Gómsætt jólabrauð með trönuberjum og kanil

Tinna Sædís Ægisdóttir er hæfileikaríkur bakaranemi sem hefur þegar látið …
Tinna Sædís Ægisdóttir er hæfileikaríkur bakaranemi sem hefur þegar látið ljós sitt skína. Jólabakstur er órjúfanlegur hluti af jólahaldi henni og hún nýtur þess að blanda saman íslenskum og norskum jólahefðum. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Tinna Sædís Ægisdóttir bakaranemi hefur vakið mikla athygli fyrir hæfileika sína í bakstri og það leynir sér ekki að hún elskar að baka. Hér bakar hún gómsætt jólabrauð og smákökur sem eiga rætur sínar að rekja til Noregs.

Bakstur er órjúfanlegur hluti af jólahaldi Tinnu. Fyrir þessi jól ætlar hún að baka jólabrauð með trönuberjum og kanil og smákökur sem kallast brúnir pinnar. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Tinna vitað lengi að hana langaði til að leggja bakaraiðnina fyrir sig.

Hún er einungis 21 árs gömul og fædd á Íslandi. „Ég ólst upp hérlendis og í Noregi, sem var lærdómsríkt og skemmtilegt. Ég hef starfað sem bakaranemi í rúm þrjú ár en áhuginn fyrir bakstri kom mun fyrr. Ég stefni á að klára í vor og þá loks verður sveinsprófið komið í hús,“ segir Tinna með bros á vör, en hún starfar hjá Gulla Arnari bakara í Hafnarfirði og hefur blómstrað þar í starfi.

Hverjar eru jólahefðir þínar?

„Ég get varla sagt að ég sé fastheldin á gamla siði þegar rætt er um jólabakstur, aðallega því að ég kem úr fjölskyldu sem hefur frekar gaman af því að breyta til og gera það sem fólki dettur í hug það árið. Annars reyni ég gjarnan að baka það sem er í uppáhaldi hjá öðrum fjölskyldumeðlimum, má þar nefna sörur, en þær njóta ávallt mikilla vinsælda í fjölskyldunni.“

Tinna sækir mikið í norskar uppskriftir.

„Ég hef mjög gaman af því að baka upp úr norskum uppskriftabókum, enda ólst ég einnig upp þar og á góðar minningar um norsku jólin. Lengra en það hef ég þó ekki komist en það er algjör nostalgía hvað minningar geta lifnað við í gegnum kökur og mat.“

Er eitthvað sem þér finnst ómissandi að baka fyrir jólin?

„Það er lagterta án sultu, en hún er í miklu uppáhaldi hjá pabba mínum sem borðar gjarnan eina sneið á dag,“ segir Tinna og brosir.

„Um jólin hef ég ákveðið að gera ljúffengt jólabrauð og svo er ein smákökutegund sem verður á boðstólum hjá mér í það minnsta. Brauðið er í raun úr brauðuppskrift sem ég reyni að setja í samhengi við árstíðirnar fjórar og hátíðir eins og jól og páska. Þetta er hin fínasta grunnuppskrift sem klikkar seint. Smákökurnar borðaði ég mikið í æsku þegar ég átti heima í Noregi, enda kallaðar „brune pinner“. Langflestir í Noregi kunna þessa uppskrift jafnvel utanbókar og þetta eru einar af mínum uppáhaldssmákökum.“

Jólabrauðið hennar Tinnu með trönuberjum og kanil er gómsætt og …
Jólabrauðið hennar Tinnu með trönuberjum og kanil er gómsætt og á vel við yfir hátíðarnar. mbl.is/Árni Sæberg

Jólabrauð með trönuberjum og kanil

  • 360 ml heitt vatn
  • ½ tsk. þurrger
  • 1¼ tsk. gróft salt
  • 600 g kornax brauðhveiti
  • 100 g þurrkuð trönuber
  • 2 msk. kanil

Aðferð:

  1. Byrjið á því að velja form sem þið ætlið að baka brauðið í.
  2. Blandið síðan öllum hráefnum saman í hrærivél og hnoðið saman þar til yfirflötur deigsins er orðinn sléttur.
  3. Komið síðan deiginu fyrir í skál og látið hvíla á hlýjum stað í um það bil 2 klukkustundir eða jafnvel yfir nótt (en þá skal nota kalt vatn).
  4. Þegar deigið hefur tvöfaldast að stærð, fletjið það þá út, sirka 1-1,5 cm á þykkt með kökukefli. Passið að hafa deigið í svipaðri lengd og brauðformið sem notast er við.
  5. Bleytið næst deigið örlítið með vatni og stráið kanil yfir ásamt trönuberjunum.
  6. Rúllið síðan deiginu í pylsu og komið því fyrir í ílangt brauðform.
  7. Látið hvíla í um það bil klukkustund.
  8. Penslið síðan með pískuðu eggi og bakið ofninn við 235°C hita í 20-25 mínútur.
Norsku jólasmákökurnar sem bera heitið brúnir pinnar eru í miklu …
Norsku jólasmákökurnar sem bera heitið brúnir pinnar eru í miklu uppáhaldi hjá Tinnu og minna hana á bernskuárin í Noregi. mbl.is/Árni Sæberg

Brúnir pinnar

  • 200 g smjör
  • 200 g sykur
  • 1 eggjarauða
  • 1 msk. ljóst síróp
  • ½ tsk. kanill
  • 1 tsk. vanillusykur
  • 1 tsk. matarsódi
  • 250 g hveiti
  • 1 eggjahvíta til að pensla með
  • 100 g hakkaðar möndlur til að strá ofan á
  • 30 g sykur til að strá ofan á

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 175°C.
  2. Setjið saman smjör og sykur í skál og hrærið vel saman þar til blandan verður létt og ljós.
  3. Bætið síðan við eggjarauðunni og sírópinu og hrærið saman við.
  4. Blandið síðan restinni af hráefnunum út í.
  5. Hnoðið deigið vel saman og deilið í sex jafnstóra bita.
  6. Mótið í pylsur og þrýstið niður með puttunum á bökunarplötu, u.þ.b. 0,5 cm á þykkt.
  7. Penslið með eggjahvítunni og stráið möndlum og sykri yfir.
  8. Setjið inn í ofn á 175°C hita og bakið í um það bil 12-15 mínútur.
  9. Þegar deigið hefur fengið á sig fallegan brúnan lit og er komið út úr ofninum skulu þið skera það á meðan það er heitt í lengjur í hæfilegri stærð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert