„Ég fæddist gráðug og svöng“

Margrét Ágústa Sigurðardóttir og framkvæmdastjóri Bændasamtakanna á heiðurinn af vikumatseðlinum …
Margrét Ágústa Sigurðardóttir og framkvæmdastjóri Bændasamtakanna á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Mar­grét Ágústa Sig­urðardótt­ir fram­kvæmda­stjóri Bænda­sam­tak­anna býður upp á vikumat­seðil­inn að þessu sinni. Mar­grét er mik­il mat­kona og elsk­ar fátt meira en mat. Eins og hún seg­ir sjálf snýst lífið hjá henni meira og minna um mat, bæði heima og í vinn­unni.

Hringdi linnu­laust í vinn­una til mömmu sinn­ar

„Ég fædd­ist svöng og gráðug. Dag­ar mín­ir lituðust og lit­ast enn af því hvað var í mat­inn. Ég var óþolandi krakki og byrjaði að tuða strax um morg­un­inn ef ég vissi að það væri eitt­hvað í mat­inn um kvöldið sem mér líkaði ekki,“ seg­ir Mar­grét og glott­ir.

„Þá hringdi ég linnu­laust í vinn­una henn­ar mömmu og það endaði meira að segja á því að hún þurfti fyrst allra að fá sér borðsíma því að það var orðið að hálfu starfi fyr­ir sam­starfs­fólk henn­ar að svara mér í sím­ann. Þá fór dag­ur­inn eft­ir skóla í það að reyna að snúa mömmu frá því að hafa eitt­hvað í mat­inn sem mér líkaði ekki. Ég náði lík­leg­ast ákveðnum lág­punkti þegar hún var á ráðstefnu í Nor­ræna hús­inu og hringdi í 03 og fékk núm­erið hjá hús­verði Nor­ræna húss­ins, ég var aðeins 7 ára göm­ul. Hann kom inn á fund­inn og kallaði nafn mömmu, sem lík­leg­ast hélt að eitt­hvað hræðilegt hefði gerst heima fyr­ir, en þá var ég bara á hinni lín­unni að reyna að fá hana frá því að hafa eitt­hvað sem mig langaði ekki í í mat­inn,“ seg­ir Mar­grét og skelli­hlær.

Kaup­ir ís­lenskt kjöt og græn­meti

„Ég er í dag mun meðvitaðri um heil­næmi mat­vara og fram­leiðslu­hátta þeirra. Þá er ég alin upp við tal um sýkla­lyfja­ónæmi og á seinni árum loks­ins byrjuð að gera mér grein fyr­ir því hvað það þýðir og þeirri ógn sem því fylg­ir. Íslensk mat­væli, hvort sem um ræðir kjöt eða græn­meti, eru þar í al­gjörri sér­stöðu enda eru sýkla­lyf bara notuð í lækn­is­fræðileg­um til­gangi hér á landi á bú­fénað en ekki í fyr­ir­byggj­andi eða vaxta­ber­andi til­gangi eins og víðast hvar ann­ars staðar úti í heimi. Bú­fénaður­inn skil­ar svo frá sér, þannig að það fer í jarðveg­inn, þar á meðal í græn­metið. Ég reyni því eft­ir fremsta megni að kaupa ís­lenskt kjöt og græn­meti.“

Mar­grét setti sam­an drauma­vikumat­seðil­inn sinn fyr­ir les­end­ur sem á vel við á aðvent­unni áður en all­ar jólakræs­ing­arn­ar verða born­ar fram.

Mánu­dag­ur – Heima­gerðar fiski­boll­ur

„Ég er alin upp við að það var alltaf fisk­ur á mánu­dög­um. Þess vegna fannst mér líka mánu­dag­ar ein­stak­lega leiðin­leg­ir. Ég er mjög kress­in á fisk­meti, væg­ast sagt ekki gikk­ur held­ur með eitt­hvað óþol sem eng­inn trú­ir að ég sé hins veg­ar með. Þess vegna var mamma alltaf með fiski­boll­ur fyr­ir mig til að koma ofan í mig fiski, meðan hinir í fjöl­skyld­unni fengu bara þann fisk sem var í boði. Amma mín gerði ávallt fiski­boll­ur og mér fannst þær alltaf best­ar með bræddu smjöri, tóm­atsósu og soðnum kart­öfl­um. Ég hef ekki lagt það í vana minn að gera mitt eigið hakk og kaupi yf­ir­leitt úti í fisk­búð en ef ég færi í það að gera hakkið sjálf þá væri ég til í að prófa eft­ir­far­andi upp­skrift.“

