúðar að hafa menntunina sem er í raun ákveðin viðurkenning fyrir viðkomandi og atvinnurekandann. Síðan lærir maður líka mikið í náminu og kynnist nýjum hlutum sem dýpkar skilninginn á starfinu. Hvort sem það er í HR eða í Hótel- og matvælaskólanum.“
Hvernig myndir þú lýsa starfinu þínu á OTO?
„Starf mitt er mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Allt frá því að hjálpa til við að velja inn áhöld og borðbúnað á staðinn fyrir opnun hans, hanna óáfengar drykkjarparanir, hanna vínseðil, búa til Kombucha eða OTO limoncelloið. Það eru algjör forréttindi að sjá staðinn þróast áfram og fleiri verkefni bætast í reynslubankann.“
Jólin nálgast óðum og aðventan er gengin í garð. OTO er kominn í jólabúninginn og rómantísk hátíðarstemning svífur yfir.
„Við erum svo sannarlega komin í hátíðarskap og erum búin að skreyta staðinn. Jólaseðillinn er líka kominn í hús. Hann er klárlega eitthvað sem að allir þurfa að smakka. Hann inniheldur alls konar rétti sem eru bæði frumlegir og nýstárlegir eins og dádýrið, humarinn sem er framreiddur á skemmtilegan hátt og minn uppáhaldseftirréttur, Cioccolato al forno, svo eitthvað sé nefnt.“
Ertu mikið í kokteilagerð?
„Ég er lítið í kokteilagerð, að minnsta kosti í vinnunni en er klárlega sterkari í smökkunardeildinni,“ segir Gyða og hlær.
„Minn uppáhaldskokteill er annaðhvort Negroni eða Amaretto Sour. Ég útbjó smá jólatvist á Amaretto Sour með jólalegu ívafi og vert er að svipta uppskriftinni af. Þetta er mandarínu- og kanil Amaretto Sour, ég er búin að nefna kokteilinn og ber hann heitið Mandarínu- og möndludraumur.
Mandarínu- og möndludraumur
Aðferð:
Mandarínusíróp
Aðferð: