Eirný Sigurðardóttir, ostadrottning okkar Íslendinga, og Áslaug Snorradóttir, stílisti og matarljósmyndari, fara alla leið þegar bjóða á í aðventuog jólakaffi. Saman eru þær skreytingameistarar af bestu gerð og snillingar þegar kemur að því að bjóða upp á litríka og skemmtilega bragðheima.
Þær eru frægar fyrir hlaðborð sín í lautarferðum um land allt og þegar kemur að jólunum fara þær alveg fram úr sér. Þegar von var á blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins í aðventukaffi ákváðu þær að fara frumlega leið og það var bókstaflega allt skreytt. Ostar, ávextir, grænmeti, piparkökur, súkkulaði og freyðandi drykkir, svo fátt eitt sé nefnt, var allt borið á borð á listrænan og skapandi hátt. Frumlegra jólaboð er vandfundið.
„Það þarf ekki að vera hátíðartilefni fyrir okkur til að hafa gaman. Við látum aldrei tækifæri fram hjá okkur fara þegar við getum slegið upp veislu og skreytt eins og enginn sé morgundagurinn. Báðar gleðjumst við yfir öllum árstíðunum og þeim breytingum sem eiga sér stað í veðráttunni, náttúrunni og birtunni og hegðun umhverfisins á hverjum árstíma,“ segir Eirný og brosir.
„Áslaug er að sjálfsögðu einstök og sköpunargleði hennar á sér engin takmörk. Hún er einstakur matarljósmyndari og stílisti og hefur verið frumkvöðull á sínu sviði. Hún hefur ávallt verið á undan sinni samtíð,“ segir Eirný full aðdáunar.
„Ég heillaðist af henni áður en ég hitti hana i fyrsta sinn en í þá daga var hún að skapa alls konar nýjar hugmyndir fyrir Morgunblaðið. Ég bjó í Edinborg á þeim tíma en pabbi sendi mér hvert eintak í pósti og ég dáðist að henni úr fjarska.
Það má segja að eftir fyrsta hitting okkar hafi ekki verið aftur snúið og við smullum saman í eitt. Við höfum verið að halda veislur saman og alls konar viðburði og erum með Icelandpicnic saman á Instagram þar sem við setjum oft inn skemmtilegar myndir af dekurdögum okkar,“ segir Eirný glaðlega.
Þegar kom að því að ákveða þema fyrir aðventu- og jólakaffið segir Eirný að fortíðarþráin hafi kallað; þessi nostalgía sem fylgir því að skreyta með gömlu jólaskrauti og bjóða upp á jólakræsingar sem minna á jólin í bland við nýjungar.
„Ég er tengd fortíðinni þar sem mikið af jólaskrautinu kemur frá ættingjum og minnir á bernskuárin, svo finnst mér kertaljósin ómissandi. Jólaandinn svífur yfir með kertaljósunum og síðan eru það mandarínur með negulnöglum. Fyrir minn smekk elska ég lifandi jól, að vera með lifandi greni er hluti af jólahaldinu. Það er ilmurinn sem fyllir húsið og það skiptir máli en það þarf ekki að vera endilega í formi jólatrés, það geta líka bara verið greinar í vasa.“
Aðspurð segir Eirný að aðfangadagur geti verið alls konar hjá sér. „Jólin koma þegar það hentar okkur frekar en dagsetningin 24. desember. Í ár verð ég á 600 ára gömlu bóndabýli i Devon í Englandi hjá vinafólki sem framleiðir cheddar. Þá verður boðið upp á hægeldað nautakjöt, kartöflur steiktar upp úr gæsafitu og fleiri sælkerarétti. Síðan verður jólaávaxtabúðingur með vanillusósu í eftirrétt ásamt cheddar- og Stilton-ostum og dreypt verður á púrtvíni,“ segir Eirný dreymin.
„Jólin hjá mér yfir ævina hafa verið fjölbreytt, ég er alin upp í Tansaníu, Kenía og Nígeríu. Það voru því sólrík jól og oft var matur í samræmi við enskar hefðir eða einkennileg blanda frá alls kyns löndum vinafólks okkar,“ segir Eirný.
Eftir að hafa búið í Afríku lá leið hennar til Edinborgar þar sem hún bjó í 17 ár en í sex ár rak hún krá í borginni.
„Þá var ég með langa opnun á aðfangadag. Ég var langt í burtu frá fjölskyldu minni og þá var mitt dekur mandarínur og Macintosh-súkkulaði á miðnætti. Síðan eyddi ég jóladeginum hjá vinafólki sem bauð alltaf upp á kalkún með öllu tilheyrandi. Það er matur sem ég legg mér helst ekki til munns í dag,“ segir Eirný og hlær.
Eftir að Eirný flutti heim frá Edinborg opnaði hún ostabúðina Búrið sem naut mikilla vinsælda, enda sérhæfði hún sig í ostum sem margir höfðu aldrei sést hér á landi áður. „Aðventu- og jólatíminn var annasamasti tími ársins og því engin gleði að reyna að fagna jólunum á aðfangadag. Fjölskyldan ákvað því að við héldum jól þegar allir væru úthvíldir og gætu notið. Dagsetningin var því breytileg en oftast var dagurinn 27. desember eða 28. desember. Reglan þá var að allir mættu í náttfötum og til að hafa daginn sem einfaldastan var eingöngu kalt hlaðborð og stútfullt af gosi. Boðið var upp á osta, reyktan lax, hangikjöt, grænmeti, ávexti, salat og salsa, svo fátt eitt sé nefnt.“
Jólakokteill Eirnýjar og Áslaugar
Aðferð: