Það er sérlega jólalegt um að litast í fjórum verslunum Bónus þessa dagana þar sem sérstök jólastemning sem kallast Jólabónus er í gangi nú fyrir hátíðirnar. Aðspurður segir Björgvin Víkingsson framkvæmdastjóri Bónus að það sé einstök jólastemning í verslunum í Holtagörðum, Smáratorgi, Miðhrauni og Norðurtorgi á Akureyri auk þess að það sé meira vöruúrval en vanalega.
„Búðirnar eru mikið og fallega skreyttar og boðið er upp á allskonar uppákomur sem tengjast jólum eins og vörukynningar, hátíðlega drykki og ristaðar möndlur og jólasveina á vappi á ákveðnum tímum til að gera jólastemmninguna enn meiri,“ er haft eftir Björgvini Víkingssyni framkvæmdastjóra Bónus í tilkynningu.
„Jólabónus er hugmynd sem kviknaði hjá okkur fyrir þessi jól. Við viljum gleðja þau sem koma hingað í Bónus og þá sérstaklega börnin og auðvitað foreldrana í leiðinni með alls konar gómsætu smakki og skemmtilegum viðburðum tengdum jólunum. Með þessu bjóðum við fólki upp á að gera hagkvæm jólainnkaup og njóta jólastemmningar í leiðinni. Ef þetta mælist vel fyrir hjá viðskiptavinum okkar og gengur vel þá myndi ég vilja sjá þetta verða að veruleika í fleiri verslunum okkar fyrir næstu jól," segir Björgvin.