Þriðju­dag­ur – Ind­versk­ur lamba­pot­trétt­ur

„Á þriðju­dög­um var ávallt fínni mat­ur heima hjá mömmu og pabba því að það var dag­ur­inn sem var alltaf erfiður í vinn­unni hjá pabba. Mamma reyndi því að létta stemn­ing­una með því að hafa aðeins betri hvers­dags­mat. Mat­argatið sem ég var, og er, elskaði því þriðju­daga og þá var yf­ir­leitt und­an­tekn­ing­ar­laust eitt­hvað kjöt en ég get borðað kjöt á við fílefld­an sjó­ara. Ég er meira að segja orðin að sér mæliein­ingu: „Já, við erum fimm í mat og svo Magga.“ Ég hef reynt að halda í þá hefð að hafa fínni mat á þriðju­dög­um, svona eins og ég get. Mat­seðill­inn þess­ar vik­urn­ar ein­kenn­ist mikið af lamba­kjöti en ég er til­tölu­lega ný­bú­in að kaupa skrokk og fylla fryst­inn fyr­ir vet­ur­inn. Ég elska lamba­pot­trétti og þessi hér hef­ur verið í upp­á­haldi um langa hríð.“

Miðviku­dag­ur – Grjóna­graut­ur með kræki­berja­safti úr smiðju Húsó

„Miðviku­dag­ar eru yf­ir­leitt anna­sam­ir í heim­il­is­hald­inu, krakk­arn­ir á æf­ing­um og mikið um að sækja og skutla, síðan gefa upp í hest­húsi o.s.frv. Ég er því oft með eitt­hvað fljót­legt og ein­falt þá daga. Ný­lega hef ég verið að not­ast við þessa grjóna­grauts­upp­skrift að mestu en viður­kenni að ég hef aldrei gert kræki­berja­saftið. Ég kaupi oft slát­ur­kepp með en ólíkt mér þá elska krakk­arn­ir mín­ir að fá lifr­ar­pylsu með grjóna­grautn­um. Síðan geri ég oft ban­ana­brauð til að hafa með og þá með smjöri og osti.“

Fimmtu­dag­ur – Rjóma­lagað vodkap­asta

„Ég prófaði um dag­inn vod­ka-pasta­rétt­inn sem all­ir voru að tala um og hann hitti vel í mark hjá mínu fólki. Þetta er líka ein­stak­lega hent­ugt þar sem ég á alltaf til vod­ka, vand­ræðal­ega oft Tinda vod­ka, heima hjá mér en bið fólk nú ekki um að lesa of mikið í þá staðreynd. Ein­falt, fljót­legt og gott.“

Föstu­dag­ur – Kjúk­linga­rétt­ur með mangó-chut­ney

„Ég er alltaf að reyna að prófa mig eitt­hvað áfram með kjúk­linga­rétti þar sem ég enda of oft að gera það sama. Mangó-kjúk­linga­rétt­ir eru mjög vin­sæl­ir á mínu heim­ili, ekki síst hjá dótt­ur minni þar sem hún myndi helst vilja hafa mangó og kjúk­ling á borðum alla daga. Ég ætla að prófa þenn­an í vik­unni, sjálfsagt við mik­inn fögnuð. Ég reyni síðan að hafa ferskt sal­at með öll­um mat og myndi klár­lega bæta því við þarna sem meðlæti og keyptu til­búnu nan-brauði þar sem ég baka bara vand­ræði, án gríns.“

Föstu­dag­ur – Mar­okkósk­ar kjöt­boll­ur

„Ég elska kjöt­boll­ur. Allra helst elska ég kjöt­boll­urn­ar henn­ar mömmu í brúnni. Ég prófaði hins veg­ar þessa upp­skrift fyr­ir nokkr­um árum og hún er mjög reglu­lega á boðstól­un­um heima. Þær eru virki­lega góðar og mjög vin­sæl­ar hjá börn­un­um. Ég er sam­mála Tobbu Marínós um að þær slá þeim ít­ölsku við.“

Laug­ar­dag­ur – Tacos með hæg­elduðu svína­kjöti

„Mér finnst gam­an að hæg­elda mat og hef verið dug­leg að gera það kvöldið áður og hef þá kjötið í ofn­in­um á lág­um hita yfir all­an dag­inn. Áður fyrr var gert mikið grín að mér í vinn­unni þar sem ég skaust heim í há­deg­is­hlé­inu til að marín­era eða byrja að hæg­elda þetta eða hitt. Ég er oft með svína­kjöt á boðstól­un­um og er líka byrjuð að nota meira svína­hakk en ég gerði áður. Þessa upp­skrift ætla ég að prófa og ég efa ekki að hún slái í gegn.“

Sunnu­dag­ur – Lambaskank­ar í rauðvínssósu

„Ég er æ oft­ar að vinna með lambaskanka í elda­mennsk­unni. Hæg­eld­un­ar­árátt­an mín fær vænt­an­lega út­rás við þessa upp­skrift. Síðan get ég líka notað af­gang­ana dag­inn eft­ir og sett í vefj­ur, ég elska að geta nýtt af­ganga frá því deg­in­um áður og er far­in að líkj­ast mömmu minni óheyri­lega mikið hvað það varðar enda eru af­gang­ar upp­á­halds­mat­ur­inn henn­ar.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert